Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 20:28:46 (2761)

2001-12-07 20:28:46# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KolH
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[20:28]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég rifja það upp í nokkrum orðum að í morgun í umræðum um fundarstjórn forseta óskaði ég formlega eftir því að hæstv. menntmrh. og hæstv. umhvrh. yrðu viðstaddir ræðu mína.

Það ber að virða sem vel er gert. Hæstv. menntmrh. kom að máli við mig um miðjan dag og sagðist því miður ekki geta verið viðstaddur, hann væri bundinn í báða skó og gæti ekki frestað plönum sínum þannig að hann gæti ekki verið viðstaddur þegar ég flytti mitt mál. En hann hét mér þó að svara spurningum mínum hér á vettvangi Alþingis þó síðar yrði. Því spyr maður: Hvað getur aumur stjórnarandstöðuþingmaður gert annað en að bukka sig og beygja sig undir vilja framkvæmdarvaldsins í þessum efnum?

(Forseti (ÁSJ): Forseti vildi bara upplýsa hv. þm. um að hæstv. fjmrh. og hæstv. umhvrh. eru til staðar í þingsal.)

Ég þakka forseta fyrir það. Ég var einmitt búin að sjá það út undan mér og var í þann mund að hafa orð á því. Hæstv. umhvrh. er hérna og ætlar að leggja við hlustir og svara kannski nokkrum spurningum sem ég hef um málefni er heyra undir ráðuneyti hennar. Ég sé ástæðu til þess að þakka fyrir viðveru hennar hér.

[20:30]

Herra forseti. Það er ekki rismikið hlutskipti útivistarmannsins og náttúruunnandans Ólafs Arnar Haraldssonar þar sem hann þarf að tala fyrir munn ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og mæra þann ímyndaða hagvöxt sem ríkisstjórnin heldur fram að verði svo og svo mikill ef af stóriðjuframkvæmdum verður. Öll þjóðin veit að að baki slíkra framkvæmda liggja mestu náttúruspjöll sögunnar og hv. þm., formaður fjárln., er ekki öfundsverður að þurfa að mæla fyrir slíkum spjöllum sem ýmsir reiknimeistarar úr hagfræðingastétt hafa sýnt fram á að eru hvorki hagvaxtarskapandi né á nokkurn hátt réttlætanleg aðgerð út frá sjónarmiðum náttúruverndar enda í hróplegu ósamræmi við lög um náttúruvernd.

Í upphafi vil ég gera umhverfismálin að umtalsefni og hefja mál mitt á stofnunum umhvrn. sem ég gerði raunar hér við 2. umr. fjárlagafrv. Þess ber að geta að í áliti umhvn. til fjárln. sem lagt var fram við 2. umr. fjárlagafrv. kemur fram að nefndin telur afar mikilvægt að bæta úr brýnum vanda Náttúruverndar ríkisins sem enn eitt árið þarf að sætta sig við framlag sem ekki nægir fyrir lögbundnum verkefnum stofnunarinnar. Má þar nefna gerð náttúruverndaráætlunar og umsjón með landvörslu á friðlýstum svæðum og í þjóðgörðum.

Nú hefur fjölgað um einn í þjóðgarðaflóru landsmanna, herra forseti, og er það vel. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður í sumar en fjármunirnir sem Náttúruvernd ríkisins fær til að stofna þennan nýja þjóðgarð nema kannski 30 millj. kr. í allt. Þar er um að ræða 10 millj. af fjárlögum yfirstandandi árs, 10 millj. samkvæmt frv. því sem hér er til umfjöllunar og kannski 10 millj. sem eru fólgnar í heimild til húsakaupa fyrir þjóðgarðsvörð.

Á ráðstefnu um væntanlegan Vatnajökulsþjóðgarð sem haldin var á Höfn í Hornafirði sl. föstudag kom fram að núvirði þess fjár sem sett var í stofnun þjóðgarðsins Skaftafells 1974 mun hafa verið 130 millj. kr., sem sagt 100 millj. kr. hærri upphæð á núvirði en þjóðgarðurinn Snæfellsjökull fær við stofnun sína. Sem framlag til stofnunar væntanlegs Vatnajökulsþjóðgarðs sem fyrirhugað er að opna á næsta ári, á alþjóðlegu ári fjalla --- og ber að fagna því --- eiga 3 milljónir að nægja.

