Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 11:33:21 (2785)

2001-12-08 11:33:21# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[11:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Samkvæmt því fjáraukalagafrv. sem við vorum að enda við að afgreiða í vikunni er það þannig að ef áætlaðar tekjur af sölu eigna sem enn hefur að vísu ekki farið fram --- kannski er hún í vændum eins og hæstv. forsrh. upplýsir hér --- eru teknar til hliðar er kominn halli á fjárlögin. Fjármunamyndun út úr rekstri ríkissjóðs á árinu 2001 verður neikvæð upp á eina 2--3 milljarða þannig að allur afgangurinn verður fenginn með sölu eigna ef hún kemur til. Sala eigna er auðvitað allt annar hlutur en rekstur ríkissjóðs. (Forsrh.: ... árið 2002?) Nei, ég er að tala um árið 2001 og svo skal ég koma að næstu fjárlögum. Menn geta selt eignir á meðan þeir eiga þær eða losað þær við sig. En hvað ætla þeir svo að gera?

Varðandi forsendur fjárlagafrv. fyrir árið 2002 vita allir að þær eru mjög veikar. Á tímum niðursveiflu í hagkerfinu hafa menn tilhneigingu til að ofmeta tekjurnar. Það sýnir m.a. reynslan frá yfirstandandi ári og það mun hún líka sýna á næsta ári þannig að þetta er allt á mjög veikum grunni byggt.