Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 13:05:05 (2807)

2001-12-08 13:05:05# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[13:05]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil árétta það sem er að finna í fjárlagafrv. og lýsir stefnu ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. Vinstri grænna hafa algjörlega skautað fram hjá því og vilja þegja það í hel. Það er verið að hækka barnabætur um 500 millj. kr., það er verið að auka réttindi í fæðingarorlofi, það er verið að auka greiðslur til elli- og örorkulífeyrisþega. Framlög til almannatrygginga hækka um 3 milljarða kr. í þessum fjárlögum frá yfirstandandi ári. Ætla menn að segja að engar pólitískar áherslur séu fólgnar í því?

Ég vil segja, herra forseti, að þetta er auðvitað pólitík og framlög til almannatrygginga og heilbrrn. hafa hækkað um tugi prósenta bara á þremur árum. Menn höfðu auðvitað það val að gera það ekki. En það eru pólitískar áherslur sem liggja hér að baki og ráða því að þessum mikla tekjuauka ríkissjóðs á síðustu árum hefur verið varið í þessa málaflokka.

Nú kemur hv. þm. og fer að tala um sendiráðið í Japan. Þáltill. þess efnis var samþykkt á Alþingi á síðasta kjörtímabili og 1. flm. var varaþingmaður hv. þingmanns, Hjörleifur Guttormsson, þar sem hann lagði til að þetta yrði gert. Hann sagði í greinargerð sinni með málinu að vissulega mundi þetta kosta mikla peninga en það væri samt rétt að gera það. Þingheimur tók undir þau sjónarmið og taldi rétt að þetta yrði gert. Þegar menn hrinda málinu í framkvæmd, sem samþykkt er frá hv. varaþm. Hjörleifi Guttormssyni, þá kemur hv. þm. Ögmundur Jónasson og leggst á móti málinu. Hvernig stendur á því að þeir félagar, á sama lista í Reykjavík, geta ekki verið sammála í því máli?

Að lokum, herra forseti. Nú kemur hv. þm. og segir: Ja, það er gagnrýnt að ríkisstjórnin er að lækka skatta of mikið. Hvað var hv. þm. og félagar hans að segja um þetta mál? Voruð þeir ekki að gagnrýna að verið væri að auka skattheimtu á ákveðnum sviðum? Nú koma þeir og segja að það sé allt of mikil lækkun.