Fjárlög 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 16:46:55 (2890)

2001-12-08 16:46:55# 127. lþ. 47.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, GÁS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[16:46]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Efnislega get ég sætt mig við flestar þær heimildir sem hér er að finna. Reynsla undanfarinna daga þegar litið er til framkvæmdar ríkisstjórnarinnar á meðferð þessara heimilda og samskiptum framkvæmdarvaldsins í garð löggjafarþingsins og tregðu þess til þess að upplýsa um meðferð almannafjár og meðferð þeirra heimilda sem Alþingi hefur veitt þeim er með þeim hætti að ég get ekki treyst hæstv. ráðherrum til að fara með jafnopnar heimildir og hér um ræðir. Ég tel að til skamms tíma litið væri þeim best að koma hingað í hvert og eitt skipti og sækja heimildir til löggjafarþingsins. Að þessu sinni get ég því ekki veitt þær heimildir sem eru venju samkvæmt eðlilegar og sjálfsagðar. Þeir hafa misfarið með traust.