Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 12:38:37 (2801)

2001-12-08 12:38:37# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, KHG
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[12:38]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Í tengslum við afgreiðslu fjárlaga er gjarnan þörf á að breyta ýmsum lögum til þess að ná fram þeim markmiðum sem ríkisstjórnin hefur sett sér við afgreiðslu þeirra ár hvert. Það verður að segjast eins og er að þessi bandormur sem hér liggur fyrir er í styttra lagi og efnisrýrari miðað við það sem oft gerðist hér áður fyrr.

Ég man eftir frumvörpum af þessu tagi sem voru miklu viðameiri, hreyfðu til miklu hærri fjárhæðum en þetta frv. gerir og komu inn á miklu fleiri frumvörp, þannig er varla svo að þetta frv. geti staðið undir því nafni að kallast bandormur. Það er kannski með góðum vilja hægt að kalla þetta ánamaðk, svona tiltölulega saklausan ánamaðk miðað við það sem gerðist hér áður fyrr, t.d. á árunum um 1990 þegar menn réðust í mjög viðamiklar breytingar í með bandormi við afgreiðslu fjárlaga á þeim árum.

Það kemur fram í athugasemdum með frv. að áhrifin af því á hag ríkissjóðs eru talin verða um 1.000 millj. kr. þegar allt er reiknað saman. Ég vil vekja athygli á því að það þýðir ekki að verið sé að leggja á skattgreiðendur þessar fjárhæðir sem nýjar álögur. Því fer víðs fjarri eins og menn átta sig á þegar þeir lesa frv.

Gjöld sem snerta Þjóðleikhúsbyggingu, menningarbyggingar og kirkjugarða og sóknir verða óbreytt. Þeir sem borga þau gjöld munu á næsta ári borga óbreytt gjöld miðað við þau lög sem eru í gildi. Það er því ekki verið að íþyngja gjaldendum með hærri gjöldum hvað það snertir. Áhrifin af frv. lúta að sóknum og kirkjugörðum, að þessir aðilar fá minna til sín af gjaldinu en vera mundi ef lögum væri ekki breytt, sem nemur um 512 millj. kr.

Þá ber að hafa í huga, eins og fram hefur komið, að þau gjöld sem tengd eru tekjuskatti og launaþróun í landinu hafa vaxið verulega á síðustu árum vegna þess að launaþróun hefur verið gríðarlega hagstæð launþegum og kaupmáttur hefur aukist, eins og menn muna, á fáum árum um tæplega fjórðung eða um 25% á 4--5 árum. Það er auðvitað vegna þess hvað kaup hefur hækkað mikið umfram verðlag og að sama skapi hefur það skilað þessum aðilum, sóknum og kirkjugörðum, auknum tekjum miðað við það sem menn gátu séð fyrir á þeim tíma þegar lögin voru sett. Það er því ekki að öllu leyti hægt að halda því fram að þó að gripið sé til þessara aðgerða sé verið að skerða hlut þessara aðila sem því nemur. Þeir hafa fengið umfram það sem ætla hefði mátt að yrði við eðlilega launaþróun, þ.e. í samræmi við það sem áður gerðist. Ég vil meina að þeir sem verða fyrir tekjuskerðingu vegna breytinganna séu að mörgu leyti vel í stakk búnir til að bera þær breytingar.

Eftir standa gjöld, um 496 millj. kr., sem segja má að séu ný gjöld. Þá þarf að draga frá 10 millj. kr. vegna sjúkrahótela sem, eins og fram hefur komið hjá hæstv. heilbrrh., er ekki nýmæli heldur er verið að festa betur í lög framkvæmd sem verið hefur. Raunveruleg hækkun gjalda í þessu frv. á skattgreiðendur, eða þá sem þurfa að borga gjöldin, er í fyrsta lagi á námsmenn, um 100 millj. kr.; í öðru lagi á útgerðir, um 50 milljónir; í þriðja lagi á bifreiðaeigendur, um 260 milljónir og í fjórða lagi á flugfarþega, um 70 milljónir; en þetta eru um 486 millj. kr. sem kalla má að séu ný gjöld.

