Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 21:53:27 (2768)

2001-12-07 21:53:27# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[21:53]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Fjárlagafrv. sem nú er tekið til lokaafgreiðslu tel ég að sé vanburða, bæði á útgjalda- og tekjuhlið. Ég tel ljóst að það gefi ekki þá festu á markaði eða í efnahagslífi sem nauðsynleg er til að slá á verðbólgu og viðskiptahalla og skapa svigrúm til vaxtalækkana. Ég held að þetta fjárlagafrv. hefði þurft að fara raunverulega til ríkisstjórnarinnar aftur og til endurskoðunar, hefði því verið ætlað að ná því markmiði sem ríkisstjórnin segist vilja stefna að.

Í spá Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að samdráttur í einkaneyslu verði meiri en áður var reiknað með. Nú er búist við að samdrátturinn nemi 2% í stað 1% í fyrri áætlun. Samdrátturinn í einkaneyslu hefur veruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs og sýnir ljóslega að ríkissjóður hefur fyrst og fremst nærst á útgjaldaþenslu í þjóðfélaginu og mikilli einkaneyslu. Það ásamt sölu eigna hefur fyrst og fremst skilað þeim tekjuafgangi sem ríkisstjórnin hefur státað sig af, en ekki skynsamleg hagstjórn, sem síðan hefur aftur leitt til vaxandi verðbólgu og viðskiptahalla og svimandi hárra vaxta sem eru að knésetja bæði heimili og fyrirtæki.

Vextir hér á landi eru þrisvar til fjórum sinnum hærri en í öðrum löndum sem við berum okkur saman við. Viðskiptahallinn er enn svimandi hár. Skuldastaða fyrirtækja og einstaklinga er komin á mjög alvarlegt stig og gæti hreinlega, að mínu mati, farið að hrikta í stoðum fjármálastofnana af þeim sökum. Skuldir einstaklinga eru um 675 milljarðar kr. og nálgast 170% af ráðstöfunartekjum heimilanna.

Auðvitað er mikið í húfi með að ná tökum á verðbólgunni því hvert einasta prósentustig í hækkun verðbólgunnar eykur skuldir heimilanna um hvorki meira né minna en 5--6 milljarða kr. Aukning á erlendum skuldum þjóðarbúsins er gríðarleg. Þær voru 80% af landsframleiðslu í fyrra, 110% af landsframleiðslu í ár og stefnir í 120% af landsframleiðslu á næsta ári eða um 940 milljarða kr. Í endurskoðaðri tekju\-áætlun kemur fram að samdráttur í einkaneyslu á sköttum af vöru og þjónustu mun dragast saman um 2,8 milljarða, ef ég man rétt, aðallega í virðisaukaskatti um 2,5 milljarða kr.

Verulegar vísbendingar eru um að hér sé um vanmat á ferðinni að ræða og að einkaneyslan dragist miklu meira saman. Þar vísa ég til þess mismunar sem er á spá Þjóðhagsstofnunar um samdrátt í einkaneyslu og spá frá fjmrn., en þar munar um hálfu prósenti. Ég held að reynslan sýni okkur að við eigum að treysta Þjóðhagsstofnun betur en þeim spám sem fjmrn. gerir. Í því sambandi minni ég á að verðbólguspáin sem sett var fram af Þjóðhagsstofnun fyrir næsta ár var að hún yrði 5,9% en 5% hjá fjmrn.

Ég spyr, herra forseti: Hvor hafði rétt fyrir sér? Spáin hjá báðum þessum aðilum er 6% þannig að Þjóðhagsstofnun spáði rétt í því máli. Það athyglisverða er, herra forseti, að séu forsendur Þjóðhagsstofnunar lagðar til grundvallar, má áætla að tekjur af virðisaukaskatti lækki ekki bara um 2,5 milljarða kr. heldur 1,2--1,5 milljarða til viðbótar og verði þá 3,7 milljarðar í tekjutap í stað 2,5 milljarða eins og það er í endurskoðaðri tekjuspá frá fjmrn. Það þýðir, herra forseti, að tekjutapið verður að líkindum mun meira en endurskoðuð tekjuáætlun gerir ráð fyrir.

