Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 10:59:48 (2777)

2001-12-08 10:59:48# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[10:59]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta síðasta því að tillögur Samfylkingarinnar voru algjörlega óraunhæfar eins og menn vita.

Varðandi verðlagsáhrifin þá eru þau tiltölulega óveruleg. Auðvitað eru þau nokkur, en þó óveruleg. Hv. þm. nefndi hins vegar hækkun á bifreiðagjaldinu. Mér fannst dálítið merkilegt að ungur fréttamaður skyldi muna eftir því sem gerst hafði fyrir 11 árum. Ég tók reyndar eftir því að hæstv. fyrrv. ráðherra, sem var í ríkisstjórn þegar þetta var hækkað, mundi þetta nú ekki nákvæmlega. Við erum að hækka um 10% en hæstv. fyrrv. ráðherra, Ólafur Ragnar Grímsson, hækkaði þetta um 50%. Ég lét athuga þetta í þingtíðindum. Ég taldi víst að ráðherrann Jóhanna Sigurðardóttir hefði verið þessu algerlega andvíg, en það finnst ekki í þingtíðindunum. Þetta var að vísu mjög lausleg leit og ég tel algjörlega víst að hv. þm. hafi mótmælt þessu harðlega því þetta var 50% hækkun á bifreiðagjaldi en ekki 10% eins og nú. Þessi mótmæli hljóta að finnast við nánari skoðun. Þetta er vegna þessara orða sem sérstaklega voru nefnd.

Verðbólgan á sl. 12 mánuðum er rúm 8%. Hins vegar er spáð 3,5% verðbólgu af stofnunum frá upphafi næsta árs til loka þess. Þar verða því auðvitað mikil umskipti og gleðileg, ef það gengur fram. Auðvitað vitum við aldrei nákvæmlega um það. Það gæti gengið hægar. Það gæti líka gengið hraðar ef gengið styrkist með þeim hætti sem spástofnanir núna búast við.

Varðandi gjaldtöku af því tagi sem hér er nefnd þá vek ég athygli á því að í þessu samhengi er oftast nær verið að færa gjöld í áttina að raunverðlagi, ekki einu sinni að raunverðlagi miðað við það sem verið hefur heldur í áttina að raunverðlagi, svo sem eins og þau hámarksgjöld varðandi skólana sem nefndir eru sérstaklega. Þá er verið að færa það í átt að raunverðlagi. Ef fólk kann einföldustu reikningsaðferðir þá getur það áttað sig á því og þarf ekki að flissa hér til merkis um að það kunni ekki einföldustu reikningsaðferðir.