Getraunir

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 16:02:36 (2932)

2001-12-11 16:02:36# 127. lþ. 48.3 fundur 314. mál: #A getraunir# (reikningsár) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[16:02]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um getraunir. Með frv. þessu er lagt til að reikningsár Íslenskra getrauna verði almanaksárið í stað 1. júlí til 30. júní eins og það er skv. núgildandi lögum.

Frv. er borið fram að ósk stjórnar Íslenskra getrauna. Á aðalfundi félagsins á síðasta ári var samþykkt að færa reikningsár þess til samræmis við reikningsár þeirra aðila sem standa að félaginu og þeirra erlendu getraunafyrirtækja sem félagið er í samvinnu við. Reikningsár þessara aðila er í flestum tilvikum almanaksárið.

Þegar starfsemi félagsins hófst var enska knattspyrnan meginviðfangsefni þess. Með því að hafa reikningsárið frá 1. júlí til 30. júní náðist að halda leiktímabili ensku knattspyrnudeildarinnar innan reikningsársins. Starfsemi félagsins hefur breyst mikið síðari ár og enska knattspyrnan orðin minni þáttur í starfsemi félagsins. Því telur stjórn þess nauðsynlegt að breyta reikningsárinu til samræmis við reikningsár félaga innan íþróttahreyfingarinnar og samstarfsaðila.

Menntmrn., sem skv. 1. mgr. 4. gr. laganna fer með málefni Íslenskra getrauna, að öðru leyti en því að dómsmálaráðuneytið setur reglur um starfrækslu getrauna, sbr. 5. gr. laganna, styður að lagabreyting þessi nái fram að ganga.

Ég hef nú gert grein fyrir efni frv. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.