Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 21:20:13 (2764)

2001-12-07 21:20:13# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[21:20]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Allir forstöðumenn og allar stofnanir vilja fá meira fé. Það er hefðbundið og hefur verið svo alla tíð að ég tel.

Varðandi frjálsu félagasamtökin þá höfum við hingað til látið þau sem eru stærri fá meira fé í rekstrarstyrki en minni félög. Auðvitað er umdeilanlegt hvort þannig eigi að hafa það. En ég vil benda á, vegna þess að hv. þm. sagði að það væri kannski eðlilegra að þeir sem störfuðu mikið ættu að fá meira, að ef við höfum þann hluta af pottinum stóran sem fer til verkefnatengdrar úthlutunar þá munu að sjálfsögðu þau félög sem eru snjöll og dugleg að finna upp á góðum verkefnum fá meira fé, þau sem geta þá sannfært okkur um að þau séu með góð verkefni. Það er því ómögulegt að átta sig á því í dag hvað hver fær, það fer eftir því hve duglegir menn eru. En ég tel að það þurfi líka að skoða stærð félaga að einhverju leyti varðandi rekstrarstyrki.

Það er rétt að Landvernd fær fé eftir öðrum leiðum en úr þessum potti. Landvernd hefur fengið fé til annarra verkefna eins og í rammaáætlun þar sem þeir veita ákveðna þjónustu. Við höfum ekki skoðað það beint hvort lækka eigi fjárveitingar frá okkur til þeirra sem sækja fé annars staðar frá. Ég tel að það gæti verið mjög flókið og tel að það sé mjög jákvætt að félög reyni að afla sér tekna hjá fleiri aðilum, t.d. hjá einkafyrirtækjum og á annan hátt. Ég er ekki viss um að það væri æskilegt að við létum félög sem verða sér úti um fé annars staðar frá gjalda þess, ég veit ekki alveg hvar það mundi enda.

Það er ekki búið að ganga frá neinum reglum í þessu sambandi en ég fagna því að þessi félög nái sér í fjármagn á sem breiðustum grundvelli.