Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 14:33:39 (2916)

2001-12-11 14:33:39# 127. lþ. 48.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[14:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þegar við á hinu háa Alþingi ræðum um skattamál þá skyldi maður ætla að ekki þyrfti að eyða mikilli orku í að ræða t.d. hluti eins og hvernig Íslendingar standi að vígi í skattalegu tilliti borið saman við nágrannalönd, hin Norðurlöndin, OECD-löndin eða hvaða samanburður sem það er.

Engu að síður er það þannig að furðulega margar kenningar eru í gangi um það hvernig íslenska skattkerfið sé í samanburði við það sem tíðkast í nálægum löndum eða löndum sem við viljum bera okkur saman við. Það er dálítið merkilegt að það skuli þurfa að vera tilefni til mikilla rökræðna eða deilna því það ætti í sjálfu sér að geta legið fyrir sem nokkuð óumdeildar staðreyndir. Auðvitað er svona samanburður oft ýmsum annmörkum háður. Það þarf að átta sig á því hvort menn eru að bera saman sambærilega hluti, en með slíkum fyrirvörum er ekkert óskaplega flókið eða erfitt verk að bera þetta saman. Ég hef gert það nokkuð reglubundið í ein 15 ár eða svo frá því að ég fór að baksast í þessum efnahagsmálum, setja mig inn í þá hluti og fylgjast með því jafnframt hvernig þetta stæði annars staðar, t.d. afla mér upplýsinga um það og fá yfirlit yfir það hvernig Ísland stæði að vígi gagnvart hinum Norðurlöndunum og hvernig Norðurlöndin sem slík stæðu að vígi gagnvart t.d. Vestur-Evrópu að öðru leyti.

Ég komst að því fyrir svona 10--15 árum síðan þegar ég fór fyrst að reyna að bera þetta saman í einhverri alvöru að ýmsar goðsagnir voru í gangi, ótrúlega lífseigar goðsagnir svo ekki sé nú sagt hreinar draugasögur, t.d. þessi um skattpíninguna á Norðurlöndum. Það er ákaflega lífseig goðsögn að það sé óvenjuleg skattpíning á Norðurlöndum og Svíþjóð var oft nefnd þar sem dæmi. Vissulega er rétt að hæstu prósentur t.d. í skattlagningu á tekjuháum einstaklingum voru háar í Svíþjóð, þegar hæst lét voru kannski um 60% af tekjum ofan við viss mörk tekin í skatta, en fyrir löngu síðan var mér þó ljóst t.d. að skattalegt umhverfi atvinnulífs, fyrirtækja hefur lengi verið hagstætt á Norðurlöndum. A.m.k. undanfarin 10--15 ár hafa Norðurlöndin verið í lægri kantingum hvað varðar skattlagningu á atvinnulíf. Í Svíþjóð til að mynda sem oft er nú nefnd í þessum efnum hefur það fyrir löngu orðið óumdeild stefna að þeir vilja garnan vera í hagstæðari kantinum til að missa ekki í burtu sænsku stórfyrirtækin með mikil umsvif bæði í Evrópu- og Ameríkulöndum og til þess þarf skattalegt umhverfi þeirra þar að vera sæmilega sambærilegt. Allan þennan tíma hefur Ísland vermt botnsætið, skattar hafa verið lægri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum nema þá helst í Finnlandi sem lengi hefur legið næst Íslandi, komið númer tvö á þeim enda listans þar sem samneyslan er minnst og skattar lægstir. Þessar upplýsingar, herra forseti, liggja núna fyrir algjörlega skýrt. Þetta má sjá t.d. í töflum Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Þetta er til í norrænu talnaverki. Þetta liggur fyrir m.a. á Alþingi í þingskjölum, ágætu svari við fyrirspurn frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem er um margt áhugavert og var dreift fyrir nokkru síðan á þskj. 310.

Þar kemur fram svo að ekki verður um villst þegar heildarskattlagning lögaðila eða fyrirtækja er tekin saman, þ.e. skattlagning, tekjuskattur, arður og launatengdur kostnaður, að Ísland er þarna mjög lágt ef ekki lægst, alla vega örugglega lægst innan Norðurlandanna og einna lægst innan OECD-ríkjanna. Þess vegna er dálítið merkilegt að enn tala menn um þessa hluti stundum eins og hér ríki sérstök skattpíning og menn æsa sig upp í það á landsfundum Sjálfstfl. að það sé alveg sérstakt keppikefli að lækka skatta á atvinnulíf, á fyrirtæki á Íslandi enn þá meira, alveg sérstaklega, að nú þurfum við virkilega að fara að taka til hendinni í því. Komust þeir ekki niður í 10% þegar þeir voru búnir að tala sig upp í hita á landsfundi Sjálfstfl., að fara ætti með tekjuskattsprósentuna á hagnaði fyrirtækjanna niður í 10%?

Það sem hefur hins vegar einkennt skattkerfið hjá okkur og er á eina sviðinu þar sem Ísland liggur hátt í þessum samanburði, er í óbeinum sköttum. Það er ljóst að ríkið tekur inn hlutfallslega háan hluta tekna sinna á Íslandi í óbeinu sköttunum. Við erum með eitt hæsta virðisaukaskattshlutfall í heimi. Ætli það séu nokkrir nema kannski Danir sem eru hærri eða sambærilegir og við erum með mest allar vörur og þjónustu uppi í þessu háa þrepi. Það er tiltölulega lítið sem tilheyrir lægra þrepinu af tveimur í virðisaukaskattskerfi okkar. Það leiðir til þess að skattar á vöru og þjónustu standa undir hlutfallslega háum hluta af tekjuöflun ríkissjóðs á Íslandi og þar erum við hæstir Norðurlandanna. Skattar á vörur og þjónustu eru hér um 15% miðað við landsframleiðslu og það er tiltölulega hátt hlutfall af skatttekjum hins opinbera samanlagt upp á kannski rúm 30% sem segir að það er um helmingur sem þarna kemur inn af tekjum hins opinbera. Ef menn vilja bera þar niður, herra forseti, sem Íslands sker sig að einhverju leyti úr eða er á þeim endanum að skattlagningin sé þyngst þá er það ekki þar sem menn eru að bera niður núna, fráleitt hjá atvinnulífinu og ekki heldur hjá tekjuháum einstaklingum. Nei, en ástæða væri til að skoða hvar við séum á vegi stödd með óbeinu skattlagninguna, með neysluskattana og sérstaklega þá þætti hennar sem bitna þungt á tekjulágu fólki.