Er þá ekki rétt að spyrja, herra forseti, hæstv. umhvrh. og svo sem líka hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson, formann fjárln.: Hvernig eru þessar hugmyndir rökstuddar, þ.e. hvernig rökstyður hv. fjárln. þessi framlög og þann mun sem kemur í ljós þegar núvirði stofnframlags til þjóðgarðs í Skaftafelli er skoðað? Hvers vegna er ekki staðið að stofnun þessara nýju þjóðgarða með sama stórhug og gert var 1974 í Skaftafelli?

Meiri hluti fjárln. gerir ráð fyrir 200 millj. kr. framlagi til samgrn. til markaðssóknar í ferðaþjónustu innan lands, og reyndar ekki síður utan. Frv. gerir ráð fyrir 50 millj. og núna á milli umræðna hefur meiri hluti fjárln. lagt fram ósk um hækkun um 150 millj. Sem sagt 200 millj. í markaðsátak samgrn. Það vekur athygli, herra forseti, að slíkir fjármunir skuli liggja á lausu á sama tíma og ekkert virðist hugsað um að halda við þeim stöðum sem gert er ráð fyrir að hingaðkomnir ferðamenn vilji skoða. Staðir sem eru þó gulrótin á veiðistöng Ferðamálaráðs því eins og kunnugt er kynnir Ferðamálaráð Ísland á erlendri grund fyrst og fremst sem paradís fyrir þá sem vilja sækja heim hreina og tæra, ef ekki ósnortna, náttúru landsins. Eins og allir vita liggja helstu náttúruperlur okkar nú undir skemmdum vegna mjög aukins ágangs ferðamanna. Og það er einungis eitt ráð í þeim efnum ef ekki á að fara enn verr og það er að efla Náttúruvernd ríkisins og gera henni kleift að sinna landvörslu á þessum stöðum, reisa nauðsynleg mannvirki eins og snyrtingar, þjónustumiðstöðvar og gestastofur og halda við og leggja nýja göngustíga, merkja gönguleiðir og annast eftirlit með umgengni um þessar perlur okkar.

Nú skal vikið að annarri stofnun sem heyrir undir hæstv. umhvrh. og er það Hollustuvernd ríkisins.

Í áðurnefndu áliti sem hv. umhvn. sendi fjárln. segir um málefni Hollustuverndar ríkisins, með leyfi forseta:

,,Í máli fulltrúa Hollustuverndar kom fram að leiðrétta þurfi fjárlagafrumvarpið vegna eldri skuldbindinga og jafnframt vanti stofnunina nú um 55 millj. kr. til að standa við ýmsar skuldbindingar sínar sem falla undir forgangsmál. Þar af eru laun og verðbreytingar stofnunarinnar ekki leiðrétt nema að hluta. Stofnunin hefur fengið aukin verkefni sem tengjast Evrópska efnahagssvæðinu en mjög skortir á að stofnunin hafi fjárhagslegan grundvöll til að geta sinnt þessum verkefnum. Nefndin telur nauðsynlegt að kannað verði hvernig unnt sé að mæta þessum þörfum.``

Nú er komið að lokum fjárlagaumræðunnar og það virðist ekki bóla á lausn á þessum undirliggjandi vanda sem Hollustuvernd ríkisins hefur búið við um árabil, ekki heldur téðri leiðréttingu sem óskað hefur verið eftir þar sem í frv. eru ekki reiknaðar launahækkanir eða verðbætur nema að hluta.

Það er varla skrýtið, herra forseti, þótt maður velti hér vöngum og spyrji: Hvers vegna er ekki hægt að leiðrétta augljósar skekkjur í frv. til fjárlaga þegar hægt er að gera jafnmargar brtt. og hv. meiri hluti fjárln. hefur nú þegar gert?

