Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 11:41:27 (2791)

2001-12-08 11:41:27# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[11:41]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég man ekki nema ég rifji þau betur upp, rök þessa kennara við Háskóla Íslands, en ég kaupi það ekki hrátt að skólarnir geti ekki skipulagt starfsemi sína og haft reiðu á hlutunum öðruvísi en að láta nemendurna borga svo og svo mikil gjöld. Ég sé ekki að innritun sem slík þar sem menn útfylla ákveðna pappíra, skrá sig til náms á ákveðnum brautum o.s.frv., sé í eðli sínu öðruvísi eftir því hvort menn borgi fyrir hana 0 kr., 5 þús. kr. eða 50 þús. kr. Ég held að hún hafi ekkert verið öðruvísi á sínum tíma þegar ég og jafnaldrar mínir vorum að innrita okkur og ég held að þetta hafi verið 5 þús. kr. eða svo og rann það fé þá aðallega til starfsemi námsmanna í skólanum og eiginlega að engu leyti til háskólans sjálfs.

Það sem auðvitað skiptir öllu máli, herra forseti, er hvernig þetta kemur við þá sem í hlut eiga. Það breytir engu fyrir námsmennina sjálfa hvað gjaldið upp á 8.500 kr., 25 þús. kr., 32.500 kr. eða 50 þús. kr., og þetta sumpart hvað ofan á öðru, heitir. Þetta eru bara peningar. Þetta eru bara útgjöld sem bætast við hjá fólki þegar það er að stunda nám. Þetta getur komið út með býsna óréttlátum hætti á ýmsa vegu. Foreldrar hafa verið að hafa samband og benda á að margir sem færa sig á milli skóla lenda í því að flosna eitthvað upp úr námi, endurinnrita sig o.s.frv. og lenda í þessum gjöldum aftur og aftur. Þetta kemur oft harðast niður á þeim sem síst skyldi, þ.e. efnalitlum nemendum sem hafa áður orðið að taka á sig ýmsan kostnað eins og t.d. nemendur af landsbyggðinni lenda gjarnan í. Ég ósköp einfaldlega kaupi það ekki að við gefum okkur það t.d. sem óumdeilda forsendu að þessi efniskostnaður eigi að borgast af nemendunum í raun og veru án tillits til þess hversu hár hann kann að reynast.