Það er líka staðreynd að ef maður skoðar skattalegt umhverfi t.d. barnafjölskyldna, þá er það óhagstætt að þessu leyti hér. Það er alveg ljóst. Mjög víða erlendis eru ýmsar neysluvörur sem vega þungt í útgjöldum barnafólks vægar skattlagðar með óbeinum sköttum en hér.

Herra forseti. Þessi almennu orð eru til þess að leiða umræðuna að því sem ég tel að ætti að vera hér umfjöllunarefni ef menn ætla út í almennar umræður um skattamál, sem á köflum hefur ósköp eðlilega orðið í tengslum við þetta frv., og vilja setja hlutina á Íslandi í samhengi við það sem tíðkast í nágrannalöndunum. En þá liggja þeir hlutir svona fyrir. Það er algjörlega ljóst hvað varðar skattlagningu atvinnulífsins eða fyrirtækjanna að Ísland er í nokkurri sérstöðu, algjörri sérstöðu innan Norðurlanda og OECD, hvað varðar það að þessir skattar eru lágir. Það helgast af því að tekjuskattsprósentan sjálf á hagnað fyrirtækja er í lægri kantinum nú þegar áður en fyrirhuguð lækkun kemur til sögunnar. Það helgast af því að launatengdur kostnaður atvinnulífsins hér er enn mjög lágur þó að til standi að vísu að hækka hann eitthvað með tryggingagjaldinu. Eftir sem áður yrði hann með því lægsta. Það helgast af því að hér er skattur á arðgreiðslur og hlutabréfahagnað lágur. Í heildina tekið myndar þetta umhverfi því mjög hagstæða umgjörð fyrir atvinnulífið. Ríkisstjórnin þurfti því ekki að leggja upp í sérstakan leiðangur til að breyta því.

Varðandi tekjuskatta einstaklinga þá eru þeir í það heila tekið ekki mjög háir hér, alls ekki. En dreifingin er hins vegar nokkuð sérstök. Hún er sérstök vegna þess að fólk með tiltölulega lágar tekjur fer að borga mjög þungan skatt, þ.e. um leið og að skattleysismörkunum kemur, þá skellur á full almenn skattprósenta í staðgreiðslu upp á tæp 40%. Það er frábrugið því sem mjög víða er í kringum okkur þar sem oft er um að ræða fleiri þrep í tekjuskattinum eða þá að kerfið er útfært þannig að lægri launum og upp undir meðallaun er hlíft mun meira við skattlagningunni en hér er gert. Það er ekki heildarskattbyrðin í tekjuskatti sem er frábrugðin hér heldur fyrst og fremst dreifingin í kerfinu og svo að ógleymdum auðvitað tekjutengingunum sem valda hinum illræmdu jaðaráhrifum sem minna er rætt nú um stundir en eru auðvitað enn til staðar og mjög tilfinnanleg fyrir marga hópa og hefur aftur nokkuð gleymst í umræðunni það fyrirbæri sem var mikið til umræðu fyrir nokkrum árum síðan.

Herra forseti. Ég tel að pakki hæstv. ríkisstjórnar í skattamálum nú sé mjög óskynsamlegur og í raun á skjön við það sem menn í orði kveðnu láta í veðri vaka að þeir séu að gera, þ.e. að taka á þeim þáttum í skattkerfinu þar sem Ísland sker sig að einhverju leyti úr hvað varðar það að óhagstæðara sé fyrir viðkomandi aðila en annars staðar gerist, hvort heldur einstaklingar eða fyrirtæki eiga í hlut. Það er ekki verið að því. Því ættu menn að bera annars staðar niður. Það er algjörlega ljóst. Þá ættu menn að skoða skattleysismörkin og skattbyrðarnar á lægri laun og þá ættu menn að skoða frekar óbeinu skattana því þar skerum við okkur úr, en ekki þar sem ríkisstjórnin ber niður, í hinu svokallaða hátekjuþrepi, og ég tala nú ekki um hvað varðar skattbyrði fyrirtækjanna, þess hluta sem er með góða afkomu. Ég held að þessi mikla lækkun tekjuskattsprósentunnar og hækkun tryggingagjaldsins á móti sé mjög óskynsamleg aðgerð. Ég hef frekar samúð með þeirri endurskoðun eignarskattanna sem þarna er á ferðinni þó auðvitað sé alltaf spurning hvernig það er nálgast og mér finnst ríkisstjórnin ekki fara þar nema með hálfkveðna vísu. Ef menn vildu fara yfir eignarskattsálagninguna þá átti að sjálfsögðu að skoða líka hina hliðina, þ.e. skatta á arðgreiðslur og fjármagnstekjuskatta og skatta af hlutabréfahagnaði og annað slíkt.

