Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 10:39:40 (2776)

2001-12-08 10:39:40# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[10:39]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég tel afar mikilvægt að þannig sé á málum haldið varðandi þetta mál sem hér er til umræðu, þ.e. frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum og reyndar á það við um fjárlögin einnig, að hér springi ekki allt í loft upp í tengslum við kjarasamningana í byrjun næsta árs. Það er skoðun mín, herra forseti, að þær tillögur sem hér eru lagðar fram í þessum bandormi séu ekki til þess fallnar þegar verið er að setja álögur á sjúklinga, skólafólk og bifreiðaeigendur, ferðamenn svo nemi tæpum 1.100 millj. kr. Ég held að þetta sé ekki góð kveðja inn á þann fund sem forusta verkalýðshreyfingarinnar er með nk. mánudag.

Mér finnst, herra forseti, að það sé orðin lenska hjá ríkisstjórninni að leita helst matarholu hjá láglaunafólki, sjúklingum og þeim sem verst hafa það í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég held að það sé mikill vilji hjá verkalýðshreyfingunni að standa þannig að málum að ekki komi til uppsagnar á launalið kjarasamninganna í byrjun næsta árs. Við sjáum í DV í gær að þá eru aðilar vinnumarkaðarins að ræða um að fresta uppsögn launaliðar og, herra forseti, ég held eins og ég sagði áðan að þær aðgerðir sem hér á að grípa til séu ekki til þess fallnar að koma til móts við þau sjónarmið sem verkalýðshreyfingin hefur haft uppi og það sem þarf til þess að ekki komi til uppsagnar á launalið kjarasamninganna. Ég vil vísa þar til ummæla Grétars Þorsteinssonar, forseta ASÍ, nýverið eftir að fyrir lá hvaða leið ríkisstjórnin ætlaði að fara, en hann segir að niðurskurður ríkisstjórnarinnar sé í raun aðgerð til að lagfæra bókhald tímabundið og þarna sé verið að fresta framkvæmdum og hins vegar að auka gjaldtöku af venjulegu fólki. Hann segir að verkalýðsforustan telji fulla þörf á því að hagræða á ríkisheimilinu en hún geti ekki fallist á aukna gjaldtöku af venjulegu launafólki.

Fram kemur hjá Grétari Þorsteinssyni að þrátt fyrir að hagræða þurfi hjá ríkinu eins og annars staðar geti verkalýðsforustan ekki fallist á að það sé gert með því að auka álögur á almenning þar á meðal á sjúklinga og skólafólk. Grétar Þorsteinsson segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Við föllumst ekki á þá aðferð að þessu vandamáli sé mætt með aukinni gjaldtöku af almenningi.``

Halldór Björnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir, með leyfi forseta, að það sé lenska þegar ríkissjóður eða fyrirtæki skeri niður útgjöld að byrja á þeim sem minnst megi sín. Hann segir einnig að í síðustu kjarasamningum hafi tekist að hækka lægstu launin hlutfallslega meira en það sé þó spurning um afar lágar fjárhæðir sem brenni hratt upp þegar álögur aukist á launafólk. Ég held, herra forseti, að það sé ekkert ofsagt og styðst þar m.a. við það sem fram kom hjá hagfræðingi ASÍ að þær launahækkanir sem um var samið í síðustu kjarasamningum séu brunnar upp í verðbólgunni sem mælist 8% á 12 mánaða tímabili í miklum verðlagshækkunum á nauðsynjavörum sem hafa á stuttum tíma farið upp í 25% og á mikilli vaxtahækkun sem er að sliga heimilin svo dæmi sé nefnt.

Segja má að það sé í nokkrum liðum sem á að fara í vasa sjúklinga, námsmanna og bifreiðaeigenda. Varðandi bifreiðaeigendur verður að segjast eins og er að maður hélt að þar væri mælirinn orðinn fullur. Varla er hægt að ganga lengra vegna þess að álögur á bifreiðaeigendur eru orðnar mjög miklar og hafa verið í gegnum tíðina. Bifreiðagjald er flatur skattur og vegur mjög þungt í framfærslu heimilanna. Að vísu mælist hún ekki í vísitölunni en engu að síður hafa verið verulegar hækkanir á lögboðnum bifreiðatryggingum eins og menn þekkja. Á sl. 2--3 árum hafa þær hækkað um sennilega nálægt 70% og bensínið hefur hækkað gífurlega.