Ég bendi einnig á þann mismun sem kemur fram í spá Þjóðhagsstofnunar og fjmrn. varðandi innflutning á vöru og þjónustu. Það kemur fram í forsendum fjmrn. að hann dragist saman um 4,3%. En í endurskoðaðri þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir mun meiri samdrætti, eða 7,1%. Gangi það eftir sem kemur fram í endurskoðaðri þjóðhagsáætlun þá mun það auka á tekjutapið, sem áætla má um 300--400 millj. meira en þær 97 millj. sem áætlaðar eru í endurskoðaðri tekjuspá. Því er ljóst að aðeins vegna þess vanmats megi þegar bæta við það tekjutap sem þarna er áætlað, bæði varðandi þá vörugjaldið og virðisaukaskattinn eitthverju á bilinu 1,7--2 milljarða. Það er því ekki ofsagt í áliti 1. minni hluta að áætlað sé að tekjur séu ofmetnar um 3--4 milljarða.

Herra forseti. Það er hárrétt lýsing í nefndaráliti 1. minni hluta að helmingur niðurskurðartillagnanna byggist á bókhaldslegum millifærslum og að tekjuhliðin sé notuð sem afgangsstærð. Veikleikarnir á útgjaldahlið eru líka miklir. Ég nefni sjúkrahúsin sem dæmi. Þar vantar nokkur hundruð milljónir upp á og því til viðbótar eru svo ýmsir veikleikar á útgjaldahlið, eins og hér hefur verið rætt í dag, t.d. 800 millj. í lífeyrisskuldbindingar, sem lækkaðar eru til að búa til það sem ég vil kalla, pappírstekjuafgang.

[22:00]

Mér finnst einnig lítið trúverðug aukningin sem kemur fram m.a. í tekjuskatti einstaklinga og tel ég að hún sé verulega ýkt. Maður spyr: Til hvers? Er verið að knýja fram óraunhæfan afgang þannig að verið er að láta svo sýnast að tekjuafgangurinn sé meiri á fjárlögunum en hann í raun og sanni mun verða?

Ég tel mjög óvarlegt að treysta því sem fram kemur í endurskoðaðri tekjuáætlun fjárlaga um verulega aukningu á skattgreiðslum einstaklinga sem er áætlað að gefi um 3 milljarða kr., enda er gert ráð fyrir verulega minna launaskriði en verið hefur, ekki síst þegar þessi aukning í tekjusköttum er skoðuð í samhengi við spá Þjóðhagsstofnunar sem segir að að teknu tilliti til breytinga á sköttum einstaklinga og vaxtalækkana undanfarið sé engu að síður gert ráð fyrir 1% samdrætti í kaupmætti ráðstöfunartekna.

Auk þess er einn mikill óvissuliður í allri spánni, þ.e það uppnám sem kjarasamningarnir eru í og allar spár, raunar bæði um gengi og launaforsendur, eru í vindinum. Launaforsendur Þjóðhagsstofnunar byggja m.a. á því að launaforsendur kjarasamninga verði ekki endurskoðaðar.

Ég tel að í heild séu þær breytingar sem sýndar eru í endurskoðaðri tekjuáætlun ofmetnar í þeim tilgangi að reyna í einhverri örvæntingu að skapa trú á fjárlögunum með sýndarmennskuafgangi sem ekki mun þegar á reynir standast, allt í þeim tilgangi, herra forseti, að koma í veg fyrir að miklir veikleikar fjárlaganna, bæði á útgjalda- og tekjuhlið, geti haft neikvæð áhrif á efnahags- og atvinnulífið.