Til viðbótar því, eins og fram hefur komið, má minna á að áformað er að hækka áfengisgjald um 450 milljónir þannig að samanlagt eru tekjuaukningaráhrifin 1 milljarður kr. í þeim áformum ríkisstjórnarinnar, bæði í bandorminum og öðrum frumvörpum.

Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það eru ekki stórar tölur í fjárlögum ríkisins þar sem skatttekjur eru taldar verða um 220 milljarðar kr. Það er langt innan við að vera 1% breyting og reyndar innan við hálfs prósent breytingu á tekjum ríkissjóðs. Þá verður að hafa í huga að ýmislegt í fjárlagafrv. er nýmæli, bæði sem eru að koma inn ný eða hafa komið inn ný á síðustu árum sem er mikils um vert að hafi náðst fram. Ég vil benda á hækkun barnabóta um 500 millj. kr. í þessu fjárlagafrv. Það er annar áfangi af þremur í að hækka barnabætur um allt 2 milljarða kr. Þetta kemur auðvitað þeim hópum til góða sem þetta varðar.

Í öðru lagi er að koma til framkvæmda nýr áfangi í lögunum um fæðingarorlof. Eins og allur þingheimur veit er mikil réttindabót í þeim lögum, enda var algjör samstaða um það mál hér á Alþingi.

[12:45]

Í þriðja lagi vil ég minna á að í frv. eru hlutir sem hafa komið fram fyrr á kjörtímabilinu eins og um 1.200 millj. kr. greiðsla til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til þess að tryggja að fasteignaskattar á landsbyggðinni væru ekki hærri en á höfuðborgarsvæðinu og miðuðust við fasteignamat eigna en ekki uppreiknað fasteignamat og sá ávinningur kemur bæði til fasteignaeigenda, þ.e. einstaklinga og fyrirtækja. Í frv. er líka veruleg aukning á niðurgreiðslu til rafhitunar íbúðarhúsnæðis en eins og menn sjá í frv. eru um 850 millj. kr. til þessa verkefnis. Sú niðurgreiðsla hefur á þessu kjörtímabili aukist mjög verulega og þeir sem njóta hennar hafa séð það á reikningum sínum þar sem þeir hafa lækkað umtalsvert. Þetta hefur verið mikil kjarabót fyrir þá sem þessar greiðslur beinast að.

Fleiri atriði má nefna í frv. sem eru réttindamál. Ég vil nefna auknar greiðslur til öryrkja og ellilífeyrisþega sem ákveðnar voru á Alþingi í framhaldi af dómi Hæstaréttar á sínum tíma og mig minnir að sé um 1 milljarður kr. á ári. Þarna er um að ræða mikla fjármuni til þess hóps sem fær þær greiðslur. Það er því margt í fjárlagafrv. sem í er aukning til ýmissa hópa sem telja verður eðlilegt og sjálfsagt að njóti framlaga úr ríkissjóði og það nemur miklu hærri fjárhæðum en þeim breytingum sem verið er að gera með frv. ríkisstjórnarinnar eða öðrum tekjuöflunaráformum.

Þegar málið er metið í heild er alveg augljóst að verið er að bæta hag fólks í landinu, þeirra hópa sem menn hafa verið að bera hér fyrir brjósti í umræðunni. Ég vil nefna þar að auki það sem er í frv. líka og lýtur að því að bæta hag fólks með því að lækka skatta. Gert er ráð fyrir að eignarskattar lækki með því að hækka fríeignamörk og tekjuskattar einstaklinga hækki með því að hækka frítekjumörk þannig að þar eru samtals um 1.600 millj. kr. lægri skattar en áætlað hafði verið að óbreyttum lögum. Verið er að lækka tekjuskatt einstaklinga um 0,33% um næstu áramót og verið er að afnema skattlagningu á húsaleigubætur þannig að á næsta ári er áætlað að ríkissjóður láti frá sér tekjumöguleika upp á 3 milljarða kr. Þarna er um að ræða fjárhæð sem líka er langtum hærri en nemur þeim fjárhæðum sem auknar eru með breytingum á lögum í þessu frv. Á árinu 2003 kemur til viðbótar þessum 3 milljörðum lækkun á eignarsköttum einstaklinga sem má ætla að séu um 2,4 milljarðar kr. Á því ári verður lækkunin 5,4 milljarðar kr. frá því sem gilti á árinu 2001.

