Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 14:29:32 (2914)

2001-12-11 14:29:32# 127. lþ. 48.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[14:29]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst að hv. þm. sé að tala sitt á hvað um skatttekjur ríkissjóðs af einstökum sköttum, bæði hér á landi og annars staðar, og svo talar hún í sumum tilvikum um skattprósentur. Ef við berum saman t.d. effektífar skattprósentur í Evrópulöndum og effektífar skattprósentur hér eins og þær eru fyrir þá lækkun sem stendur fyrir dyrum hefur effektíf skattprósenta á arð í atvinnulífi verið í mörgum tilvikum hærri hér á landi vegna þess að eignarskatturinn hefur verið það hár. Nú er hins vegar verið að breyta því og lækka þetta þannig að skattheimta okkar af arði í atvinnulífi verði nokkuð sambærileg við það sem best gerist.

En ég var að spyrja hv. þm. um ákveðið atriði þar sem hún ræddi um mismunun á skattheimtu af einstaklingum og skattprósentu fyrirtækja vegna þess að í Evrópulöndum mörgum hverjum er jaðarskatturinn, þ.e. hæsta skattprósentan, miklum mun hærri en hér á landi, kannski 55, 60, 65% jafnvel. Í þeim löndum sem jaðarskatturinn hefur verið þetta hár hefur hin almenna skattprósenta í atvinnulífinu verið töluvert miklu lægri, kannski á bilinu 30--40%, sem hefur verið hin effektífa skattprósenta. Þetta hefur ekki haft nein gífurleg skemmandi áhrif fyrir hagkerfi þessara landa vegna þess að mörg þeirra eru í hópi best stæðu hagkerfa heimsins. Ég var þess vegna að athuga hvort hv. þm. hefði einhvern alþjóðlegan samanburð eða alþjóðlega reynslu til að vitna til í þessu sambandi. Það er ekki. Það kom hér fram.