Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 10:30:56 (2775)

2001-12-08 10:30:56# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[10:30]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Sú efnahagsstefna sem fólst í fjárlagafrv. fyrir árið 2002 tók mið af nokkuð breyttri stöðu efnahagsmála. Í stað þeirrar miklu efnahagsuppsveiflu sem ríkt hafði hér á landi undanfarin ár stefndi um sinn í nokkurn samdrátt þjóðarútgjalda og minni hagvöxt en áður. Þessi þróun er að mörgu leyti jákvæð þar sem hún leiðir til aukins jafnvægis í efnahagslífinu sem birtist m.a. núna í ört minnkandi viðskiptahalla auk þess sem horfur eru á að verðbólga hjaðni hratt á næstunni. En á móti kemur að þetta leiðir óhjákvæmilega til minni tekjuauka hjá ríkissjóði. Við þær aðstæður er eðlilegt að afgangur á ríkissjóði verði minni en verið hefur á undanförnum árum.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að afgangur á ríkissjóði á árinu 2002 verði 18,6 milljarðar kr. að meðtöldum tekjum af sölu eigna en 3 milljarðar kr. að þessum tekjum frátöldum. Sú niðurstaða er í fullu samræmi við efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem miðar að því að viðhalda stöðugleika, styrkja undirstöður atvinnulífsins og stuðla að bættum lífskjörum.

Frá þessum tíma hefur staða efnahagsmála heldur færst til verri vegar. Þar gætir í senn áhrifa lakari efnahagshorfa á alþjóðavettvangi, m.a. í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum, auk þess sem verðlagshorfur hafa heldur versnað í kjölfar gengislækkunar krónunnar að undanförnu. Forsendur fjárlaga hafa því breyst á þann veg að útgjöld hafa óhjákvæmilega hækkað og tekjur lækkað. Ríkisstjórnin hefur hins vegar talið afar mikilvægt að áfram verði fylgt aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum og að unnt verði að viðhalda þeim afgangi sem ákveðinn var í fjárlagafrv. Með því eru send afar skýr skilaboð til allra aðila um að leitað verði allra leiða til þess að meginmarkmið stjórnvalda um að viðhalda stöðugleika og treysta stöðu efnahagslífsins nái fram að ganga. Niðurstaða liggur fyrir. Gripið verður til margvíslegra aðgerða jafnt á gjalda- sem teknahlið til að tryggja að meginmarkmið fjárlaganna náist. Sumar þeirra aðgerða krefjast lagabreytinga og hefur þeim að venju verið safnað í eitt frv. svo að um það megi fjalla heildstætt og legg ég áherslu á þann samnefnara þeirra að stuðla að aðhaldi í ríkisfjármálum og halda jafnvægi í ríkisbúskapnum.

Mun ég þá, herra forseti, víkja að einstökum greinum frv. en vísa að öðru leyti til athugasemda sem þeim fylgja. Þar er fyrst að nefna að í 1., 7. og 8. gr. frv. er lagt til að lögbundnum framlögum til Endurbótasjóðs menningarbygginga, þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga og kirkjugarða verði skorinn stakkur í samræmi við þá útgjaldastefnu sem mörkuð hefur verið í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár og raunverulega fjárþörf þeirra að öðru leyti. Þannig er í 7. og 8. gr. frv. lagt til að tekjur þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga af sóknargjöldum og kirkjugarðanna af kirkjugarðsgjöldum taki á næsta ári mið af raunverulegum rekstrarkostnaði þessarar starfsemi en þær hafa fram til þessa verið reiknaðar sem ákveðið hlutfall af tekjuskatti einstaklinga. Þannig hafa þær í raun hækkað um rúm 50% á síðustu tíu árum og á þessu ári einu um 60 millj. kr. umfram það sem fjárlög gerðu ráð fyrir.