Þá skulum við skoða í hverju vandi Hollustuverndarinnar er fólginn og þá um leið vandi neytenda, þ.e. okkar sem þurfum að reiða okkur á starfsemi hennar. Hlutverk Hollustuverndar ríkisins er að vernda þau lífsskilyrði sem felast í ómenguðu umhverfi, heilnæmum matvælum og skaðlausum nauðsynjavörum. Nú er svo komið að stofnunin kemst hvorki yfir að þýða né innleiða allar þær EES-reglugerðir sem við höfum skuldbundið okkur til að fara eftir eða leiða í lög til að tryggja lífsgæði okkar og barnanna okkar. Hér er um að ræða reglur er lúta að mengun vatns, lofts og sjávar, samræmingu á matvælaeftirliti um land allt, ýmis mál er lúta að meðferð og eftirliti með eiturefnum og hættulegum efnum og svona mætti raunar lengi telja.

Manni finnst það önugt, herra forseti, þegar nýbúið er að samþykkja 14 milljarða kr. fjáraukalög þar sem innifalin eru hundruð milljóna til umdeildra verkefna á borð við einkavæðingarbrask hæstv. ríkisstjórnar og tugi millj. kr. til að greiða mat á umhverfisáhrifum álvers sem okkur hefur nú verið talin trú um að sé hugsað sem framkvæmd einhverra einkaaðila, álfursta sem starfa undir heitinu ,,Reyðarál``, en virðist þegar allt kemur til alls vera greitt af opinberu fé, að ekki sé talað um, herra forseti, fyrirhugaðar 300--400 milljónir sem á að nota til að halda leiðtogafund NATO-ríkjanna hér á Íslandi á næsta ári.

Þegar allt þetta er skoðað, herra forseti, finnst mér skjóta skökku við að ekki skuli vera hægt að standa sómasamlega að heilbrigðis- og hollustueftirliti í þessu landi. Gott væri að heyra hæstv. umhvrh. fara um það nokkrum orðum hvort hún sætti sig við þetta eða hvort hún hyggist skjóta skildi fyrir Hollustuvernd ríkisins á annan hátt en þann að sjá til þess að stofnunin geti flutt í mannsæmandi húsnæði sem á að gera á næsta ári, og því ber að fagna.

Þriðja stofnunin sem ég geri hér að umtalsefni, herra forseti, og heyrir undir hæstv. umhvrh. er Skipulagsstofnun. Sú stofnun hefur líka eins og hinar mikilvæg lögbundin hlutverk. Og það skiptir okkur öll miklu máli að þessi stofnun fái sinnt þeim hlutverkum sem henni eru falin í lögum.

Það kom fram við 2. umr. fjárlagafrv. að á fjárlagalið 14-303 Skipulagsmál sveitarfélaga verði einungis 80 millj. til ráðstöfunar í stað 110 millj. í ár. Nú skal það tekið fram að hér er ekki um beint framlag úr ríkissjóði að ræða heldur gjald sem innheimt er með lagaheimild og að sönnu munu þessar 110 millj. innheimtast í Skipulagssjóð en 30 millj. af þeim munu víst eiga að liggja óhreyfðar og ekki vera aðgengilegar fyrir Skipulagsstofnun til að greiða niður kostnað sveitarfélaganna við aðalskipulagsgerð.

Í áliti umhvn. til fjárln. sem ég áður hef nefnt er vikið að þessu máli og er nefndin sammála um að mikilvægt sé að Skipulagssjóður hafi fjárhagslega burði til að ná því setta markmiði að aðalskipulagsgerð fyrir öll sveitarfélög í landinu verði lokið árið 2008 eins og kveðið er á um í skipulags- og byggingarlögum.

Nú er rétt að leita svara við því hjá hæstv. umhvrh. og/eða hv. formanni fjárln. sem meðal annarra orða er ekki sýnilegur hér í salnum, herra forseti, en gæti mögulega verið í hliðarherbergjum --- það mætti alveg gera hv. þm. viðvart að hér eru ýmsar spurningar sem væri gott að fá álit hans á. En ég spyr þá hæstv. umhvrh.: Hvað á það að fyrirstilla að frysta þessar 30 milljónir? Er kannski um einhver mistök að ræða sem væri hægt að leiðrétta? Það getur varla verið að hæstv. umhvrh. vilji setja aðalskipulag landsins í uppnám út af einhverjum frosthörkum í Skipulagssjóði. Úr því að ég er byrjuð að tala um frosthörkur má kannski geta þess að Veðurstofan heyrir jafnframt undir hæstv. ráðherra þannig að það er spurning hvort hún getur ekki beðið um gott veður í þessum efnum og stillt á svolitla þíðu til að losa um þessa fjármuni.

