Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 15:06:07 (2841)

2001-12-08 15:06:07# 127. lþ. 47.2 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, ÖS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[15:06]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hér er tillaga um hækkun á tryggingagjaldi sem við leggjumst gegn. Sú hækkun er í reynd skattlagning á vinnuafl og hún ýtir undir verðbólgu. Hún er algerlega í andstöðu við vilja verkalýðshreyfingarinnar sem ríkisstjórnin er nú loksins að drattast til að tala við og þó fyrr hefði verið.

Það er líka athyglisvert miðað við það á hvaða höndum stjórn þessa máls hefur verið í þinginu að Verslunarráð lítur svo á í umsögn sinni til efh.- og viðskn. að skýringar stjórnvalda á þessu séu í andstöðu við gildandi lög. Þessi breyting, þessi hækkun leggst þyngst á lítil fyrirtæki sem ekkert eiga nema mannauðinn. Þess vegna kemur hún verst við sprotafyrirtæki sem eru frjóangarnir inn í framtíðina og eru nú þegar fleiðruð upp á herðablöð eftir meðferð ríkisstjórnarinnar. Greining Þjóðhagsstofnunar sýnir jafnframt að þessi hækkun mundi lenda langþyngst á landsbyggðinni og þess vegna er í reynd hægt að kalla þetta landsbyggðarskatt. Við erum á móti þessu í Samfylkingunni og þess vegna leggjum við til að þessi grein falli brott.