Ég hef stundum áður gagnrýnt þá tilhögun sem fest hafði rætur allt of víða í íslenskri löggjöf að lögbinda framlög til ýmissa viðfangsefna, ýmist með eða án sérstakra tekjustofna. Þegar skattfé er ráðstafað með þessu móti er sá þáttur í fjárstjórnarvaldi Alþingis í raun fyrir fram bundinn þannig að þegar að fjárlagagerðinni kemur er þetta allt saman í raun fyrir fram bundið og með þeim hætti er grafið undan þeim áhrifum sem þinginu er með fjárlögum ætlað að hafa á heildarhagstjórn þjóðarbúsins til að gæta aðhalds í ríkisrekstri og ná jafnvægi í ríkisbúskapnum. Af þessum sökum hef ég á liðnum árum beinlínis beitt mér fyrir því að sú tilhögun verði markvisst afnumin og framlög til slíkra viðfangsefna þess í stað metin í tengslum við gerð fjárlaga og ákvörðuð í samræmi við þau verkefni sem til úrlausnar eru hverju sinni. Sú verður og raunin með framlög til endurbóta á menningarbyggingum ef tillögur ríkisstjórnarinnar um skattbreytingar ganga eftir en þær gera m.a. ráð fyrir að sérstakur eignarskattur verði í síðasta skipti lagður á á næsta ári.

Þá er, herra forseti, í 2.--5. gr. frv. lagt til að hámark innritunar- og efnisgjalda í framhaldsskólum og skrásetningargjalda í þrjá háskóla verði hækkað. Að frátaldri kennslunni sjálfri njóta nemendur við þær menntastofnanir margvíslegrar þjónustu af þeirra hálfu sem lög hafa um árabil leyft að gjöld væru tekin fyrir. Út af fyrir sig ber enga laganauðsyn til að ákveða fjárhag slíkra þjónustugjalda með lögum, enda er hún í eðli sínu tengd kostnaði af að veita þjónustuna. Ríkisstjórnin hefur á hinn bóginn beitt sér fyrir að hámark slíkra gjalda væri fest í lög þannig að nemendur þurfi ekki að greiða hærri gjöld en því nemur jafnvel þótt kostnaður af þjónustu við þá sé hærri og hafi reyndar farið vaxandi undanfarin ár, bæði vegna verðlagsþróunar og aukinnar fjölbreytni í þeirri þjónustu sem nemendum stendur til boða. Slíkum umframkostnaði hefði þá þurft að mæta á fjárlögum og er ekki lagt til að á því verði nein breyting.

Á hinn bóginn þykir eðlilegt að kostnaðarþátttaka nemenda eða öllu heldur hámark þeirrar krónutölu sem heimilt er að krefja þá um verði færð til samræmis við verðlagsþróun undanfarinna ára. Þannig er lagt til að hámark innritunargjalda í framhaldsskóla hækki um 40% úr 6.000 kr. í 8.500 kr. á hvern nemanda en það er svipað hlutfall og hækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis frá því að álagningu innritunargjalda var fyrst komið í skipulegt horf árið 1991. Sama er að segja um skrásetningargjöld í háskóla. Þau hafa lítið breyst á sama tímabili en hér er lagt til að hámark þeirra verði hækkað um 30% eða úr 25 þús. kr. í 32.500 kr.

Um hækkun annarra gjalda er það að segja að í 10. gr. frv. er lagt til að bifreiðagjald hækki um 10% sem er þó nokkru lægri hækkun en verðlagsbreytingar á síðustu ákvörðun gjaldsins gefa annars tilefni til.

Þá er í 6. og 11. gr. frv. lagt til að gjöld sem renna til að standa undir veiðieftirliti annars vegar og vopnaeftirliti hins vegar verði færð til samræmis við þann kostnað sem af því stafar. Ekki þarf að hafa mörg orð um ástæður þess að vopnaeftirlit í farþegaflugi hafi hækkað og hefur aukist með tilheyrandi kostnaði. Tillagan um hækkun veiðieftirlitsgjalds sem er reyndar nýbúið að hækka með lögum nr. 125/2001 tekur hins vegar mið af auknum rekstrarkostnaði veiðieftirlits Fiskistofu sem ekki var fullt tillit tekið til við afgreiðslu nýsamþykktra laga.

Loks er í 9. gr. frv. lagt til að svonefnt sjúkraheimili eða sjúkrahótel verði felld brott úr skilgreiningu laga um heilbrigðisþjónustu á sjúkrahúsi. Af því leiðir að dvöl á slíku heimili eða hóteli telst ekki til sjúkratryggðrar þjónustu samkvæmt lögum um almannatryggingar enda þótt ráðgert sé að ríkið standi að mestu leyti undir rekstrarkostnaði slíkra heimila eða hótela með sama hætti og verið hefur. Að þessu leyti skapast á hinn bóginn skilyrði til að mæta því sem á vantar með gjöldum.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að frv. þessu verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.