Í ræðu minni við 2. umr., herra forseti, gerði ég að umtalsefni framlag til stuðnings ýmissa náttúruverndarsamtaka og er nú komið að þeim kafla á nýjan leik.

Í 2. umr. um fjárlagafrv. virtist mér --- og ég gerði grein fyrir því í ræðu --- að einungis væri gert ráð fyrir 4 millj. kr. framlagi til stuðnings ýmissa náttúruverndarsamtaka og ég skammaðist eitthvað yfir því að með því væri verið að svíkja loforð hæstv. umhvrh. um umtalsverða hækkun til slíkra samtaka sem hún hafði gefið hér í þingsölum í tengslum við fyrirætlanir um að Náttúruverndarráð yrði lagt niður. Hæstv. ráðherrann hafði gefið yfirlýsingar um að fjármunir þeir sem farið hafa í starfsemi Náttúruverndarráðs, 8 millj. kr., yrðu notaðir til stuðnings við frjáls félagasamtök á sviði náttúru- og umhverfisverndar. En á yfirstandandi ári hafa 4 millj. farið til slíkra samtaka.

Við nánari skoðun kemur í ljós að á fjárlagaliðnum 14-190 Ýmis verkefni er nú í heildina gert ráð fyrir 9,5 millj. kr. Af því eru ein og hálf milljón eyrnamerkt ákveðnu verkefni, skráningu gamalla húsa að Núpsstað en þá standa eftir 8 millj.

Í greinargerð meiri hluta fjárln. við 2. umr. kom fram að liðurinn var hækkaður um 4 millj. kr. frá því sem frv. gerði ráð fyrir og segir í skýringu meiri hluta nefndarinnar að þessum 4 millj. eigi að verja til stuðnings ýmissa náttúruverndarsamtaka. Svo virðist sem meiri hluti nefndarinnar hafi ætlast til þess að framlag til náttúruverndarsamtaka hækkaði um 4 millj. frá því sem nú er veitt til þeirra eða í 8 millj. kr. samtals. Og ég spyr: Er það réttur skilningur hjá mér að á fjárlögum næsta árs komi til með að verða 8 millj. til ráðstöfunar til þessara frjálsu félagasamtaka?

Ég vil minna í þessu sambandi, herra forseti, á ummæli úr bréfi umhvn. til fjárln. um þetta mál sem lýsir vilja umhvn. í þessum efnum en þar segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að af framangreindum safnlið 14-190 fari 1,5 millj. kr. til skráningar á gömlum húsum að Núpsstað á Suðurlandi. Nefndin gerir ekki athugasemdir við þessa tillögu og leggur jafnframt til að umhverfisráðuneytinu verði falið að skipta liðnum frekar milli frjálsra félagasamtaka, samtals 4,0 millj. kr. Þessum fjármunum verði skipt eftir vinnureglu sem ráðuneytið hefur mótað í samráði við félagasamtökin og verði þar m.a. tekið tillit til eðlis starfsemi viðkomandi félaga, umfangs þeirra og jafnræðis gætt við úthlutun. Nefndin leggur því til að umsókn Náttúruverndarsamtaka Íslands,`` sem var til umfjöllunar í nefndinni, ,,verði vísað til ráðuneytisins jafnframt því sem nefndin mælir með umsókninni.``

Þarna lýsir sem sagt umhvn. Alþingis, herra forseti, vilja sínum um að náttúruverndarsamtök hljóti styrk sem nemur öllum fjárlagaliðnum og svo þegar liðurinn er hækkaður upp í 8 millj. er mikilvægt að fá að heyra hvort hæstv. umhvrh. hyggist deila öllu því fé niður á frjáls félagasamtök.

Og í niðurlagi þessa bréfs sem ég var að vitna til áðan segir líka, með leyfi forseta:

,,Umhverfisnefnd mun á yfirstandandi þingi taka til umfjöllunar hvernig ákvörðun um fjárframlög til félagasamtaka verði háttað í framtíðinni.``

Og ég tel mikilvægt, herra forseti, að gera sérstaklega grein fyrir þessari yfirlýsingu nefndarinnar hérna þar sem vilji nefndarinnar er þeim samtökum sem starfa á sviði umhverfis- og náttúruverndar mjög mikils virði. Yfirlýsing nefndarinnar er líka afar mikilvæg nú þegar stjórnvöld undirbúa löggildingu Árósasamningsins sem kveður á um aðkomu frjálsra félagasamtaka að stjórnsýslu umhverfis- og náttúruverndarmála.

