Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 13:56:54 (2906)

2001-12-11 13:56:54# 127. lþ. 48.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[13:56]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ekki spurning um að töfra einhverjar kanínur upp úr hatti. Spurningin er um að fara í gegnum verðmat og gengi á þessum fyrirtækjum og hv. þm. upplýsti að í umfjöllun nefndarinnar hefði verið leitað til tveggja opinberra aðila sem ekkert eru sérhæfðir í því að verðmeta fyrirtæki, langt í frá.

Það sem ég óska eftir er að fengnir verði sérfræðingar á verðbréfamarkaði sem þekkja útreikninga á gengi fyrirtækja, t.d. þeir aðilar sem mátu Landssíma Íslands. Fulltrúar þeirra erlendu sérfræðinga sem mátu Landssíma Íslands upplýstu nefndina um hvað þessi breyting ein sér hefði að segja um gengi hlutabréfa. Ég veit sjálfur að þetta er rétt eins og ég segi.

Varðandi tal um að lagabreytingar standi ekki að eilífu þá er í þessum útreikningum nægilegt að menn hafi trú á því að lagabreytingarnar standi svona um það bil í tíu ár eða sjö ár til þess að verðmatið sé rétt. Þetta er spurning um svo mikla peninga að það sem ríkissjóður hagnast á þessum þrem fyrirtækjum er jafnmikið og hann tapar á fjórum árum, rúmum fjórum árum, fjórum og hálfu ári. Við erum því að tala um fleiri, fleiri milljarða, miklu meira en allt það sem ríkissjóður er að fórna fyrir þessa skattalækkun.