Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 13:02:43 (2806)

2001-12-08 13:02:43# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[13:02]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það liggur við að ég þurfi ræðu til að fara yfir þessi mál eftir þessi undarlegu ræðuhöld hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar.

Við erum ekki með tillögur um að stórauka skatta á almenning í landinu. Við viljum hins vegar gerbreyttar áherslur í skattamálum og í stað þess að skattleggja tekjulægsta fólkið og millitekjuhópa þá viljum við skattleggja þá sem eru aflögufærir, en stefna ríkisstjórnarinnar gengur í þveröfuga átt.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að tillögur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs til að styrkja velferðarþjónustuna í landinu og skapa aukinn jöfnuð meðal landsmanna kosta að sjálfsögðu peninga. Þess vegna höfum við varað við skattatillögum ríkisstjórnarinnar sem að dómi allra þeirra sem hafa skoðað þau mál munu veikja stórlega stöðu ríkissjóðs og sveitarfélaganna í landinu. Staða ríkissjóðs mun veikjast um yfir 3 milljarða kr. vegna þeirra breytinga sem áformaðar eru.

Við höfum líka verið með tillögur um niðurskurð. Við höfum lagt til að fallið verði frá NATO-fundi sem kemur til með að kosta á milli 300--400 millj. kr. Við höfum gagnrýnt fjáraustur í utanríkisþjónustuna, 900 millj. kr. í Japan í sendiráð.

Nú kann vel að vera að hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni finnist ekki mikið til um slíka smámuni. Enn fremur mætti nefna 300 millj. kr. í einkavæðingarbraskið. En ég minni á að fyrir ýmsa hópa sem eru í erfiðri stöðu þá skipta upphæðir af þessari stærðargráðu miklu máli.

Samkvæmt fyrirheitum sem ríkisstjórnin gaf árið 1999 átti á þessu ári að verja 139 millj. kr. til að útrýma biðlistum fatlaðra. Í fjárlagafrv. var þessi tala komin niður í 20 milljónir. Hún hefur núna verið hækkuð upp í 50 milljónir en er engan veginn það sem ríkisstjórnin hafði lofað. Þetta er dæmi um þær áherslur sem við viljum breyta.

(Forseti (ÍGP): Forseti minnir hv. þm. á að virða tímamörk.)