Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 11:36:19 (2787)

2001-12-08 11:36:19# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[11:36]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að ég þurfi ekki að útskýra að ég var ekki að setja þessa hluti þannig upp að ég vildi að hæstv. heilbrrh. gengi lengra og tæki 20 millj. í staðinn fyrir 10 eða eitthvað því um líkt. Ég var að reyna að setja þessa hluti í samhengi og benda á að þarna er spjótum beint að einum tilteknum hópi, skjólstæðingum heilbrigðiskerfisins, þeim sem dvelja á sjúkrahótelum. Ég hef þá misskilið málið ef þarna er ekki á ferðinni aukin gjaldtaka upp á 10 millj. kr. og það er eins gott að það komi strax fram hér. Ég viðurkenni að vísu að frv. er mjög illa útbúið hvað þetta varðar því að í umsögn um þennan lið, 9. gr., kemur ekkert fram um fjárhagsáhrifin. Það er ekki fyrr en í umsögn fjárlagaskrifstofunnar sem ég fann þetta aftast í þingskjalinu á bls. 6. Þar stendur:

,,Gert er ráð fyrir að gjaldtakan skili 10 millj. kr. tekjum á árinu 2002.``

Þýðir þetta ekki eins og þarna stendur að þarna komi til nýjar 10 millj. kr.? Er þetta bara lagastoð fyrir algjörlega óbreyttri gjaldtöku eins og er í dag, þ.e. fæðisgjöldunum? Það þarf auðvitað að vera algjörlega skýrt hvað þarna er á ferðinni. Sé svo að kostnaður þeirra sem dvelja á sjúkrahótelum á næsta ári muni ekki hækka um eina einustu krónu heldur sé hér eingöngu verið að afla lagaheimildar fagna ég því en ef eitthvað annað er á ferðinni, eins og það sem ég hélt eftir að hafa lesið umsögn fjárlagaskrifstofunnar að þarna ætti að taka 10 millj. í viðbót, snýst málið við og ég mótmæli því.