[14:45]

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að fara nokkrum orðum almennt um áherslur okkar og sérstöðu í skattamálum. Það hefur verið nokkuð sérkennilegt á köflum að heyra umræður um að það séu bara uppi tvær stefnur í skattalegu tilliti í landinu, þ.e. annars vegar þessi pakki núverandi ríkisstjórnar og svo hins vegar brtt. Samfylkingarinnar sem hún flutti við 2. umr. málsins. Það er svolítið sérkennilegt að menn telji aðra ekki hafa skoðanir á skattamálum eða stefnu í þeim efnum af því að þeir völdu ekki að flytja tiltekna brtt. við eitt tiltekið þingmál. Ég ætla ekki að fara að skattyrðast við ágæta félaga mína í Samfylkingunni en mér hafa þótt alveg óþörf ummæli af því tagi sem m.a. varaformaður Samfylkingarinnar lét falla í sjónvarpsþætti sl. sunnudag og komið hafa fram í umræðunum hjá fleirum í okkar garð. Við höfum fyrst og fremst verið í því að gagnrýna hæstv. ríkisstjórn og veita henni aðhald í þessum efnum og finna að því þegar við teljum hana vera að fara út af veginum en það stendur ekki á því að gera grein fyrir áherslum okkar í skattamálum.

Ég ætla ekki að fara út í samanburð, t.d. á brtt. Samfylkingarinnar og pakka ríkisstjórnarinnr. Ég gæti út af fyrir sig gert það en ég tel heppilegra að samfylkingarfólk mæli sjálft fyrir tillögum sínum og ég sé ekkert að barna þær en þá fer ég vinsamlegast fram á hið sama. Ég held að við styrkjum okkur ekki í slagnum gegn þessari ríkisstjórn með því að beita allt of mikilli orku í það að kljást innbyrðis.

Ég skil mætavel fulltrúa Framsfl. Þeim líður illa þessa dagana og það er eðlilegt að þeir reyni að koma einhverjum vörnum við og finna höggstað á Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Út af fyrir sig gæti ég sagt svipað um Samfylkinguna, að ég skilji að mönnum sé þar órótt, en mér finnst heldur óþarft að eyða mikilli orku í að afflytja beinlínis stöðu okkar í þessum efnum og láta að því liggja að vegna þess að við völdum aðra leið í afstöðu eða afgreiðslu þessa tiltekna máls í þinginu höfum við ekki stefnu í skattamálum. Er þetta mjög uppbyggilegur eða efnislegur málflutningur? Mér finnst það svolítið barnalegt og ég verð að segja alveg eins og er að ég held að þetta afgreiði sig sjálft. Þetta lýsir því fyrst og fremst að það eru einhver ónot innan í mönnum sem taka upp svona málflutning.

Herra forseti. Mér er það svo sem kærkomið tækifæri að fara nokkrum orðum um okkar almennu áherslur í þessum efnum. Þær liggja fyrir í stefnuyfirlýsingu okkar, í málefnahandbókinni, í handbók okkar um sveitarstjórnarmál þar sem komið er inn á tekjustofna sveitarfélaga, í landsfundarsamþykktum o.s.frv. Þannig er það yfirleitt hjá flokkum og ég satt best að segja hafði ekki áttað mig á því að menn teldu almennt að flokkar hefðu ekki stefnu nema sú stefna væri sem slík flutt í formi brtt. við frumvörp sem einhverjir aðrir flytja. Mér finnst í sjálfu sér sá vettvangur ekki endilega hinn rétti til að leggja fram almennar áherslur í skattamálum. Þá komast stjórnarandstöðuflokkar í heldur varnarlegar stellingar ef þeir eru undir það seldir að geta ekki haft stefnu almennt í málum nema í formi einhverra viðbragða við frumvörpum frá ríkisstjórn. Það er að sjálfsögðu ekki þannig. Hitt er rétt og skylt að menn geri á hverjum tíma grein fyrir viðhorfum sínum í almennum efnum og þar tel ég að ekkert hafi skort upp á hjá okkur.

Ég held að það sé alveg ljóst að sérstaða okkar í skattalegu tilliti er fyrst og fremst sú að við höfum tekið okkur mjög einarða stöðu sem varðstöðumenn um öflugt samábyrgt félagslega rekið velferðarkerfi og við höfum ekki skorast undan merkjum í þeim efnum að viðurkenna að það kostar tekjur. Öflugu velferðarkerfi verður ekki haldið uppi á Íslandi nema menn séu tilbúnir til að verja skatta og hafa tekjur í ríkissjóð. Það veit ég að hæstv. fjmrh. veit mætavel. Og ég leyfi mér að minna á það að í okkar röðum eru sennilega þeir einu stjórnmálamenn sem höfðu uppi gagnrýni á flatar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar á árunum 1998, 1999, 2000 og við bentum á að að því kynni að koma að gott yrði að hafa þessar tekjur í handraðanum til að halda uppi öflugu velferðarkerfi og eftir atvikum greiða þá niður skuldir ríkissjóðs hraðar en ella væri hægt á meðan svo vel áraði. Og hverjir ætli það hafi verið aðrir en sá sem hér talar og hv. þm. Ögmundur Jónasson sem helstir hafi haft uppi gagnrýni á sínum tíma á þessar breytingar? Það skyldi þó ekki vera margt að koma á daginn í þeim efnum og ýmsir hafi læðst til þess eftir á að fara að taka undir þessi sjónarmið og þar á meðal ekki ómerkari aðilar en Þjóðhagsstofnun og Seðlabankinn sem eru núna að segja --- telja sig að vísu hafa látið að því liggja á sínum tíma --- að auðvitað hafi þetta að mörgu leyti verið óskynsamlegt.