Á það var minnt nýlega í fréttum í útvarpi að fyrrverandi ráðherrar Sjálfstfl., annar fyrrverandi formaður flokksins og hinn varaformaður og fyrrv. fjmrh., hafi ekki verið hrifnir af því að setja miklar álögur á bifreiðaeigendur. Á það var minnt að þegar bifreiðagjald var hækkað --- ég man ekki hvað það var mikið --- fyrir einum áratug af þáv. fjmrh. Ólafi Ragnari Grímssyni, þá var því mjög harðlega mótmælt af Þorsteini Pálssyni, formanni Sjálfstfl., sem sagði að þessi skattur kæmi með mestum þunga niður á þeim sem kröppust hefðu kjörin og síst þyldu viðbótarálögur. Friðrik Sophusson sagði það augljóst að tilgangurinn með þessu væri að svíkjast um að láta fjármuni af bifreiðum ganga til vegamála. Það væri ekki bara tilgangurin láta fjármuni af bifreiðum ganga til vegamála heldur átti að láta aukna skatta af bifreiðaeigendum renna beint í ríkissjóð. Ég skil ekki annað en þau orð sem þarna voru sögð standi enn og þetta hafi ekki verið skattur sem sjálfstæðismenn hafi fagnað, a.m.k. þegar þeir voru í stjórnarandstöðu, þó þetta sé eitt af þeim úrræðum sem þeir beiti nú í þeirri stöðu og uppnámi sem kjarasamningarnir eru í. Ég held að þetta sé ekki skynsamleg leið, herra forseti, ekki síst í ljósi þeirra miklu álagna sem hafa dunið á bifreiðaeigendum á umliðnum 2--3 árum.

[10:45]

Herra forseti. Ég vil líka spyrja hæstv. forsrh. hvort reiknað hafi verið með þeim verðlagsáhrifum sem eru af þessum tillögum sem hér eru lagðar fram og hvort þær hafi komið fram í endurskoðuðum tekjuáhrifum fjárlaga við 3. umr. Ég get ekki betur séð en að verðlagsáhrifin séu veruleg jafnvel þó að bifreiðagjöldin séu ekki inni í vísitölunni. Mér sýnist og hef rætt það við þá sem til þekkja að hér gæti verið um að ræða verðlagsáhrif í vísitölunni upp á 0,5--0,6% og það er ekki gott inn í kjarasamninga eins og ég hef nefnt. Þá er ógetið verðlagsáhrifa sem verða af áfengisgjaldinu sem hefur verið boðað upp á 450 millj. kr. og mér skilst að sérstakt frv. komi um. Ég spyr því hæstv. forsrh. um verðbólguáhrifin af þessu og hvort þau hafi verið tekin með í reikninginn inn í fjárlagagerðina.

Ég vil aðeins fara inn á bílatryggingarnar aftur af því að mér finnst mjög slæmt að velja þá leið. Komið hefur fram að bílatryggingar hafa hækkað um 46% frá því að flest stóru verkalýðsfélaganna innan Alþýðusambandsins skrifuðu undir kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins á árinu 2000. Og það hefur komið fram hjá Rannveigu Sigurðardóttur, hagfræðingi ASÍ, að hún telur að veruleg kaupmáttarrýrnun hafi gengið yfir frá þeim tíma. Hún segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Við getum þó séð að fyrir þá sem hafa fengið umsamdar launahækkanir á samningstímabilinu, það er að segja 3,9% í fyrra og 3% í upphafi ársins í ár, 7% samtals þá hefur kaupmáttarrýrnun á þessu tímabili verið um 5%.`` --- Sem sagt frá því fyrir gerð kjarasamninga. 7% launahækkun hefur því ekki dugað til þess að halda uppi einu sinni sama kaupmætti og fyrir kjarasamninga.

Hagfræðingur ASÍ segir að um þriðjungur af starfsmönnum á almennum vinnumarkaði hafi á þessu tímabili fengið umsamdar launahækkanir. Orðrétt segir hún síðan þegar verið er að spyrja hvort hafi hallað undan fæti:

,,Það hefur náttúrlega gert það. Það segir sig sjálft að 8,1% verðbólga eins og við höfum hér síðustu 12 mánuðina hún étur mjög hratt upp, hún er löngu búin að éta upp umsamdar launahækkanir tveggja ára en hún étur jafnvel mjög hratt upp mikið launaskrið eins og hefur verið hér á vinnumarkaði.``

Ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Er hann sammála hagfræðingi ASÍ um að staðan sé sú, nú þegar við erum að sigla inn í það að kjarasamningum verði hugsanlega sagt upp, að verðbólgan og verðlagsáhrifin séu slík að það sé búið að éta upp allar kjarabætur sem um var samið í síðustu kjarasamningum? En hún segir að 7% launahækkun sé löngu farin.