Þegar menn skoða áhrifin í heild bæði á skatta, bætur og gjöld, þá verður ekki annað sagt en að verið sé með þessu fjárlagafrv. og tengdum frv. að bæta almennt hag fólks. Og þá er ónefnt áform um lækkun á stimpilgjöldum sem m.a. margir einstaklingar munu njóta góðs af þegar það kemur til framkvæmda.

Menn í stjórnarandstöðunni hafa nefnilega dálítið fallið í þá gryfju að hafa uppi þann málflutning að þegar verið er að tala um að auka gjöld á ákveðnum sviðum þá eru menn á móti því, en þegar talað er um að auka útgjöld á ákveðnum sviðum til tiltekinna hópa þá eru menn líka á móti því af því að það sé ekki nógu mikið. Þannig að menn eru á móti tekjum af því að þeir vilja ekki hækka tekjur og menn eru á móti útgjaldaauka af því að það er ekki nógu mikill útgjaldaauki. Það verður auðvitað að gera þá kröfu til stjórnarandstöðunnar að hún hafi þá ákveðin úrræði fram að færa og skýri mál sitt hvernig hún ætlar að ná saman endum í ríkisfjármálum með slíkum málflutningi.

Áður en ég vík að ákveðnu máli sem snertir stjórnarandstöðuna vil ég koma því hér að, að í gegnum fjárlög ríkisins á þessu kjörtímabili hafa sést ákveðnar pólitískar áherslur. Ég minni á að framlög til heilbrigðismála frá ríkisreikningi 1999 til frv. 2002 hefur aukist um 10 milljarða kr. eða um 20%. Þau framlög hafa aukist úr 48,8 milljörðum í 58,6 milljarða. Framlög til almannatrygginga og velferðarmála hafa aukist frá ríkisreikningi 1999 úr 38 milljörðum kr. í 52 milljarða kr. í fjárlagafrv. 2002 eða um tæplega 14 milljarða kr. sem nemur um 40% hækkun. Framlög til fræðslumála hafa aukist á þessu tímabili úr 16 milljörðum í 21 milljarð eða um 5 milljarða sem er um 30% aukning. Þannig að útgjaldaaukinn sem er í fjárlögunum frá 1999--2002 hefur að langmestu leyti farið í þrjá málaflokka, fræðslumál, heilbrigðismál, almannatryggingar og velferðarmál. Það er auðvitað til marks um pólitískar áherslur sem koma fram hjá ríkisstjórninni með því móti. Ég vildi minna á það og draga það fram þannig að það gleymdist ekki í umræðunni hvernig þær áherslur koma fram.

Ef við tökum sérstaklega síðasta ár og heilbrrn. þá aukast útgjöld heilbrrn. frá fjárlögum 1991 til þess sem ætla má að verði fjárlög 2002, þ.e. frá fjárlögum 2001--2002, þá má ætla að útgjöld heilbrrn. aukist um tæpa 10 milljarða kr. Það er ekki niðurskurður, það er aukning. Það er ekki niðurskurður um 500 millj. kr., það er aukning um nærri 10 milljarða kr. í framlögum til heilbrrn. bara á milli ára. Þannig að því verður ekki haldið fram af neinni sanngirni að um sé að ræða einhvern niðurskurð í þeim málaflokki.

