Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 13:08:36 (2809)

2001-12-08 13:08:36# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[13:08]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nú öðru nær. Það er verið að auka fjárframlög til almannatrygginga um 3.000 millj. kr. í þessum fjárlögum frá því sem var í síðustu fjárlögum. Og það er m.a. vegna þess að við erum að bregðast við dómi Hæstaréttar. (ÖJ: Aðeins að hluta til.) Við erum að bregðast við dómi Hæstaréttar. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er ekki dómstóll og hann getur ekkert kveðið upp úr um hvað er rétt og rangt í þeim efnum. Það gera dómstólar.

Stjórnarflokkarnir (Gripið fram í.) fengu sérfræðinga til að leggja mat á dóminn og hrinda í framkvæmd því sem menn töldu að fælist í dómnum. Og það hefur verið gert að fullu og öllu, herra forseti. (ÖJ: Ég var að tala um siðleysi ríkisstjórnarinnar.)

(Forseti (ÍGP): Forseti vill biðja hv. þm. um að gefa hljóð í salnum.)

Hv. stjórnarliðar sem standa að þessu máli geta verið stoltir af því að hrinda því í framkvæmd. Fyrrv. heilbrrh., Ingibjörg Pálmadóttir, verður ekki vænd um að hafa ætlað sér að hafa eitthvað af öryrkjum. Ég tel lítið leggjast fyrir hv. þm. Ögmund Jónasson að væna hana um slíkt.