Fjárlög 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 16:07:32 (2869)

2001-12-08 16:07:32# 127. lþ. 47.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, RG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[16:07]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Í þeim efnahagsþrengingum sem nú blasa við og fjárlagatillögurnar staðfesta er auðvitað freistandi að flytja tillögu um að halda ekki rándýran fund um alþjóðasamstarf hér á Íslandi. Ef verið væri að stofna til þessa fundar nú legðist Samfylkingin gegn því að hann væri haldinn á Íslandi.

Við höfum skoðað þetta mál og afstaða okkar er að tillagan sem greidd eru atkvæði um nú sé óhjákvæmilega sýndartillaga. Það er löngu búið að bjóða til fundarins hvað sem mönnum finnst um það. Reyndar kom stjórnarandstaðan hvergi að því boði og ber enga ábyrgð á því.

Mikill undirbúningur er hafinn hérlendis sem ekki verður aftur snúið með og augljóslega yrði það óásættanlegt fyrir þau lönd sem við erum í samstarfi við á alþjóðavettvangi ef við fleygðum til þeirra einu stykki stórfundi á síðustu stundu. Í stöðunni er sú leið niðurlægjandi, ekki bara fyrir Alþingi heldur þjóðina alla.

Tillögur Samfylkingarinnar í dag eru allar þess eðlis að þeim er unnt að hrinda í framkvæmd. Þær eru ábyrgar og skila því sem þeim er ætlað. (Forseti hringir.) Við sitjum hjá við þessa tillögu, herra forseti, og aðrar sem snúa að þessum fundi. Tíma mínum er ekki lokið samkvæmt klukku.

(Forseti (HBl): Tímanum er lokið. Hv. þm. hefur eina mínútu til þess að gera grein fyrir atkvæði sínu.)