Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 11:03:55 (2779)

2001-12-08 11:03:55# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[11:03]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Þegar hv. þm. var í ríkisstjórn og var að hækka bifreiðagjaldið um 50%, á móti okkar 10%, var á sama tíma kaupmáttur almennings í landinu að lækka um 15%, í tíð þeirrar ríkisstjórnar. Á sama tíma og kaupmáttur almennings í landinu var að lækka um 15% og ráðherrann sat sem ánægðust í ríkisstjórninni hækkaði hún bifreiðagjaldið um 50%. Við hækkuðum bifreiðagjaldið um 10% sem ekki hefur hækkað síðan 1998, þ.e. það nær ekki einu sinni raunvirðishækkunum, og það gerist í ástandi þegar kaupmáttur fólksins í landinu hefur hækkað um yfir 25%. Allir sjá í hendi sér þann samanburð. Það þýðir auðvitað ekki --- og hv. þm. veit betur --- að kenna ríkisstjórninni um það að tryggingagjöld hækki í landinu. Það er alveg ljóst að ábyrgðarskuldbindingar tryggingafélaganna eru miklu meiri nú en áður var og það var algjörlega nauðsynlegt því að fólk sem laut þeim tryggingum og þurfti að hafa þær í lagi var ekki nægilega varið eða verndað með þeirri tryggingavernd sem þá var. Það þótti öllum ljóst og öllum þótti það brýnt --- ég hygg einnig hv. þm. --- að sú tryggingavernd yrði aukin. Hún var ekki nægilega sterk og öflug. Það var gert og auðvitað hefur það í för með sér að tryggingaiðgjöld hækka. Það gefur augaleið og þarf ekki neinn að undra.

Í meginatriðum er ríkisstjórnin að gæta þess, m.a. með hliðsjón af kröfum Alþýðusambandsins og annarra aðila, að sá afgangur sem var ákveðinn af ríkissjóði þegar fjárlagafrv. var lagt fram í haust, haldist, hann gangi ekki til baka þrátt fyrir breyttar aðstæður. Það er hin ábyrga afstaða ríkisstjórnarinnar og því miður hefur Samfylkingin ekki séð ástæðu til að taka þátt í þeim ábyrgðarstörfum þó að Samfylkingin hafi til að mynda sl. vor lagt til að hækka ætti skatta á almenning eins og formaður flokksins, núverandi og þáverandi, sagði að væri skynsamlegt að gera, hækka skatta á almenning til að standa gegn þenslu. En nú er allt í einu öllum slíkum hugmyndum andmælt þó að þær séu í afskaplega smáum stíl gerðar og reynt að gæta mikillar varúðar.