Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 14:19:57 (2815)

2001-12-08 14:19:57# 127. lþ. 47.2 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, JóhS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[14:19]

Jóhanna Sigurðardóttir (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Sú atkvæðagreiðsla sem hér fer fram er nokkuð viðamikil og flókin. Ég hef komið á framfæri við hæstv. forseta ósk minni um hvernig ég og minn flokkur viljum að atkvæðagreiðslan verði brotin upp, en við munum óska sératkvæða um margar greinar frv. sem og brtt. meiri hlutans og þær brtt. sem Samfylkingin hefur lagt fram, og ýmsar greinar þarf líka að kljúfa upp í atkvæðagreiðslunni.

Þær brtt. sem við flytjum eru heilsteyptar og viðamiklar og valkostur við þær tillögur sem stjórnarflokkarnir leggja fram. Þær fela í sér þriggja milljarða króna minni útgjöld fyrir ríkið og sveitarfélög en skattatillögur stjórnarflokkanna þó fallið sé frá óréttlátri hækkun á tryggingagjaldi eins og Samfylkingin leggur til sem mismunar atvinnugreinum og heggur þungt í landsbyggðina. Brtt. Samfylkingarinnar tryggja líka betur hag einstaklinga og fyrirtækja með lækkun á stimpilgjaldi um þriðjung og meiri lækkun á tekjuskatti einstaklinga en ríkisstjórnin áformar. Um leið fela þær í sér að ná því markmiði að viðhalda alþjóðlegu skattaforskoti íslenskra fyrirtækja en jafnframt að minnka þann mun sem er á skattlagningu einstaklinga og fyrirtækja, á milli launa og fjármagns sem draga mun úr skattasniðgöngu.

Með því að hækka fjármagnstekjuskatt í 16% og taka upp frítekjugólf með fjármagnstekjuskatti um 100 þús. fyrir einstaklinga og 200 þús. fyrir hjón fækkar greiðendum fjármagnstekjuskatts með hóflegan sparnað um 55 þús. eða úr 78 þús. í 22 þús.

Á þessu vil ég vekja athygli nú í upphafi atkvæðagreiðslunnar því valkostirnar standa um tillögur stjórnarflokkanna, sem þjóna fyrst og fremst hagsmunum stórfyrirtækjanna, og tillögur Samfylkingarinnar sem tryggja jafnræði og sanngirni í skattlagningu, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem er allt annað sjónarhorn í skattlagningu en hjá stjórnarflokkunum.