Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 15:51:42 (2930)

2001-12-11 15:51:42# 127. lþ. 48.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[15:51]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki undarlegt þó að mig og hv. þm. Steingrím J. Sigfússon greini á um skattkerfi og hlutverk þess. Við erum fylgjendur tveggja mismunandi heimspekisjónarmiða. Hv. þm. fylgir vinstri sjónarmiðum og ég hægri sjónarmiðum. Meginmunurinn felst einmitt í því hvert við teljum hlutverk skattkerfisins. Er það eingöngu til þess að afla velferðarkerfinu tekna eða er það líka hugsað til þess að jafna tekjur?

Margir vinstri menn telja að skattkerfið eigi að jafna tekjur ekki síður en að afla tekna, jafnvel svo að þeir eru tilbúnir til að fallast á að skattkerfið skili minni tekjum til velferðarkerfisins gegn því að það jafni tekjur, þ.e. að meiri áhersla sé lögð á réttlætið en á að halda velferðarkerfinu gangandi. Þetta hefur iðulega komið fram.

Þessi tillaga sem ég lagði fram en hef dregið til baka gekk einmitt út á að auka tekjur ríkissjóðs á öllum sviðum til að geta staðið undir velferðarkerfinu eða lækka skuldir ríkissjóðs. Hún hefði að sjálfsögðu ekki jafnað tekjur, að sjálfsögðu ekki, enda tel ég að það sé meira atriði fyrir þjóðfélagið að þjóðarkakan sé stækkuð en ekki sé lögð ofuráhersla á það að skipta henni jafnt þannig að allir fái minna en áður.