[20:45]

Herra forseti. Þá vík ég nokkrum orðum að þeim málaflokki sem heyrir undir menntmn. sem ég á einnig sæti í. Í því sambandi vil ég segja það eitt að hv. þm. Jón Bjarnason hefur gert hér í ítarlegu máli grein fyrir áliti 2. minni hluta fjárln. sem hann stendur að. Hann hefur í því áliti sínu gert grein fyrir nokkrum brtt. við fjárlagafrv. sem hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggja fram. Ég tala hér fyrir þeim hluta brtt. á þskj. 505, herra forseti, sem varðar minjaverndina okkar, þjóðararfinn okkar, Þjóðminjasafn Íslands, Fornleifasjóð, safnasjóð og húsasafn Þjóðminjasafnsins.

Herra forseti. Ég gat um það í 2. umr. um fjárlagafrv. að svo virðist vera sem enn ein mistökin hafi orðið hvað varðar Þjóðminjasafnið, að þar hafi ekki verið gert ráð fyrir þeim fjármunum sem nauðsynlegir eru til að Þjóðminjasafnið geti opnað á tilsettum tíma. Vonir hafa staðið til þess að endurbyggingu Þjóðminjasafnsins verði lokið á árinu 2003 þannig að hægt verði að opna safnið á 140 ára afmæli þess árið 2003. Samkvæmt frv. til fjárlaga 2002 er gert ráð fyrir fé til framkvæmda við bygginguna við Suðurgötu en ekki neinu fé til nýrrar grunnsýningar í safninu. Af því mætti ætla að ráðgert væri að opna Þjóðminjasafnið tómt --- án nokkurra þjóðminja --- en það getur varla verið ætlunin, herra forseti, því ef á að vera hægt að gera safninu kleift að opna nýja grunnsýningu á menningararfi þjóðarinnar í nýuppgerðu húsnæði safnsins á tilsettum tíma þarf að undirbúa hana þannig að sómi verði að og sýningin geti staðist kröfur sem gerðar eru til sýninga af þessu tagi. Til að koma slíkri sýningu upp, herra forseti, þarf að forverja gripi, það þarf að fjárfesta í tæknibúnaði, rita og gefa út sýningarskrár á nokkrum tungumálum og markaðssetja sýninguna og safnið í heild sem ekki hefur getað tekið á móti gestum frá 1999.

Samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum mun ný grunnsýning kosta Þjóðminjasafnið um 120 millj. kr. Það er raunhæft að deila þeim kostnaði niður á þrjú ár, 2002, 2003 og 2004. Ósk af þessu tagi hefur komið fyrir hv. fjárln. Með þessu þyrfti 40 millj. kr. framlag til sýningarinnar á næsta ári og fáist það ekki, herra forseti, eru engar líkur á að opnuð verði sýning í húsinu á afmælisárinu 2003. Þess vegna er samkvæmt þessari brtt. lagt til að Þjóðminjasafnið fái sem fyrsta þrep í undirbúningi þessarar opnunar á nýrri grunnsýningu 40 millj. kr.

Í öðru lagi gerum við í þessari brtt. ráð fyrir að settur verði á laggirnar fornleifasjóður en svo er fyrir mælt í 24. gr. nýrra laga um þjóðminjar, nr. 107/2001.

Í 1. umr. um fjárlagafrv. kom það fram í svari hæstv. menntmrh. við ræðu minni að búið væri að setja á stofn sjóðstjórn þessa fornleifasjóðs en hæstv. ráðherra viðurkenndi sömuleiðis að ekki væri gert ráð fyrir neinum fjármunum í fjárlagafrv. og á máli hans mátti skilja að þetta yrði allt skoðað á milli 2. og 3. umr., ekki einasta safnasjóðurinn sem hefur með réttu verið skoðaður og búinn til á nýjum fjárlagalið samkvæmt nýjustu tillögum meiri hluta fjárln., heldur einnig fornleifasjóðurinn. En ekki bólar á honum í tillögum meiri hluta hv. fjárln.