Nefnd eru ýmis dæmi um verðhækkanir á síðustu 18 mánuðum í þessu viðtali við hagfræðinginn. Vitnað er til þess að samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands hafi símakostnaður heimilanna hækkað um tæp 11%, bensín um 4,4%, bílatryggingar um 46% og fiskur um nær 8,5%, grænmeti um 20%, mjólkurlítrinn um 3%. Gífurleg verðlagsalda hefur riðið hér yfir og mér sýnist að það geti alveg staðist hjá hagfræðingnum að það hafi étið upp allar launahækkanir. Hagfræðingurinn segir síðan orðrétt:

,,En það sem við höfum verulegar áhyggjur af er það að við sáum í síðustu verðbólgumælingum Hagstofunnar að það séu mjög margir liðir vísitölunnar að hækka sem benda til þess að allir eru farnir í rauninni að hækka undir þessari afsökun að gengið sé að lækka.``

Herra forseti. Ég vil aðeins fara inn á þær álögur sem á núna að bæta á skólafólk sem eru verulega miklar og stúdentaráð hefur mótmælt mjög harkalega. Ég held að við verðum að hugsa okkur mjög um þegar verið er að bæta við þessar álögur, innritunargjöldin og skólagjöldin. Ég held að flestir vilji sjá jafnrétti til náms og að unga fólkið geti stundað nám óháð efnahag. Ástæða er til þess að minna á það, og var það rætt ekki fyrir löngu síðan á þinginu, að töluvert er um það að ungmenni flosni upp úr skóla af ýmsum ástæðum, m.a. vegna barneigna, erfiðleika við að koma sér þaki yfir höfuðið o.s.frv. Þetta fólk vill gjarnan eiga möguleika á því síðar að sækja framhaldsskóla, en hér er verið að torvelda það með alls konar álögum og gjaldtökum sem eru afar miklar eins og hæstv. forsrh. nefndi. Ég vil vitna til frv. sem var flutt um breytingu á lögum um framhaldsskóla sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir og hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir fluttu á sínum tíma. Það snertir þennan illræmda fallskatt. Þá vitnuðu þær m.a. til Alþingis ungmenna sem var haldið hér fyrir ekki margt löngu og ályktaði að stuðlað skyldi að því að á nýrri öld hefðu allir landsmenn jafnan aðgang og jafnan rétt til náms óháð búsetu, námsgetu, fötlun, efnahag eða öðrum aðstæðum. Einn liður í ályktun þessara ungmenna, unga fólksins sem á að taka við í framtíðinni, var að endurinnritunargjöld í framhaldsskólum skuli afnumin með öllu og að skólagjöld verði ekki lögð á í skólum innan almenna skólakerfisins. Þetta er það sem unga fólkið sér fyrir sér að eigi að afnema í framtíðinni.

Margir hafa orðið til þess að mótmæla þeim leiðum sem hér er verið að fara. Ég hef nefnt stúdentaráð og ég hef nefnt Félag framhaldsskólakennara, svo dæmi séu tekin.

Hér liggja líka fyrir athyglisverðar upplýsingar, sem ég er með í höndunum, þ.e. svar menntmrh. við fyrirspurn Bryndísar Guðmundsdóttur um brottfall nemenda úr skyldunámi á fyrsta ári í framhaldsskólum. Þar kemur fram að um verulegt brottfall er að ræða og t.d. er nefnt að skráðir nemendur í framhaldsskóla séu og hafi verið í gegnum árin á bilinu 70--85%. Það er því um verulegt brottfall að ræða hjá ungu fólki úr námi.

Herra forseti. Þó að það sé ekki í þessu frv. þá er það liður í því að setja gjald á ákveðna hópa. Eins og ég hef nefnt er verið að leggja verulegar álögur á sjúklinga með komugjöldum, með hækkun á gjöldum til sérfræðinga og með hækkun á lyfjakostnaði sem nemur samtals 500 millj. kr. Sýnt hefur verið fram á það og kemur það fram í svari heilbrrh. til mín á Alþingi að kostnaður heimilanna við sérfræðiþjónustu hefur hækkað verulega, en það er um þriðjungur sem heimilin sjálf greiða í sérfræðikostnaði.