Staðreyndin er auðvitað sú að ef ekki væri núna þessi sala á eignum ríkissjóðs væru menn þegar komnir í bullandi vandræði með rekstur samneyslunnar vegna þess að menn hafa verið að sleppa út tekjum og auðvitað sérstaklega frá fyrirtækjum og atvinnulífi. Menn eru fljótir að gleyma þessum hlutum, t.d. þegar aðstöðugjaldinu að núvirði upp á eina 6 milljarða kr. var hent út á einu bretti. Og hvað var gert við það? Það var fært yfir í launamannaskatta þannig að ef við lítum á þetta í stærra samhengi og til aðeins lengri tíma hafa orðið verulegar breytingar á hlutföllum milli persónuskatta og fyrirtækjaskatta á Íslandi. Þetta tel ég, herra forseti, að hafi fyrst og fremst markað sérstöðu okkar eins og ég greini hana, að við höfum óhikað tekið okkur stöðu sem varðstöðumenn öflugs sameiginlega fjármagnaðs velferðarkerfis og ekki skorast undan þeim merkjum að axla ábyrgð af því að til þess þarf tekjur, til þess þarf skatta. Við höfum, herra forseti, með öðrum orðum ekki gengið almennt í skattalækkunarkórinn enda eru nógir aðrir í honum. Það eru alltaf nógir til þess að slá um sig og álykta á fundum sínum um það hve dýrlegt það væri ef hægt væri að lækka skattana svo og svo mikið, helst niður í núll, eins og hv. þm. Pétur Blöndal og fleiri skoðanasystkini hans í Sjálfstfl. en það er kannski ekki alveg víst að sama fólk sé jafnkokhraust þegar kemur að því að svara því hvar eigi þá að bera niður, hvað eigi að skera niður og hvaða afleiðingar það hafi, t.d. í velferðarkerfi okkar.

Ef ég hleyp yfir þetta í nokkrum liðum, herra forseti --- og ég minni aftur á að ég er að vitna í þá hluti sem liggja fyrir í gögnum okkar; stefnuyfirlýsingu, málefnahandbók, sveitarstjórnarhandbók og víðar --- þá höfum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði í fyrsta lagi verið talsmenn þrepaskipts tekjuskatts þar sem leitað væri leiða til þess að jafna skattbyrðunum betur en nú er gert þó að íslenska tekjuskattskerfið með ýmsum greiðslum sínum sé vissulega talsvert tekjujafnandi. Það er augljóst mál að núllþrepið sem fólgið er í reynd í skattleysismörkum --- það hefur auðvitað þau áhrif, og það er enginn vafi á því að meira þrepaskiptur tekjuskattur hefur ýmsa kosti í þessum efnum. Auðvitað geta menn sagt að honum fylgi líka ókostir, t.d. að hann sé flóknari í framkvæmd, en hugsum okkur tekjuskattinn í fjórum þrepum. Það væri þá núllþrep, þ.e. skattleysismörk með svipuðum hætti og er í dag, það væri lægra almennt þrep sem tæki til vægari skattlagningar á lægri og upp undir meðaltekjur, það væri hærra almennt þrep sem kæmi þar á ofan og síðan hátekjuþrep. Það væri einfalt að sýna fram á að með slíkri útfærslu og þessari einu breytingu, að bæta við einu þrepi, mætti ná fram betri dreifingu byrðanna og hlífa mætti betur lægri og meðaltekjum en nú er gert án þess endilega að það þyrfti að kosta fjárútlát. Síðan er spurningin um það hvernig menn stilla heildarskattlagninguna af. Þetta vil ég í fyrsta lagi nefna sem áherslur okkar. Við mundum vilja skoða þetta.

Í öðru lagi höfum við haft þá afstöðu --- og það er ekkert nýtt frekar en hjá stjórnarandstöðunni á sínum tíma --- að fjármagnstekjuskatturinn ætti að vera þannig á lagður að í honum væri frítekjumark sem tæki mið af almennum minni háttar sparnaði mjög margra í þjóðfélaginu og svo hins vegar hærri skattprósenta sem tæki til raunverulegra fjármagnstekna þar fyrir ofan. Sú var afstaða minni hlutans á Alþingi á sínum tíma þegar fjármagnstekjuskatturinn var lagður á, og um það voru ef ég man rétt fluttar brtt. Við erum enn sama sinnis, og viljum að bilið milli skatthlutfalls í almennum tekjuskatti og skatthlutfalls fjármagnstekna eigi að vera mun minna en nú er. Það er sjónarmið út af fyrir sig með alveg sama hætti og bilið milli skattlagningar tekjuskatts lögaðila sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var að fjalla um hér áðan, og er fullgilt sjónarmið, en þetta á auðvitað líka við um fjármagnstekjuskattinn og arðgreiðslurnar. Þetta er tengt hvað öðru og hefur tilhneigingu til að leita út í breytingar ef bilið verður þarna óhóflega mikið. Þá fara menn að reyna að leita leiða til að færa til hagnaðinn, hvar hann kemur fram, til að losna við skatt. Þetta er alþekkt. Og það er dálítið merkilegt að þeir sem beita gjarnan samræmingarrökunum og rökunum um að best sé að hafa skattana sem einfaldasta, helst bara 1% á allt landið og miðin --- við heyrðum þetta heldur betur á sínum tíma þegar virðisaukaskatturinn var tekinn upp. Það voru ekki svo fáar ræðurnar sem hæstv. þáv. fjmrh., Jón Baldvin Hannibalsson, flutti um þetta, að ekki mættu vera neinar undanþágur, þetta ætti bara að vera 1%. Gilda þessi rök þá ekki almennt? Við vitum vel að alltaf er í gangi sú tilhneiging að færa þarna til eftir því sem það er mönnum hagstætt, og menn eru ótrúlega fundvísir á leiðir í þeim efnum eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson segir stundum þegar verið er að lögfesta einhverjar breytingar í þessum efnum. Síðan eiga skattgreiðendur næsta leik. Það er alltaf þannig, þolendurnir eiga síðan næsta leik. Þegar við erum búin að setja einhverjar nýjar reglur á Alþingi fara menn að skoða hvernig þær koma út, hvernig þær komi við sig og hvaða leiðir þeir eigi færar til að mæta þeim. Þá eru auðvitað mörg og veigamikil rök fyrir því að ekki eigi að vera óhóflega breitt bil á milli þessarar meginskattlagningar verðmætanna eða teknanna eftir því hvernig þær eru taldar fram, hvort það eru launatekjur einstaklings, hagnaður fyrirtækja eða arður af fjármagnstekjum eða öðru slíku.