Hlutverk þessa fornleifasjóðs á samkvæmt lögunum að stuðla að varðveislu og rannsóknum á fornleifum og forngripum. Tekjur sjóðsins eiga samkvæmt lögunum að vera framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum en samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrv. er, eins og ég sagði áðan, ekki gert ráð fyrir neinu framlagi í þennan nýja sjóð. Og, herra forseti, það hlýtur að þurfa að leiðrétta það.

Tillaga sú sem ég mæli hér fyrir gerir ráð fyrir 10 millj. kr. framlagi til að stofna fornleifasjóð.

Í þriðja og síðasta lagi varðandi brtt. á þskj. 505 fjallar 5. liður brtt. um menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnað. Samkvæmt tillögum meiri hluta fjárln. hefur verið farið inn í þann sjóð, Endurbótasjóð menningarstofnana, og sést í tillögum meiri hlutans hvernig sá niðurskurður á að koma niður á ólíkum verkefnum sem heyra undir endurbótasjóðinn. Þar er gert ráð fyrir að endurbygging Þjóðminjasafnsins fái 225 millj. kr. sem er lækkun úr 240 millj. sem frv. gerði ráð fyrir. Þar er gert ráð fyrir að verndun gamalla húsa í umsjón Þjóðminjasafnsins fái 50 millj. kr. sem er 15 millj. kr. lækkun frá því sem frv. gerir ráð fyrir. Síðan eru taldar upp bókageymslur í Reykholti, þær halda sínum hlut, 5 millj. Framkvæmdastyrkir byggðasafna lækka samkvæmt tillögum meiri hlutans úr 25 millj., sem frv. gerði ráð fyrir, í 20.

Endurbætur við Þjóðleikhúsið eru lækkaðar samkvæmt tillögum meiri hluta nefndarinnar úr 30 millj. sem frv. gerir ráð fyrir í 10 millj.

Þjóðskjalasafn Íslands. Endurbætur við það standa í stað en síðan er óskipti liðurinn lækkaður.

Brtt. hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lýtur einungis að húsasafni Þjóðminjasafnsins en það verður illa fyrir barðinu á þessum niðurskurði fjárln. og hlýtur að teljast undarlegt að meiri hluti fjárln. skuli upp á sitt einsdæmi úthluta umtalsverðu fé til endurbyggingar gamalla húsa víða um land --- og skal ekki gerð athugasemd, af sama gefna tilefni, við þau verkefni sem þar um ræðir --- en það hlýtur að vera undarlegt að þetta fjármagn skuli vera til á meðan verðmætustu og viðkvæmustu byggingar þjóðarinnar, t.d. torfbæir á forræði Þjóðminjasafnsins, þurfa að þola 15 millj. kr. niðurskurð.

Samkvæmt síðustu brtt. meiri hluta fjárln. eru þessar 50 millj. kr. ætlaðar til húsasafnsins en á yfirstandandi ári og í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir 65 millj. þannig að við flytjum hér brtt., herra forseti, sem gerir ráð fyrir 15 millj. kr. viðbótarframlagi til húsasafnsins svo það fái að halda sínum hlut. Það er líka eitt, herra forseti, í þessu sambandi sem verður að hafa í huga. Fjöldinn allur af fólki starfar við viðhald bygginga Þjóðminjasafnsins sem eru vítt og breitt um landið, handverksmenn sem hafa sérþekkingu á t.d. torfhleðslum og viðhaldi gamalla bygginga af þessu tagi. Því lengur sem dankast að halda við húsum af þessu tagi, því meiri verður skaðinn. Hér er því um afar brýnt verkefni að ræða og verður að sjá til þess að húsasafni Þjóðminjasafnsins verði gert kleift að starfa á þeim nótum sem það hefur gert hingað til.

Að öðru leyti má segja það um nýju þjóðminjalögin og framkvæmd þeirra að það er önugt, herra forseti, að hæstv. menntmrh. skuli ætla að samþykkja það að Fornleifavernd ríkisins, hin nýja stofnun, skuli einungis vera tekin innan úr Þjóðminjasafninu með því að flytja til tvo eða þrjá fornleifafræðinga sem settir eru inn í annað skrifstofuherbergi en þeir hafa setið í hingað til og það er allt og sumt. Það eru engir nýir fjármunir ætlaðir í Fornleifavernd ríkisins.