Mér fannst athyglisvert sem fram kom hjá Ástu R. Jóhannesdóttur í gær um þær leiðir sem á að fara til þess að auka álögur á sjúklinga. Hún nefndi að þegar verið er að taka þak af kostnaði sjúklinga vegna ferliverka, þá þýði það að hlutur sjúklinga gæti hækkað um 200--300% áður en komi til kasta afsláttarkorta. Hér var um að ræða kostnað sem var áður 5 þús. kr. en hún færir rök fyrir því að sá kostnaður geti farið upp í 18 þús. kr. Hér er um verulega hækkun að ræða, herra forseti, fyrir heimilin í landinu ef verið er að tvö- þrefalda kostnað vegna ferliverka. Því er varla hægt að mótmæla.

Sýnt var fram á það hjá BSRB í gær að á umliðnum árum hefur kostnaður á heimilin í landinu hækkað verulega vegna lyfja- og lækniskostnaðar. Ég hef ekki farið ofan í þær tölur, en þær virtust nokkuð sannfærandi, um hvaða álögur verið er að setja á sjúklinga.

Þessu til viðbótar hefur ekki samkvæmt fjárlögunum verið staðið við að endurgreiða í eðlilegu hlutfalli kostnað fólks vegna tannlækninga vegna deilna sem uppi hafa verið milli tannlækna og Tryggingastofnunar ríkisins sem bitnað hafa með fullum þunga á þeim sem síst skyldi. Er ég að tala þar um þroskahefta einstaklinga, langveik börn o.s.frv. Ég hélt að hæstv. heilbrrh. hefði alla möguleika á því að setja upp sérstaka gjaldskrá sem hefði þá tekið verðlagshækkunum, a.m.k. meðan verið væri að reyna að ná samningum við Tryggingstofnun ríkisins.

Hér er verið að fara í að hækka greiðslur þeirra sem eru á sjúkrahótelum. Sagt er að hér sé um að ræða gjöld sem hafi verið áður, en hér er verið að festa þetta rækilega í sessi að mér sýnist og setja inn ákveðið merki um að hér eigi að fara í gjaldtökur á sjúkrahúsum.

Herra forseti. Því hefur verið mótmælt hvernig eigi að fara með sóknargjöldin í þessum bandormi. Þingmenn hafa fengið bréf frá sóknarpresti í Stóra-Núpsprestakalli í Árnesprófastsdæmi þar sem hann mótmælir þessu harðlega og færir athyglisverð rök fyrir því að ríkissjóður eigi ekki að seilast í þennan vasa. Presturinn segir að sóknargjöldin séu ekki útgjöld ríkisins til þjóðkirkjunnar heldur hrein og klár félagsgjöld innheimt af ríki og renni þau til viðkomandi safnaðar sem greiðandi tilheyrir. Gildir þá einu hvert trúfélagið er. Sóknargjaldið er ekki nefskattur heldur breytilegt gjald sem nemur hlutdeild í tekjuskatti og álögum samkvæmt ákvæðum laga um tekju- og eignarskatt. Hann bendir þingmönnum á að fjmrn. sé rukkunaraðili rétt eins og gjaldkerar í klúbbum og félögum og rétt eins og þeir sem stunda virðisaukandi starfsemi beri almennt að standa skil á honum, annars lendi menn í vondum málum. Mér finnst rökin sem presturinn setur fram mjög athyglisverð því ekki er eðlilegt að seilast í það fjármagn sem kirkjan hefur til umráða til þess að bæta stöðu ríkissjóðs.

Herra forseti. Ég held að ríkisstjórnin sé að fara vondar leiðir og þær eru slæmt innlegg inn í þá kjarasamninga sem losna núna innan nokkurra vikna. Ég bendi á þær leiðir sem við í Samfylkingunni höfum viljað fara til þess að rétta af stöðu ríkissjóðs sem komu fram við 3. umr. fjárlaga. Þar er um að ræða verulega fjármuni eða um 3 milljarða kr. sem við setjum fram raunhæfar tillögur um til þess að rétta af stöðu ríkissjóðs. Ef þær leiðir hefðu verið farnar hefði ekki þurft að fara þá vondu leið sem ríkisstjórnin er hér að leggja til með auknum álögum á þá sem síst skyldi, sjúklinga og skólafólk.