Mér kæmi heldur ekki á óvart að atvinnuleysi væri vanmetið, en forsendurnar byggjast á 2% atvinnuleysi miðað við 1,4% í ár. Í því sambandi er spáð verulegum samdrætti í fjárfestingum, eða um 14%.

Spár Þjóðhagsstofnunar gera líka ráð fyrir að landsframleiðslan dragist saman um 1%, en í fyrri spá var gert ráð fyrir 0,3% samdrætti. Allt hefur þetta veruleg áhrif á atvinnustigið í landinu.

Herra forseti. Allir vita að kjarasamningarnir eru í algjöru uppnámi núna. Verðbólgan var 8% sl. 12 mánuði. Verð á nauðþurftum hefur á stuttum tíma hækkað um 25%. Vextir eru hvergi hærri en hér. Gengið hefur fallið um 25--30% á þessu ári. Það er alveg ljóst, herra forseti, í mínum huga að það er búið að éta upp allar kjarabætur sem launafólk samdi um síðast og auðvitað er búið að éta upp þá litlu hækkun sem lífeyrisþegar, aldraðir og öryrkjar hafa fengið á sinn lífeyri.

Ég er ekki með það blað við höndina, en ég sá haft eftir hagfræðingi ASÍ að hún telur að fyrir löngu sé horfin öll sú launahækkun sem launafólk fékk þegar síðast var samið.

Herra forseti. Varðandi þær tekjutölur sem ég hef verið að nefna og endurskoðaða tekjuspá þá ég held að það sé alveg ljóst að verið er að setja þetta upp í þessa talnaleikfimi til að reyna að blekkja markaðinn og reyna að skapa trúverðugleika sem ekki stenst í kapphlaupinu við að reyna að styrkja gengið.

Herra forseti. Ég skal láta þetta nægja um þetta. En ég vil aðeins fara í tillögur sem fulltrúar Samfylkingarinnar í fjárln. hafa sett fram, en vil áður segja að tillögur okkar við fjárlagagerðina nú og tillögur stjórnarflokkanna endurspegla allt aðra sýn sem við viljum hafa á samfélaginu en stjórnarflokkarnir hafa, með líkum hætti og við sýndum fram á í gær við umræðuna um skattalagabreytingar ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Það er athyglisvert þegar aðhalds er krafist á öllum sviðum, þegar svo langt er gengið að verið er að setja hér á sjúklingaskatta, t.d. í auknum lyfjakostnaði, og komugjöld í heilsugæslunni og heimsóknum til sérfræðilækna um 500 millj., að þá eru aðalskrifstofurnar að auka kostnað sinn og þar er um að ræða raunhækkun upp á 170 millj. kr.

Það er athyglisvert þegar maður skoðar raunaukninguna í aðalskrifstofu ráðuneytanna, herra forseti, sem ég er hér með sundurliðað, raunaukningu á framlögum til ráðuneytanna og stofnana þess, þ.e. ekki aðalskrifstofunnar heldur þeirra verkefna sem heyra undir öll þessi ráðuneyti, að þá er raunaukningin að meðaltali í öllum ráðuneytunum í fjárlagafrv. næsta árs um 4,3%. En þegar skoðuð er raunaukning á aðalskrifstofunum kemur allt annað í ljós í fjárlagafrv. Ég hef ekki borið það saman hvort eitthvað hafi þá breyst. Núna við 3. umr. er raunaukning í forsrn., þ.e. á aðalskrifstofunni 20,5%, en meðalraunaukning til þeirra verkefna sem heyra undir ráðuneytin eru 4,3%. Raunaukning á aðalskrifstofu sjútvrn. er 5,3%, en meðaltalið til þeirra verkefna sem heyra undir þessi ráðuneyti eru 4,3%. Raunaukning til aðalskrifstofu heilbrrn. er til að mynda 7,5% og raunaukning til aðalskrifstofu umhvrn. er 10,6%.

