Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 22:46:06 (2770)

2001-12-07 22:46:06# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[22:46]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 13. þm. Reykv. kom hér með tölur um kostnaðarþátttöku sjúklinga á síðasta áratug sem BSRB hefur unnið. Ég þakka fyrir það innlegg. Mér hefur ekki gefist tími til að fara yfir þessar tölur í smáatriðum en mér virðist einboðið að við í heilbrrn. gerum það. Ég lýsi því yfir að ég vil gjarnan eiga samstarf við BSRB um að fara yfir þróunina á síðasta áratug.

Hv. þm. tók það réttilega fram að þróunin hefur verið til hækkunar, sérstaklega á fyrri hluta síðasta áratugar. Ég ætla ekkert að orðlengja það en þær hækkanir sem nú hafa verið ákveðnar hafa flestar verið miðaðar við að hækka ekki að raungildi frá árinu 1996. Þarna hef ég ekki upplýsingar á reiðum höndum, t.d. um hvaða áhrif framfarir í læknismeðferð, fullkomnari rannsóknir á síðari hluta áratugarins og reyndar þessum áratug öllum, hafa á þessar tölur, þ.e. dýrari meðferðir og hærri lyfjakostnaður, en mér finnst einboðið að farið verði yfir það.

Ég get staðfest að við áformum að skoða lyfjaverðið og þróun lyfjaverðs í heildsölu og smásölu og þá þróun sem verið hefur verið á síðasta áratug að því leyti. Ég er reyndar þeirrar skoðunar, þangað til mér verður talin trú um annað, að það að losa um lyfjaverslunina hafi verið til góðs í heildina. Samt er sjálfsagt að skoða þetta kerfi í heild.