Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 13:12:22 (2812)

2001-12-08 13:12:22# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[13:12]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta hefur samt aldrei gerst áður, að menn séu farnir að taka einkaskólana fram fyrir skóla ríkisins. Það er stefnubreyting sem áhugavert er að ræða og ástæða til að fá pólitísk svör manna um hvort þeir hafi skrifað upp á slíka stefnu.

Ég verð að segja að þó að ég sé ekki sérstaklega hrifinn af Framsfl. þá hefði ég nú aldrei trúað því að hann léti Sjálfstfl. draga sig út í það fen sem hann er kominn út í hvað þetta varðar, að mismuna skólum ríkisins gagnvart einkaskólum í landinu með þessum hætti. Þetta er ömurlegur endir á stefnu Framsfl. í þessum málum. Það verð ég að segja.