Herra forseti. Mig langar aðeins að víkja að áherslum stjórnarandstöðunnar í þessu efni. Ég greip hér áðan eitt þingmál, till. til þál. um umbætur í velferðarmálum og þróun velferðarsamfélagsins sem þingflokkur Vinstri grænna flytur á þessu þingi, þar sem er að finna áherslur þess þingflokks í þeim málaflokki. Það er dálítið athyglisvert að skoða það þingmál. Í því eru taldar fram í fjölmörgum liðum breytingar sem þingmenn flokksins vilja gjarnan koma á í almannatryggingum, félagsmálum, heilbrigðismálum og menningarmálum svo eitthvað sé nefnt, þar sem lögð er áhersla á breytingar sem allar kosta peninga, allar kosta peninga og sumar kosta mikla peninga. Ég er ekki að segja neitt um þær tillögur, það er annað mál hvaða skoðun ég hef á þeim. Við skulum ræða það síðar ef tækifæri gefst. En ég er bara að skoða þetta út frá fjármálapólitík flokksins. Hér er um að ræða alveg í tugum liða taldar aðgerðir sem þeir vilja hrinda í framkvæmd og kostar gríðarlegar fjárhæðir að hrinda þeim í framkvæmd. Síðan fletti ég upp á tekjuöfluninni til að standa undir þessu og skoða þál. og les hvar á að afla tekna til að standa undir þessu. Þá eru taldir upp í fjórum liðum möguleikar á því sviði. Fyrst vil ég nefna einn lið sem er að skattleysismörk fylgi launaþróun. Það er ekki tekjuöflunarliður hygg ég á máli hv. flutningsmanna. Ég hygg að það sem þeir eigi við með þessum lið sé að hækka persónuafsláttinn frá því sem hann er og þar af leiðandi minnka tekjur ríkissjóðs. Eins og menn vita þá kostar það gríðarlegar fjárhæðir að hækka persónuafslátt sérstaklega ef menn ætla að hækka hann mikið eins og ég þykist greina í grg. og því sem fram hefur komið hjá flm. í þessu atriði þar sem þeir telja að skattleysismörk hafi ekki fylgt launaþróun og muni þar verulega miklu á. Tekjuöflunartillaga númer eitt er um að minnka tekjur ríkissjóðs til viðbótar öllum útgjöldunum sem þeir ætla að bæta við til að uppfylla markmið sín. Ég vil spyrja hv. þm. Vinstri grænna: Hvar ætla þingmennirnir að afla tekna fyrir þeim markmiðum? Hvernig mundi bandormur þeirra líta út? Hvað á að hækka skatta mikið til að standa undir þessum óskalista? Væri það 486 millj. eins og ég hef rakið að eru í nýjum tekjum í þessu frv.? Væru það 4.860 millj. sem þingflokkurinn mundi auka tekjur ríkissjóðs með nýjum bandormi? Eða væru það kannski 48.000 millj. sem mér sýnist kannski vera sú tala sem helst kæmist næst því að þurfa til að afla fyrir öllum þessum útgjöldum þingmannanna.

Ég vil vekja athygli á því að hv. þm. tala á móti tekjuöflun af því að þeir telja að þeir sem hún beinist gegn geti ekki borið hana. Þeir tala með öllum útgjöldum og vilja helst ganga lengra en lagt er til hverju sinni. Síðan þegar þeir leggja fram sitt eigið þingmál þá hafa þeir engar tillögur um hvernig eigi að afla tekna aðrar en þær að minnka tekjur ríkissjóðs enn meira en gert er ráð fyrir. Það væri fróðlegt að fá fram áður en umræðunni lýkur frá hv. þm. Vinstri grænna hvernig ríkisfjármálapakki þeirra liti út. Hvernig mundi bandormur þeirra líta út? Ég er býsna hræddur um, herra forseti, að það yrði mjög langur bandormur sem hlykkjaðist hér um allt lagasafnið og sali Alþingis án nokkurs enda.