Húsnæðismál

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 15:34:23 (2924)

2001-12-11 15:34:23# 127. lþ. 48.2 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[15:34]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin. Ég held að þetta skipti máli. Það er augljóslega meira svigrúm til að beita slíkum heimildum ef þær geta tekið til sveitarfélaga sem eru til athugunar eða eru að sækja sér ráðgjöf eða eru á einhvern hátt á borðum eftirlitsnefndarinnar án þess þó að beinlínis sé búið að yfirtaka fjármál þeirra eða þau komin í það sem kallað er gjörgæsla.

Það var ekki síst þetta sem ég vildi leggja áherslu á í máli mínu og ég tel að svör hæstv. ráðherra séu þannig að ríkari efni séu en ella til að styðja þetta mál af því að það geti þá komið fleirum að liði.

Síðan vil ég segja, hæstv. forseti, að ég hef litið svo á að ég hafi tvær mínútur þegar ég fer í andsvör við ræðu ráðherra eða hvers þess þingmanns sem í hlut á og að svo fremi sem andsvar mitt sé með einhverjum hætti viðbrögð við þeirri ræðu sem flutt hefur verið, hvort sem það felur í sér spurningu eða ekki, vissi ég ekki annað en að ég réði þessum ræðutíma mínum sjálfur. Ef það er eitthvað öðruvísi bið ég um leiðsögn frá hæstv. forseta um það.

(Forseti (GuðjG): Hv. þm. hóf fyrra andsvar sitt á því að hann ætlaði að nota andsvaratímann til að lýsa stefnu flokks síns. Forseti lítur þannig á að andsvaratími sé ekki ætlaður til þess og á það benti hann hv. þm. í fullri vinsemd.)