Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 12:59:13 (2803)

2001-12-08 12:59:13# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[12:59]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Áherslur ríkisstjórnarinnar í fræðslumálum sýna sig í væntanlegum fjárlögunum fyrir 2002 og þar kemur fram að framlög til málaflokksins hafa aukist um 30% frá 1999. Ég held að það verði að teljast nokkuð góður árangur að auka framlög til málaflokksins um tæplega þriðjung á aðeins þremur árum. En hver er skattstofn hv. þm. Vinstri grænna til að standa undir útgjöldum þeirra, tillögum sem þeir bera fyrir brjósti og kosta örugglega tugi milljarða á ári að hrinda í framkvæmd? Ég hef ekki nema gróft mat á því hvað þetta mundi kosta. Ég mundi halda að 20--30 milljarðar væri svona það sem af sanngirni mætti halda að það kostaði að framfylgja slíkum tillögum. (Gripið fram í.) Og hvert á að sækja tekjurnar til að standa undir þessu, herra forseti? Það segir í þingskjali þingflokksins að þær eigi að sækja með því að styrkja tekjustofna sveitarfélaga. Hvernig á að styrkja tekjustofna sveitarfélaga? Verður það ekki gert með því að leggja skatt á einhverja? Og á hverja á að leggja skatt, herra forseti?

Síðan segir að fjölga eigi skattþrepum í tekjuskatti einstaklinga. Það þýðir væntanlega að það eigi að hækka tekjuskatt einstaklinga en ekki að lækka, eins og núv. ríkisstjórn er að gera.