Ráðherrarnir sjá því um sig, herra forseti. Ráðherrarnir sjá um sig og aðalskrifstofur sínar, að það sé nú haldið í við a.m.k. verðlag og gott betur því raunaukningin er 170 millj. hjá aðalskrifstofum ráðuneytanna meðan verið er að skera niður, herra forseti, framlög til velferðarkerfisins. Og svo langt er gengið að verið er að skattleggja sérstaklega sjúklinga og skólafólk og leggja aukin gjöld á bifreiðaeigendur, eins píndir og þeir eru nú fyrir.

Það sem kemur mér sífellt á óvart, herra forseti, er að Framsfl. skuli láta teyma sig í þennan niðurskurð á velferðarkerfinu, ganga svo langt að alltaf er verið að finna matarholur þar sem síst skyldi, alltaf verið að leita til þeirra hópa sem verst hafa það í þjóðfélaginu og reyna að næla sér þar í einhverja peninga til þess að sýna einhvern afgang á fjárlögum. En aldrei er leitað þar sem á að leita í þessu efni.

Mér kemur t.d. alltaf á óvart, þegar svona illa er komið í þjóðfélaginu að stjórnarflokkarnir hafa glutrað niður þeirri stöðu sem við höfðum í efnahagsmálum, að ekki skuli vera farið í að lækka risnu og ferðakostnað sem hefur aukist um tæpar 500 millj. á tveimur árum.

Herra forseti. Aldrei er leitað að peningum þarna. Þar er þó um að ræða aukningu um tæpar 500 millj. á tveimur árum. og það er auðvitað hárrétt leið sem við í Samfylkingunni viljum fara, þ.e. að láta skera þá liði um 420 millj.

Herra forseti. Ef það væri gert gætum við sloppið við að hækka lyfjakostnað á sjúklinga eða komugjöld í heilsugæsluna eða gjald fyrir heimsóknir sjúklinga til sérfræðinga.

Það er vissulega athyglisvert sem fram kom í dag og BSRB hefur beitt sér fyrir, og eiga þeir þakkir skildar fyrir það, þ.e. að þeir sýna fram á hvaða aukning hefur orðið hjá heimilunum að því er varðar kostnað við heilbrigðisþjónustuna. Það reyndar ber saman við það sem kom fram í svari heilbrrh. við fyrirspurn minni fyrr á þessu þingi um að sjúklingar greiða þriðjung af lyfja- og lækniskostnaði. Og þetta kemur enn skýrar fram í þeim útreikningum sem BSRB birti í dag.

Herra forseti. Tillögur meiri hlutans sýna að lítillega er verið að auka við framlög í málaflokk fatlaðra. Herra forseti. Þó það nú væri. Við sjáum neyðarástand hjá fötluðum í þjóðfélaginu vegna þess harkalega niðurskurðar sem fatlaðir hafa orðið fyrir í gegnum árin frá þessari ríkisstjórn. Sennilega hafa, herra forseti, um 2,5 milljarðar á liðnum sex árum verið skornir niður af lögbundnum framlögum í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Við stæðum ekki frammi fyrir þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir ef svo harkalega hefði ekki verið ráðist að þessum mikilvæga sjóði fatlaðra og raun ber vitni. Staðan er sú núna að 209 fatlaðir eru á biðlista eftir búsetuúrræðum, bæði sambýlum og þjónustuíbúðum. Þar fyrir utan eru 450 öryrkjar á biðlistum hjá Öryrkjabandalaginu eftir húsnæði. 10.800 dvalarsólarhringa vantar í skammtímavistun og 206 fatlaðir voru á biðlistum eftir dagþjónustu.

Áætlaðar tekjur erfðafjárskatts hafa sífellt verið að skerðast meira og meira í gegnum árin og nú er svo komið að stjórnarflokkarnir beittu sér fyrir því raunverulega að loka framkvæmdasjóðnum, þ.e. því lögbundna framlagi sem átti að renna í sjóðinn. Hann hefur nú einungis tekjur af því sem ríkisstjórnin skammtar honum að eigin geðþótta á fjárlögum hverju sinni.

