Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 22:50:21 (2772)

2001-12-07 22:50:21# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[22:50]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi sjúkrahótelin þá er það reyndar rétt sem hv. þm. tók fram í ræðu sinni, að hér er verið að renna lagastoðum undir gjaldtöku sem verið hefur um árabil og hefur reyndar ekki verið mikið í umræðunni. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að sjúkrahótel séu úrræði í heilbrigðiskerfinu sem gefa ber fullan gaum og þróa áfram. Það getur verið full skynsemi í því að útskrifa fólk af spítölum á sjúkrahótel og kann að vera að þetta úrræði verði algengara í framtíðinni en það er núna.

Við munum auðvitað fylgjast með þróun þessarar gjaldtöku í framtíðinni og fara yfir það hvernig þessi gjaldtaka kemur út. Það hafa engin vandkvæði verið við þessa gjaldtöku enn sem komið er en við munum auðvitað fylgjast með þeirri þróun ef sjúkrahótel verða almennt úrræði í heilbrigðiskerfinu. Ég held að það sé skynsamlegt að þau verði það og margt mæli með því að efla þessa starfsemi. En þá munum við að sjálfsögðu fylgjast með því hvernig gjaldtöku verður háttað í framtíðinni fyrir þjónustuna sem þar er veitt. Þarna er ekki verið að taka upp nýja gjaldtöku heldur er rennt lagastoðum undir þá gjaldtöku sem verið hefur í mörg ár.