Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 12:57:19 (2802)

2001-12-08 12:57:19# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[12:57]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg augljóst að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð mundi ekki byrja á því að leggjast á námsmenn til að ná sér í tekjur. Hún mundi ekki byrja á að leggjast á starfsnám eða verknám. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson talar um pólitískar áherslur á kjörtímabilinu. Gerir hv. þm. sér grein fyrir að Framsfl. er ábyrgur fyrir þeirri pólitísku áherslu sem lögð hefur verið fram í menntamálum, sem lýsir sér í hækkun á skólagjöldum, skerðingu fjár til verknámsskóla, þannig að skólar sem stunda verk- og starfsnám sitja margir hverjir uppi með miklar skuldir og vita ekki hver framtíð þeirra er eða framtíð verknáms og starfsnáms.

Gerir hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, formaður þingflokks Framsfl. sér grein fyrir því að í þessu frv. er verið að leggja til að skólagjöld í starfsnámi og verknámi verði aukin? Veit hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hvaða nemendur sækja mest í starfsnám og verknám, einmitt málmiðnaðarnám? Það eru nemendur af landsbyggðinni. Nemendur sem búa í sjávarþorpum og úti um sveitir landsins sem sækja þetta nám að langmestum hluta og verða auk þess að sækja það nám hingað á Stór-Reykjavíkursvæðið. Þessir nemendur eru skattstofn ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl.