Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 20:24:49 (2758)

2001-12-07 20:24:49# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[20:24]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er sjónarmið hjá hv. þm. Ég er nú reyndar ekki alveg sammála því, ef það á að veita fé í fúinn bát eða bát sem þarf að gera upp, að þá sé endilega meiri þekking á því í ráðuneytinu en hjá þeim þingmönnum sem um það fjalla hér í fjárln. Ég hef fullar efasemdir um það með mikilli virðingu fyrir ágætu starfsfólki ráðuneytanna.

Hv. þm. segir að lögin séu yfirleitt samin af sérfræðingum. Ja, hvað eru sérfræðingar? Ég hef stundum setið í svona nefndum sem hafa verið að undirbúa lagasetningu og kallaðir hafa verið til menn. Í fyrra var ég t.d. í einni svona nefnd sem sneri að kjaramálum ákveðins hóps og kallað var til fólk frá þeim stéttarfélögum sem um fjölluðu, frá þeim fyrirtækjum sem ráku starfsemi í þessum sömu greinum og lögfræðingur, þingmenn. Þetta voru út af fyrir sig engir sérfræðingar. Ég tel að þetta hafi fyrst og fremst verið menn sem höfðu ágæta þekkingu á viðkomandi málaflokki.

Ég er ekkert viss um að lagafrumvörp eða lagasetning yrði betri þó að við værum að klambrast við þetta hér á Alþingi alveg frá grunni. Ég held ekki. Ég held að það sé nefnilega ágætisaðferð að gera þetta svona. Eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu þá taka þessi frv. yfirleitt mjög miklum breytingum í meðförum þingsins og yfirleitt, eins og hér var kallað fram í áðan, til hins betra. Alþingi bætir frumvörpin. Ég held að niðurstaðan yrði ekki betri þó að þetta yrði gert hér alveg frá grunni. Ég hins vegar skil það að þetta er sannfæring hv. þm. og endurtek að ég ber virðingu fyrir skoðunum hans. En ég er honum ekki alls kostar sammála.