Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 14:24:15 (2817)

2001-12-08 14:24:15# 127. lþ. 47.2 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, GuðjG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[14:24]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Það er ástæða til að lýsa ánægju með þær miklu skattalækkanir sem verið er að samþykkja með þessu frv. Það er enginn vafi á því að mikil lækkun tekjuskatts, eignarskatts og stimpilgjalds mun styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og skapa forsendur fyrir frekari uppbyggingu þeirra. Það sem snýr að einstaklingum er 50% lækkun eignarskatts, þjóðarbókhlöðuskattur aflagður, skattur á húsaleigubætur felldur niður, tekjuskattur lækkaður, frítekjumark hátekjuskattsins hækkað. Allt þetta bætist við margt annað sem gert hefur verið að undanförnu til að bæta hag fólksins í landinu og leitt hefur til þess að kaupmáttur hér hefur aukist meira en í nokkru öðru landi.

Ég minni á að persónufrádráttur hjóna er að verða að fullu millifæranlegur, fæðingarorlof hefur verið stóraukið, barnabætur auknar um 2 milljarða á þremur árum, breyting á fasteignamati hefur stórlækkað fasteignaskatta á landsbyggðinni og tekjuskattur var lækkaður um 4 prósentustig. Hér sést glöggt sá skýri munur sem er á áherslum stjórnarflokkanna sem stórlækka álögur á almenning og stjórnarandstöðunnar sem lagði til milljarða skattahækkanir við síðustu fjárlagagerð.