Í þriðja lagi, herra forseti, teljum við að stokka þurfi upp skattstofna sveitarfélaganna og það eigi að gera þá breiðari og líkari því sem ríkið hefur í dag. Eitt af því sem hefur valdið vandræðum er að samsetning skattstofna, annars vegar ríkis og hins vegar sveitarfélaga, er að hluta til mismunandi. Sveitarfélögin eru mun háðari persónusköttunum en hafa nánast engar eiginlegar skatttekjur af atvinnulífinu. Þau hafa minni eða engar tekjur af annarri veltu í samfélaginu en af launatekjunum. Það er enginn vafi á því að þetta leiddi til þess að góðærið margumtalaða skilaði sér hægar og í minna mæli inn til sveitarfélaganna á uppsveiflutímanum. Ég held að það sé óumdeilt. Þegar tekjur ríkisins jukust mjög hratt af auknum innflutningi og öðrum slíkum tekjum kom það hægara til sveitarfélaganna. Það var þá fyrst og fremst í gegnum launahækkanir, þegar þær voru komnar til sögunnar, að auknar tekjur af útsvari fóru að skila sér til sveitarfélaganna.

Nú munu menn sjálfsagt segja af hálfu sveitarfélaganna: Við skulum bíða aðeins af því að nú er þetta að snúast við, og að sjálfsögðu er þá myndin hagstæðari fyrir sveitarfélögin í augnablikinu en hún er fyrir ríkið. Nú hafa tekjur ríkisins af einmitt innflutningsgjöldum og öðru slíku verið að snardragast saman en það snertir sveitarfélögin minna og þau njóta góðs á hinn bóginn af nýlega gerðum kjarasamningum við fjölmennar stéttir sem þau borga að vísu að hluta til sjálf því auðvitað veldur það auknum launaútgjöldum hjá sveitarfélögum, samningar við tónlistarkennara, grunnskólakennara o.s.frv., en stærri launasumma í þjóðfélaginu kemur hagstæðar út fyrir sveitarfélögin í heildina tekið hlutfallslega heldur en ríkið. Ég býst ekki við að forsvarsmenn sveitarfélaganna verði manni sérstaklega þakklátir fyrir að vekja athygli á því núna að þarna er þetta misræmi á milli en til lengri tíma litið er þetta óheppilegt. Til lengri tíma litið er slæmt að afkoma þessara tveggja meginstjórnsýslustiga og meginframkvæmdaaðila hins sameiginlega rekstrar haldist ekki sæmilega í hendur. Ég er því þeirrar skoðunar, herra forseti, og fyrir því mælum við m.a. í sveitarstjórnarhandbók okkar að tekjustofnar sveitarfélaganna verði endurskipulagðir og þessi tekjulegu samskipti ríkis og sveitarfélaga endurskoðuð. Það er hvort sem er þörf á því, enda hefur hallað á sveitarfélögin eins og allir vita, en að það verði gert út frá þeirri nálgun að tekjustofnar sveitarfélaganna breikki, þau fái hlutdeild í fleiri tekjustofnum og þar af leiðandi fylgi þau ríkinu betur eftir í sveiflum eftir því sem þær koma til.

[15:00]

Auðvitað vakna líka spurningar, herra forseti, um hvort ekki sé óeðlilegt að atvinnulífið, fyrirtæki séu nánast alls ekki greiðendur í formi hreinna skatttekna til sinna sveitarfélaga. Þau greiða fyrst og fremst gjöld vegna þjónustu sem þeim er veitt eða aðstöðu sem þeim er látin í té en í raun og veru er ekki hægt að segja að þau séu raunverulegir skattgreiðendur til sinna sveitarfélaga og það er fremur óvenjulegt. Yfirleitt er um það að ræða að þetta er hvort tveggja og ég held að menn ættu að skoða það.

Ég nefni þá í fimmta lagi umhverfisskatta og gjöld. Við erum talsmenn þess að hafinn verði undirbúningur að því að móta samræmdar áherslur hér og færa inn í skattalög eða lög og reglur um tekjur ríkis og sveitarfélaga, skatta og gjöld sem tengjast þessum flokki og þar gæti orðið og á að vera um bæði íþyngjandi og ívilnandi aðgerðir að ræða, þ.e. skattlagningu mengandi starfsemi og röskunar á umhverfi og öðru slíku og síðan eftir atvikum ívilnandi, hvetjandi aðgerðir í formi afsláttar, t.d. til þeirra sem eru að ráðast í fjárfestingar í þágu úrbóta í umhverfismálum o.s.frv. Þetta er náttúrlega heilt svið, herra forseti, sem mjög lítið er komið á dagskrá hér á landi, nánast ekki í öðru tilliti en því að um einhverja gjaldtöku, skilagjöld og annað slíkt er að ræða. En þetta er í örri þróun mjög víða erlendis og er hluti af pólitík viðkomandi landa þar sem verið er að reyna að stýra þróun atvinnulífs, ekki síst orkumálageiranum inn á grænni brautir með því að hafa skattalegt hagræði fólgið í beislun umhverfisvænna orkugjafa o.s.frv. Þarna gætu sveitarfélögin komið mjög við sögu, enda mörg og stór verkefni á sviði umhverfismála á þeirra könnu, t.d. allt sem lýtur að Staðardagskrá 21 og þau hafa verið að fá á sínar herðar mjög margar skuldbindingar Íslands vegna umhverfismála á alþjóðavettvangi. Ég nefni t.d. tilskipanir frá Evrópusambandinu sem rignir yfir okkur og ein stór í vændum núna sem Ísland er reyndar komið í ónáð með að fullgilda ekki. Það er ný tilskipun um förgun úrgangs sem mun óumflýjanlega hafa í för með sér umtalsverðan kostnað þegar hún kemur hér sem er ekkert vafamál að hún gerir.

