Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 15:23:35 (2919)

2001-12-11 15:23:35# 127. lþ. 48.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir a.m.k. vænt um að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, segir að ekki sé mikið upp á það að klaga sem menn hafi verið að færa fram í umræðunum. Ég kannaðist nefnilega ekki við það. Ég hafði að vísu ekki tök á að sitja undir þeim öllum á fimmtudaginn en mér hefur fundist sem umræðan hafi verið óvanalega málefnaleg hver sem að henni hefur komið. Mér hafa fundist þau málefnalegu rök sem hæstv. fjmrh. og stjórnarliðið hafa lagt til umræðunnar vera góð. Mér hefur þótt gaman að fást við þau.

Mér hefur sömuleiðis þótt gaman að hlusta á hv. þm. Pétur H. Blöndal sem ég er algjörlega ósammála en mér hefur þótt hann koma með athyglisverða punkta inn í umræðuna. Þetta hefur verið málefnaleg umræða.

Auðvitað hafa þingmenn VG verið ósammála ýmsu því sem við í Samfylkingunni höfum verið að leggja til. Það er eðlilegt. Við runnum jú í þessar tvær kvíslir, herra forseti. En við erum hér í umræðu um málefnaleg atriði og auðvitað eru það þá smekksatriði hvort menn vísa til einhverra orða sem einstöku þingmenn kunna að hafa látið falla þar. Ég ætla samt að leyfa mér að segja það, herra forseti: Gæti verið að það hefði einhvern tíma komið fyrir hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, þar sem hann hefur setið að skrafli í sjónvarpsþáttum og útvarpsstofum um Samfylkinguna, að það hafi dottið upp úr þeim hv. þm. að honum þætti nokkuð skorta á að Samfylkingin hefði stefnu? Á ég að rifja upp nokkur dæmi um það? Fyrir gamallar vináttu sakir ætla ég ekki að gera það vegna þess að ég er honum sammála um að hér stilla menn auðvitað saman kanónur sínar (Gripið fram í.) á þann skotspón sem situr hér og segja má að sé öðrum skotspónum stærri í þessum þingsal.

Herra forseti. Ekki ætla ég að hafa fleiri orð um þetta en af hálfu Samfylkingarinnar hefur þetta verið ákaflega málefnaleg umræða, svo mjög að hæstv. fjmrh. tók sérstaklega til þess varðandi nefndarálit okkar í lokaræðu sinni á fimmtudaginn.