Þar fyrir utan, herra forseti, þegar við erum að tala um stöðu þeirra verst settu í þjóðfélaginu eins og t.d. fatlaðra, þá hefur svo langt verið gengið að --- Ég spyr: Af hverju blikkar hér á mig ljós, herra forseti?

(Forseti (ÍGP): Ætli það sé ekki vegna þess að það er svolítið spennufall hérna, ekki í þingsalnum heldur í rafmagni. Tölvukerfið okkar hefur verið að stríða okkur í dag. Það er væntanlega þess vegna sem ljósið blikkar. En vonandi getum við lagað það innan tíðar.)

Herra forseti. Ég ætlaði að fara að minnast á leiguíbúðir þar sem við vitum að er neyðarástand. 2.000 manns bíða eftir leiguíbúðum. Félmrh. hæstv. hefur talið sig vera að leysa þann vanda með auknu lánsfjármagni inn í leiguíbúðakerfið. En, herra forseti, það leysir ekki vandann þegar á sama tíma er verið að hækka svo vexti á þessum kjörum til leiguíbúða að hvorki félagasamtök né sveitarfélög treysta sér til að byggja leiguíbúðir, nema þá, herra forseti, að setja vaxtahækkunina beint inn í leiguverðið þannig að leigjendur þurfi sjálfir að standa undir þeirri hækkun.

Þetta er auðvitað eins og við spáðum, herra forseti. Þegar verið var að leggja af félagslega íbúðakerfið spáðum við því að þetta mundi hafa þær afleiðingar að biðlistar mundu lengjast og að þetta mundi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir þá sem ekki geta komið sér þaki yfir höfuðið af eigin rammleik og þurfa að vera ofurseldir leigumarkaðnum.

Það er sama hvar við lítum, hvort heldur það eru málefni fatlaðra, sjúklinga eða húsnæðismál þeirra sem verst eru staddir í þjóðfélaginu, að allt hefur gengið á verri veg á umliðnum árum.

Herra forseti. Ég held að ekki þýði út af fyrir sig mikið að reyna að sannfæra stjórnarliða. Þeir eru staðráðnir í að knýja fram þetta frv. eins og það er, óraunhæft bæði á útgjalda- og tekjuhlið.

Ég vil þó ekki láta hjá líða að minnast á einn ákveðinn málaflokk sem ég hef verulegar áhyggjur af, þ.e. málefni löggæslunnar, reyndar um allt land, en þó sérstaklega í Reykjavík. Ég hafði bundið nokkrar vonir við, herra forseti, að dómsmrh. mundi sjá að sér og veita meira fjármagn til löggæslunnar í Reykjavík. En nú við lokaafgreiðslu fjárlaga stöndum við frammi fyrir því að sú er ekki raunin.

[22:15]

Ég fullyrði, herra forseti, og hef gert það reyndar áður að svo hefur verið skorið niður í þeim málaflokki, þ.e. löggæslumálefnum, að ég hygg að sú þjónusta sé undir öryggismörkum. Við höfum farið í gegnum þá umræðu hér og ég skal ekki endurtaka hana, en það er alveg ljóst að a.m.k. 35 lögreglumenn vantar til að gæta almannaöryggis og tryggja réttaröryggi borgaranna svo viðunandi sé að mati lögreglustjórans í Reykjavík.

Það er hart til þess að vita, herra forseti, að hér sé verið að ljúka fjárlagaafgreiðslunni án þess að veitt hafi verið til löggæslumálefna nauðsynlegt fjármagn. Ég lýsi auðvitað allri ábyrgð á ríkisstjórnina fyrir að standa þannig að málum og fulltrúar Samfylkingarinnar í fjárln. hafa í brtt. sínum reynt að gera nokkra bragarbót á með auknu framlagi til löggæslunnar.