Þá kemur að hinni hliðinni sem er fjármögnunin eða gjaldtakan, en það er einmitt gert ráð fyrir, það er beinlínis gert ráð fyrir því í tilskipununum sjálfum að allur svona kostnaður sé borinn uppi af þeim sem úrgangnum veldur. Og ekki er ætlast til þess að ríki eða sveitarfélög noti aðra tekjustofna til að mæta útgjöldum af þeim toga. Það er hluti af nálguninni í þessum málaflokkum. Við verðum því, herra forseti, að fara að koma þessu betur á dagskrá og fara yfir þetta stóra svið.

Í sjötta lagi er það afstaða okkar, herra forseti, að skattalegt umhverfi fyrirtækja á Íslandi þurfi að sjálfsögðu að vera samkeppnishæft við nágrannalöndin en við erum andvíg því að Ísland taki þátt í skattalegum undirboðum. Við höfum hér á þingi flutt um það tillögur og hreyft við því með ýmsum hætti, til að mynda og ekki síst hv. þm. Ögmundur Jónasson, að Ísland á ekki á hinn bóginn að fara að skipa sér í sveit með þeim ríkjum sem eru að reyna að undirbjóða nágrannalöndin með beinlínis til muna lægri sköttum á atvinnulíf. Sú þróun endar með ósköpum og það er í mótstöðu við alþjóðlega viðleitni sem í gangi er á vegum OECD og verður væntanlega færð að hluta til yfir til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar núna, því þetta er eitt af því sem viðræðurnar og niðurstaðan af Doha-fundinum tók til að þurfi að líta á. Það væri því sérkennilegt ef Ísland nú á þessum tímapunkti ætlaði að fara að elta einhverjar Karíbahafseyjar eða Ermasundseyjar eða hvað það nú er og fara með einhverjum skattalegum undirboðum að lokka til sín erlend fyrirtæki. Það eigum við ekki að gera en hins vegar sjá um að skattalegt umhverfi og starfsumhverfi okkar eigin atvinnulífs sé hagstætt þannig að það geti blómstrað. Það er það sem skiptir máli. En þessi draumsýn manna um að við Íslendingar verðum ríkir á því að veiða hingað einhver alþjóðleg fyrirtæki, á henni hef ég hvort sem er enga trú, enda niðurstaðan sú að þau skilja yfirleitt mjög lítið eftir sig. Slíkar málamyndastarfsstöðvar sem oft eiga í hlut þegar um er að ræða að nýta sér skattasmugur skilja oft mjög lítið eftir sig. Ég veit ekki hvort menn vita hvernig t.d. sumar þessara Karíbahafseyja sem eru að gera út á hluti af þessu tagi, að ódýrt sé að skrá þar fyrirtæki og ódýrt sé að skrá þar skip, hvernig þær hafa þetta. Ég kynntist því fyrir nokkrum árum þegar mesta umræðan var um skipaskráninguna og ég var að skoða þau mál og hentifánamálin. Hvernig var það þegar menn voru að skrá þetta á einhverjum eyjum? Það var karl í Hamborg með eina skúffu í skrifborðinu hjá sér sem hann kippti út. Þar voru tveir stimplar og nokkur eyðublöð og þar fór þetta fram. Það kom aldrei króna niður á þessar eyjar svo ég viti til fyrir þessa þjónustu. Þetta voru hreinir málamyndagjörningar og ég vona að ekki sé ætlunin að Ísland fari að fara út í einhvern slíkan bisness.

Við höfum líka, herra forseti, verið stuðningsmenn þeirrar viðleitni á alþjóðavettvangi að koma í veg fyrir og skattleggja fjármagnshreyfingar á milli landa. Ég held að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð sé eini flokkurinn sem hér á þingi hefur flutt um það tillögu að það verði athugað af Íslands hálfu að gerast stuðningsaðilar þeirrar viðleitni sem er ekki síst hagsmunamál lítilla opinna hagkerfa ef það er það sem við viljum vera eða viljum verða eftir því hvernig við teljum að standi nú og að þau sé ekki um of auðsæranleg vegna áhlaupa braskara. Þá hafa menn helst staldrað við þá möguleika til þess að þurfa ekki að setja beinar girðingar og stýra þessu með höftum eins og hér var í eina tíð að einhver gjaldtaka fyrir fjármagnstilfærslur milli landa, t.d. þær sem eru í stærri stíl og ekki tengjast raunverulegum fjárfestingum, komi til. Þetta er oft kennt við upphafsmann þessara hugmynda á alþjóðavettvangi, Tobin, og kallast Tobin-skattur. Þetta höfum við sömuleiðis stutt.

Að síðustu ætla ég, herra forseti, að nefna í þessum pakka að við höfum, og það er auðvitað skattamál líka, lagst mjög hart gegn hugmyndum um að láta notendur í skólakerfinu, í heilbrigðiskerfinu taka til við að greiða umtalsverðan hluta kostnaðarins með þjónustugjöldum eða notendagjöldum, sjúklingasköttum, skólagjöldum eða hvað það nú heitir. Þetta er skattapólitík líka því ef menn hafna þessu, þá verða menn að vera tilbúnir til að mæta því og veita þessari starfsemi fjármagn af opinberum fjárlögum sem er fjármagnað með almennum skatttekjum og það er afstaða okkar, herra forseti.

