Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 14:25:52 (2912)

2001-12-11 14:25:52# 127. lþ. 48.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[14:25]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er út af ummælum hv. þm. um ójafnræði á milli fyrirtækjaskattlagningar og einstaklingsskattlagningar sem ég stend hér upp. Ég vil aðeins vekja athygli á því að í mörgum löndum í kringum okkur er hæsta skattþrep töluvert miklu hærra en hér á landi, t.d. í kringum 60%, jafnvel 65%. Í þeim hinum sömu löndum eru virkir fyrirtækjaskattar líklega 30, 35, 40%. Og ég hef ekki orðið var við það að þeir skattar og sá mismunur sem þar er á einstaklingssköttum og fyrirtækjasköttum færi neitt mjög illa með þau hagkerfi. Væri því fróðlegt að vita á hvaða alþjóðlegu reynslu hv. þm. byggir þetta mat sitt, að það verði svo gífurlegt ójafnræði og óhagræði af þeim mismun sem verður á fyrirtækjasköttum og einstaklingssköttum hér á landi.