Lokaumræða um frv. um tekjuskatt og eignarskatt o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 13:45:37 (2902)

2001-12-11 13:45:37# 127. lþ. 48.95 fundur 221#B lokaumræða um frv. um tekjuskatt og eignarskatt o.fl.# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[13:45]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Nú hefur komið fram að veruleg þungamiðja í því að verkalýðshreyfingin fallist á að fresta uppsögn á launalið kjarasamninga og reyndar Samtök atvinnulífsins, er að fella niður að hluta eða öllu leyti þetta tryggingagjald.

Hæstv. forseti hlýtur að skilja að það er verulegum erfiðleikum bundið fyrir okkur sem tökum þátt í þeirri umræðu sem fram á að fara hér á eftir að halda uppi vandaðri umræðu þegar við vitum ekkert hvað á að verða um tryggingagjaldið, hvort það verður fellt niður að hluta eða öllu leyti, sem er veruleg uppistaða í þessu frv. í tekjuöflun ríkisstjórnarinnar til þess að afla tekna til þess að lækka tekjuskattshlutfallið. Mér finnst ekki boðleg vinnubrögð að bjóða þinginu upp á það að ganga til þessarar umræðu og þá væntanlega lokaafgreiðslu eða umræðna um málið á þessum degi vegna þess að mér sýnist að það sé nokkuð ljóst að niðurstaða hjá aðilum vinnumarkaðarins muni ekki nást fyrr en fram kemur ný framfærsluvísitala sem á að taka gildi væntanlega á morgun.

Það er nú ekki mikið sem um er beðið, einungis að þessari umræðu verði frestað þar til á morgun. Að minnsta kosti tel ég alveg lágmark að hæstv. forsrh. upplýsi okkur þá um það hvar eigi að lenda þessu tryggingagjaldi. Eru menn að tala um einn þriðja? Hefur verið fastmælum bundið að lækka það um þriðjung ef þessi verðlagsmarkmið nást? Eða er hugsanlegt að menn gangi eitthvað lengra í því, kannski fella það niður um helming af því sem áformað er eða kannski að öllu leyti? (Forsrh.: Ég nefndi þessar tölur í tvígang í ræðu minni.) Ef það er þriðjungur sem hæstv. forsrh. nefnir og það er endanlegt af hálfu ríkisstjórnarinnar um þriðjung þá getur það haft verulega að segja inn í þessa umræðu sem fram fer núna milli aðila vinnumarkaðarins vegna þess að ég er ekki viss um að þeir sætti sig við þá niðurstöðu.

En í öllu falli, herra forseti, þá er óeðlilegt, og ég ítreka það, að umræðan skuli fara fram án þess að þessi niðurstaða sé fengin sem ég hér hef lýst.