Ég fékk engin svör hjá hæstv. ráðherra varðandi þetta við 2. umr. fjárlaga. Okkur væri fengur að því ef hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson gæti gefið okkur einhverjar skýringar á áliti meiri hluta fjárln. í þessum efnum. Er það forsvaranlegt að setja á fót nýja ríkisstofnun á þann hátt að skera hana innan úr annarri? Það verður að segjast eins og er, herra forseti, það er ámælisvert þegar verið er að tala um þjóðararfinn okkar, um þjóðarmenningu okkar sem Þjóðminjasafninu hefur samkvæmt lögum verið falið að varðveita og hluti þeirrar varðveislu á að ganga til Fornleifaverndar ríkisins, að ekki skuli þá gengið fram af meiri metnaði og af meiri fagmennsku en hér er gert.

Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að varðandi mál af þessu tagi verður að sjá til þess að hæstv. ráðamenn þjóðarinnar haldi trúnað við þær stofnanir sem um ræðir, verði trúverðugir með því að sjá þeim stofnunum sem um er fjallað hér fyrir því fjármagni sem gerir þeim kleift að standa undir lögbundnu hlutverki sínu á faglegan og metnaðarfullan hátt. Það er algjör nauðsyn.

Varðandi önnur mál sem heyra undir valdsvið hæstv. menntmrh. hafa hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs gert grein fyrir sjónarmiðum okkar varðandi þær auknu álögur sem námsmenn þurfa að þola í þessu fjárlagafrv. Þó að lítillega sé dregið úr núna í nýjustu tillögum fjárln. er það svo lítið að það er nánast ekki orð á því gerandi, herra forseti. Enn þá þurfa námsmenn að lúta því að stór hluti af samdrætti í fjárlagafrv. er fjármagnaður af þeim. Þetta hafa hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs gagnrýnt, sem og þá staðreynd að sjúklingar skuli eiga að hlaupa undir bagga með ríkisstjórninni.

Við höfum sömuleiðis, herra forseti, flutt hér tillögur um breytingu á skatttekjum til að fjármagna verkefni á annan hátt en hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að gera. Við höfum lagt til að því verði frestað að gera breytingar á viðmiðun skattþreps þeirra sem hæst laun hafa, þar með yrði skapað svigrúm upp á 600 millj. kr. og við höfum lagt til að helmingnum af eignarskattslækkuninni verði frestað. Þannig verði til svigrúm upp á 500 millj. kr.

Á breytingartillöguskjali okkar nr. 505 getur að líta hvernig við sjáum möguleika á að koma til móts við ákveðna þætti í áherslum okkar sem lúta að stefnu okkar í skattamálunum, stefnu okkar í velferðarmálunum, stefnu okkar í menningarmálum og stefnu okkar í umverfismálum, og rekin til föðurhúsanna þau orð hæstv. fjmrh. sem leyfði sér hér í lokasetningu í andsvari í gærkveldi að halda því fram að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefði ekki lagt fram neina stefnu að mér skildist í nokkru máli. Og mátti það standa þversum í hálsinum á hæstv. fjmrh. mín vegna og rek ég það til föðurhúsanna því að, eins og hann veit fullvel sem og aðrir þingmenn sem hér í sal hafa setið, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt hér fram hvert þingmálið á fætur öðru sem einmitt eru stefnumarkandi mál. Nægir þar að nefna endurreisn velferðarkerfisins, sjálfbæra atvinnustefnu, sjálfbæra orkustefnu og sérstakar aðgerðir í byggðamálum. Ég gæti talið áfram þannig að þau ummæli hæstv. fjmrh. séu rekin til föðurhúsanna.

Herra forseti. Ég hef farið í nokkuð ítarlegu máli yfir þá málaflokka sem ég hef sinnt sem þingmaður og nefndarmaður í menntmn. og umhvn. Ég geri ráð fyrir að fá hér einhver viðbrögð frá hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni og hæstv. umhvrh. sem hlýtt hefur á mál mitt. Að öðru leyti læt ég bara í ljósi vonbrigði mín með það að hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti fjárln. skuli ekki hafa fundið aðrar leiðir en raun ber vitni til að standa undir fjármögnun ríkissjóðs á næsta ári.