Þess vegna er það að við höfum ekki tekið undir þá almennu skattalækkunarkröfu sem hefur verið uppi nú og studd af væntanlega flestum öðrum því að í tillögum Samfylkingarinnar er um að ræða tillögur um lækkun á tekjuskatti lögaðila, bara mun minni en ríkisstjórnin leggur til og Samfylkingin er líka með tillögur um lækkun á hátekjuskatti. Hún á að vísu að koma seinna til framkvæmda og vera minni, koma til framkvæmda ef ég man rétt á árunum 2003 og 2004, og Samfylkingin var sömuleiðis með í brtt. sínum nokkra lækkun á eignarskatti, þ.e. að vísu minni en þá sem ríkisstjórnin var með.

Við erum hins vegar algerlega sammála Samfylkingunni um breytingarnar á fjármagnstekjuskattinum. Þar liggja leiðir alveg saman. Því var lýst hér og undir það tókum við í málflutningi okkar við 2. umr. og brtt. okkar.

Herra forseti. Ég ákvað að leyfa mér að taka í þetta smástund til að eyða áhyggjum manna í því sambandi að við hefðum ekki áherslur okkar í skattamálum alveg tiltækar og á hreinu. Það höfum við. Ég get komið þessu til manna skriflega ef þeir vilja, samantekt og yfirlit yfir þetta þannig að menn þurfi ekki að vera að ómaka sig hingað upp í ræðustól og halda einhverju öðru fram en því sem rétt er. Það skortir ekkert upp á að áherslur okkar í þessum efnum séu bærilega skýrar, tilbúnar og útfærðar og við alveg menn til að tala fyrir þeim. Það held ég að við séum. Og ég spái því að ef menn fara hér út á götur og ræða við almenning, þá hafi sá hinn sami almenningur það nokkuð á hreinu um það bil hvar við erum í þessu litrófi, að við erum þeir sem höfum helst andæft þessum skattalækkunartillögum og við höfum gert það, bæði vegna þess að þær bera ekki niður þar sem þær ættu að gera, koma ekki til góða þeim sem eru í mestri þörf fyrir það en líka vegna þess að við höfum áhyggjur af fjármögnun velferðarkerfisins og samneyslunnar. Hún er hlutfallslega lítil á Íslandi, mjög lág, samanlagðar skatttekjur hins opinbera, 30% miðað við landsframleiðslu hér en 40% á hinum Norðurlöndunum. Þar dregur Finnland meðaltalið eitthvað niður þannig að þær eru vel yfir 40% þar sem þær eru hæstar sem er væntanlega í Svíþjóð og síðan í Danmörku og það sýnir okkur aðeins hvar við erum á vegi stödd. Þegar kemur hins vegar að velferðarkerfinu og skólakerfi okkar þá viljum við geta verið stolt af því að vera eitt af Norðurlöndunum en staðreyndin er náttúrlega sú að það hefur allan tímann vantað talsvert upp á að við legðum eins mikið til þessara málaflokka og hin Norðurlöndin hafa gert, til velferðarkerfisins, til menntamála og heilbrigðismála.

Það verður ekki bæði sleppt og haldið, herra forseti, í þessum efnum frekar en öðrum, það þurfa menn að læra. Það er ekki endalaust hægt að sitja klofvega á girðingunni og daðra annars vegar við skattalækkanir og vilja gera öllum til góða í þeim efnum en vera þá ekki menn til þess að horfa framan í afleiðingarnar þegar kemur að því að menn missa milljarða á milljarða ofan út úr ríkissjóði. Það hlýtur að koma niður í annaðhvort lakari þjónustu eða hinu sem væntanlega er í ríkari mæli ætlun núverandi stjórnarflokka, að það leiti út í gjaldtöku þannig að notendurnir greiði meira. Áhugi hæstv. menntmrh. leynir sér ekki á því. Það eru ævinlega sömu viðbrögðin hjá hæstv. menntmrh. um leið og opnast möguleikar á því að eitthvað sé einkavætt, einkarekið, einkafjármagnað eða að menn borgi hluta af kostnaðinum með háum skólagjöldum eins og við heyrðum hér fyrir fáeinum dögum þegar hæstv. menntmrh. var að tala alveg heiðbjartur í framan um möguleikana sem opnuðust með því að skólarnir tækju hundruð þúsunda kr. inn í skólagjöld, ákveðnir skólar á ákveðnum sviðum. Þá hoppaði hjartað í hæstv. menntmrh. af gleði yfir þessu. En ekki var verið að ræða í þeirri setningu um jafnrétti til náms --- var það?

Herra forseti. Allar aðstæður í kringum þessi mál núna mæla náttúrlega með því að þær breytingar sem ríkisstjórnin rauk af stað með í taugaveiklun sinni sl. haust verði slegnir af að öðru leyti en því sem góð samstaða er um að lækka að sjálfsögðu tekjuskattshlutfallið á móti útsvarshækkuninni sem þegar hefur verið ákveðin. Þessi tilfærsla þar upp á 0,33% og að afnema skattlagningu húsaleigubóta sem auðvitað allir fagna. Restin af pakkanum er meira og minna óskynsamleg við þessar aðstæður og harðlega gagnrýnd, t.d. þessi útfærsla gagnvart fyrirtækjunum, af aðilum vinnumarkaðarins, af Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun og fleiri. Og þá er dálítið skrýtið að ríkisstjórnin skuli vera að þrjóskast áfram með þetta. Það er þegar komin í loftið umræða eins og kom fram í orðaskiptum áðan, umræða um að hætta við þetta að hluta til, að bakka aftur um eins og þriðjung af þessu. Það er ekki stefnufestan, þetta nær ekki einu sinni lögfestingu hér á Alþingi áður en það er komið í loftið úti í þjóðfélaginu að svo verði hætt við a.m.k. þriðjung af þessu. En það er eins og mönnum sé alveg sama. Það sé ekkert tiltökumál hjá mönnum að hringla með þetta svona fram og til baka hvort sem það eru fjárlögin milli umræðna upp og niður eða þessi skattlagning, hækkun tryggingagjaldsins fyrst og svo lækkun þess aftur um 1/3 fljótlega ef þannig tekst til í kjaramálum á næstunni.

Ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. verður af allri bjartsýninni sem hann hafði uppi. Það er ekki nýtt að sá maður sé bjartsýnn og það jafnvel úr hófi fram. Auðvitað vildum við gjarnan að þetta reyndist allt saman eins létt og auðvelt á næstu mánuðum og hæstv. forsrh. vill vera láta. Reynslan verður náttúrlega að skera úr um það, en ég get ekki neitað því, herra forseti, að ég hneigist til að verða frekar að trúa miklu síður bjartsýnum og varfærnari spám helstu aðila sem um þetta hafa verið að fjalla undanfarna daga og vikur eins og Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka og öðrum slíkum sem alls ekki deila bjartsýninni með hæstv. forsrh. hvað varðar gengisþróun og verðlagsforsendur strax á næstu mánuðum. Auðvitað skiptir miklu í því sambandi að ekki bætist við sú óvissa sem tengist uppsögn kjarasamninga strax upp úr áramótum en það er svo sem ekki allur munur á hvort það hefði gerst í febrúar eða maí ef þannig á eftir að fara, þó vissulega skapist einhver tími til að vinna í málunum á meðan.

Ég vil að lokum, herra forseti, taka undir þá brtt. sem hér er flutt af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur varðandi vaxtabæturnar. Það eru að sjálfsögðu öll efni til að skoða þau mál í tengslum við þær breytingar sem nú hafa verið gerðar að öðru leyti, þ.e. á álagningu eignarskatta og á fasteignamatinu eins og það breyttist og síðan má aftur segja að með því að fella niður vaxtatekjur af húsaleigubótum hafi hlutur þess hóps verið réttur og vegna hinna eignatengdu skerðingar bótanna sem getur komið eins og kunnugt er mjög harkalega við, þá eru öll efni til að fara betur yfir það mál. Ég hef ekki lagst yfir það hvort sú hækkun viðmiðunarmarkanna sem þarna er lögð til dugar í þeim efnum eða hvort þar er eitthvað of eða vanreiknað. Það má sjálfsagt deila um forsendurnar í þeim efnum en staðreyndin er sú að þegar þarna er á ferðinni bæði tekjutengd og eignatengd skerðing þá getur það komið mjög harkalega við og ég held að að séu öll efni til að fara yfir þetta.

Ég get hins vegar ekki stutt --- það er vonandi ljóst af máli mínu --- brtt. hv. þm. Péturs Blöndals en ég ætla að inna hv. þm. eftir einu atriði og það er hvaða vísindaleg nákvæmni liggur á bak við hlutfallstöluna 11. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur flutt brtt. og það má hv. þm. eiga að hann er yfirleitt sjálfum sér samkvæmur í nálgun sinni í þessum efnum en ég hefði átt von á tölunni 10 þarna miðað við landsfundarsamþykkt Sjálfstfl. því það er eins og mig rámi í að hv. þm. Pétur Blöndal hafi sjálfur flutt á landsfundi Sjálfstfl. brtt. um að lækka bæri tekjuskatt fyrirtækja, lögaðila, niður í 10%. Reyndar hef ég heyrt hv. þm. halda ræður um að albest væri að fara niður í núll, þá væru tekjurnar meiri en nokkru sinni ef menn bara færu niður í núll. Alltaf hefur mér þótt gaman að slíkri röksemdafærslu. En hvaða nákvæmnisvísindi liggja á bak við það að niðurstaðan varð 11%, það finnst mér fróðlegt að fá nánari upplýsingar um, það má kalla það fræðilega. Einhver hlýtur ástæðan að vera og ekki síst ef þetta misræmi er á milli landsfundarsamþykktarinnar og brtt. hv. þm. eða hvort hann ætlar að taka þetta í þrepum og lækka þetta um 1 prósentustig ári síðar.

Herra forseti. Ég held að ég ljúki þá máli mínu. Ég endurtek að lokum að þessi skattapakki hæstv. ríkisstjórnar var augljóslega misráðinn og lítt ígrundaður strax í byrjun. Hann kom fram sem eitthvert taugaveiklunarmál á haustdögum þegar útlitið var að dökkna mjög hratt og ber það á margan hátt með sér að vera ekki mjög vel útfærður. Það er held ég þegar farið að koma á daginn. Hann var unninn án samráðs við kóng eða prest og greinilegt að þetta kom frekar í opna skjöldu bæði fagstofnunum eða sérfræðistofnunum á þessu sviði, aðilum vinnumarkaðarins og fleiri, að þessum pakka skyldi vera dengt fram á þennan hátt. Það hefur komist á eitthvert stjórnmálasamband síðar eftir að verkalýðshreyfingin hafði ítrekað kvartað undan því að ríkisstjórnin hefði ekkert við hana að tala og atbeina þurfti úr þeirri átt til þess að koma þeim samtölum á. Það er rétt að hafa það í huga, herra forseti, þannig að ekki er hlutur hæstv. ríkisstjórnar mjög merkilegur í þeim efnum þó að hæstv. forsrh. vilji nú svo vera láta.

Herra forseti. Ef til vill á það fyrir þessum pakka að liggja að hann komi aldrei nema að hluta til til framkvæmda. Það skyldi ekki fara svo að strax þegar kemur inn á næsta ár, þá verði þetta hvort sem er meira og minna orðið úrelt og þá ekki kannski efni til að hafa um það stór orð eða eyða mikilli orku í það. En augljóslega væru það þá rök með því sjónarmiði sem við höfum sett fram að eðlilegast hefði verið að slá þessar breytingar af nema að þessu leyti sem ég hef gert grein fyrir.