Síðan finnst mér mjög sérstakt og vil nefna það hér að þrátt fyrir ítrekaðar óskir umboðsmanns barna sem m.a. hefur komið fram í fjölmiðlum hefur ekki verið orðið við sanngjarnri og eðlilegri ósk umboðsmanns barna um að auka lítillega fjármagn til þeirrar stofnunar.

Herra forseti. Ég vil minna á í því sambandi að á síðasta þingi stóðu þingmenn úr öllum flokkum að því að hér yrði mótuð heildarstefna í málefnum barna. Maður spyr hvort hugur fylgi ekki máli, herra forseti, þegar því fylgir ekki aukið fjármagn. Ég velti stundum fyrir mér til hvers það fjölskylduráð er sem sett hefur verið á fót í samræmi við þáltill. um málefni fjölskyldunnar, til hvers sú nefnd er þegar ekki heyrist í henni þegar verið er að ganga svo harkalega fram í að skera niður framlög til þeirra málefna sem snúa að fjölskyldunni að víða er komin upp mjög alvarleg staða eins og ég hef nefnt.

Málefni barna er vissulega einn málaflokkurinn og auðvitað væri hægt að hafa langt mál um það. Það skilar sér margfalt til baka ef við hlúum vel að þeim málaflokki sem snýr að börnunum, bæði öryggismálum þeirra og þeim málaflokki sem í heild og breidd snýr að velferð og öryggi barna í þjóðfélaginu. En það er ekki einu sinni látið svo lítið, herra forseti, að auka lítillega við framlög til þess mikilvæga embættis sem hefur með málefni barna að gera að það geti sinnt verkefnum sínum eðlilega.

Herra forseti. Hér er líka boðaður niðurskurður til vegamála. Ef ég man töluna rétt er verið að ræða um 150 millj. Við vitum ekki hvar hann lendir, herra forseti, en ef gamla leiðin er farin endar hann vafalaust á höfuðborgarsvæðinu. Ég spyr, herra forseti, er skynsamlegt í þeirri niðursveiflu sem við erum í að draga úr fjármagni í þennan málaflokk?

Herra forseti. Við umræður um ráðstafanir í ríkisfjármálum á morgun hef ég tækifæri til að ræða frekar þann alvarlega niðurskurð á fjárlögunum sem kemur fram í því frv. sem tekið verður til 1. umr., þar sem í raun og sanni má segja að gerð sé mjög alvarleg aðför að velferðarkerfinu og heimilunum í landinu, ekki síst sjúklingum og námsmönnum eins og ég hef rakið. Ég vildi geyma mér að ræða þann þátt mála frekar, herra forseti, en ítreka það sem hér hefur komið fram í máli mínu, herra forseti, að þetta frv. felur í sér mikla veikleika, bæði á útgjalda- og tekjuhlið eins og við í Samfylkingunni höfum sýnt fram á. Í tillögum okkar, bæði á tekju- og útgjaldahlið, reynum við að bæta úr en ég held að eitt sé ljóst við lokaafgreiðslu fjárlaga, að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálun munu ekki ná því marki að slá á verðbólguna eða skapa nauðsynlegt svigrúm til vaxtalækkana.

Það er miður, herra forseti, að svo sé í pottinn búið en ég held að við stöndum frammi fyrir því að ekki er meira að vænta af ríksstjórninni þegar hún stendur frammi fyrir alvörunni í efnahagsmálunum, þegar hún hefur ekki hagsveifluna við að styðjast, þegar hún hefur ekki við það að styðjast sem hefur fitað ríkisstjórn, þ.e. þensluna í þjóðfélaginu, þegar virkilega alvarlega reynir á hagstjórn í þjóðfélaginu og í ríkisstjórninni er ríkisstjórnin ekki starfi sínu vaxin.