2001-12-11 16:06:33# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[16:06]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég geri grein fyrir starfsemi Byggðastofnunar fyrir árið 2000 í samræmi við 13. gr. laga um stofnunina. Jafnframt ætla ég að fjalla nokkuð um þær breytingar sem orðið hafa hjá stofnuninni það sem af er þessu kjörtímabili.

Starfsemi Byggðastofnunar var með líku sniði framan af árinu 2000 og var árið áður. Ný lög um stofnunina tóku gildi í ársbyrjun 2000. Nú er Byggðastofnun sérstök stofnun sem heyrir undir iðnrh. sem skipar stofnuninni stjórn sem situr milli ársfunda en slíka fundi skal halda fyrir 1. júlí ár hvert.

Fyrsti ársfundur stofnunarinnar í samræmi við hin nýju lög var haldinn á Akureyri 7. júní 2000. Fundurinn var vel sóttur og var fjallað um ýmsa þætti er lúta að þróun atvinnulífs og þjónustu á landsbyggðinni. Á fundinum var kynnt ákvörðun um að flytja alla stofnunina á Sauðárkrók. Starfsmönnum í Reykjavík var boðið að flytja með stofnuninni en aðeins einn starfsmaður þáði það. Í lok ársins var skipaður nýr forstjóri fyrir stofnunina og tók hann við starfi sínu þann 1. janúar sl.

Byggðastofnun fékk 202 millj. kr. framlag úr ríkissjóði árið 2000 að viðbættu sérstöku 100 millj. kr. framlagi vegna afskriftarreiknings. Byggðastofnun fékk hins vegar ekki aukafjárveitingu með tilvísun til viðauka 2 við búvörusamning frá 1992 eins og hún hefur fengið mörg undanfarin ár. Á árinu fékk stofnunin í annað sinn 300 millj. kr. ríkisframlag til að leggja fram sem hlutafé til stofnunar svæðisbundinna eignarhaldsfélaga. Er þetta í samræmi við gildandi byggðaáætlun sem Alþingi samþykkti í mars 1999.

Ekki hefur enn tekist að ráðstafa öllu framlaginu til stofnunar eignarhaldsfélaga þar sem skort hefur mótframlög heimaaðila. Sérstaklega hefur reynst erfitt að afla fjár á Austurlandi og Vestfjörðum en einnig hefur einungis hluti framlagsins farið til Vesturlands.

Á árinu 2000 voru rekstrargjöld stofnunarinnar samtals rúmlega 929 millj. kr. og skiptast þau þannig að um 732 millj. kr. eru vegna lánaumsýslu, og er stærsti einstaki liðurinn þar framlög í afskriftareikning útlána eða um 621 millj. kr. Sérgreindur kostnaður vegna þróunarstarfsemi er um 197 millj. kr. og er stærsti einstaki liðurinn styrkir, 128 millj. kr., sem stofnunin veitir til ýmissa aðila. Af þeirri fjárhæð rann bróðurparturinn til atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðinni en eitt af áhersluatriðum gildandi byggðaáætlunar er að styrkja starfsemi slíkra félaga.

Rekstrarkostnaður Byggðastofnunar árið 2000 var 177 millj. kr. og hafði lækkað um 7,8% frá fyrra ári. Kostnaðarþátttaka annarra nam 25 millj. kr. Hreinn rekstrarkostnaður stofnunarinnar var því 152 millj. kr. en nam 167 millj. kr. árið áður. Á árinu 2000 var hagnaður á rekstri Byggðastofnunar samkvæmt rekstrarreikningi 176,5 millj. kr. Hagnaðurinn skýrist af 300 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði vegna þátttöku Byggðastofnunar í eignarhaldsfélögum á landsbyggðinni.

Niðurstaða efnahagsreiknings Byggðastofnunar var 10.466 millj. kr. um síðustu áramót og hafði hækkað um 20,3% á árinu. Lífeyrisskuldbindingar voru 382 millj. kr. í ársbyrjun en 413 millj. kr. í árslok. Eigið fé í árslok var 1.743 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi og jókst um 227 millj. kr. á árinu. Eiginfjárhlutfall samkvæmt lögum um lánastofnanir, aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, var 16,8%. Fasteignir Byggðastofnunar voru 8% af eigin fé. Hlutfall eiginfjár stofnunarinnar af heildareign var 17,4% í upphafi árs en 16,6% í árslok.

Fjárlög fyrir árið 2000 heimiluðu stofnuninni lántökur allt að 1.800 millj. kr. Stofnunin nýtti heimildina með þremur lántökum hjá Norræna fjárfestingarbankanum, samtals að fjárhæð 24,6 millj. evra eða 1.816 millj. kr. Byggðastofnun fékk 500 millj. kr. lántökuheimild til viðbótar á árinu 2000 sem ekki var nýtt á árinu og færðist hún yfir á árið 2001.

Stofnunin lánaði 2,4 milljarða á árinu 2000 sem er veruleg aukning frá árinu áður en þá námu heildarútlán um 1,7 milljörðum kr. Ógreidd lánsloforð námu um 1 milljarði kr. um síðustu áramót.

Framlag í afskriftareikning útlána vegna þessara útlána nam 590 millj. kr. sem er veruleg hækkun frá árinu áður en þá var það 263 millj. kr. Afskriftareikningur útlána var 1.267 millj. kr. í árslok eða 11,9% af heildarútlánum. Samsvarandi hlutfall árið áður var 13,3%. Með tilliti til hlutverks stofnunarinnar er óhjákvæmilegt að afskriftareikningur hennar sé nokkru hærri en hjá öðrum lánastofnunum.

Styrkveitingar Byggðastofnunar hafa dregist saman á undanförnum árum og er svo komið að þær eru að langstærstum hluta stuðningur við atvinnuþróunarfélög á landsbyggðinni. Stofnunin veitti 128 millj. kr. í styrki á árinu 2000 og fóru um 108 millj. kr. til atvinnuþróunarfélaga en einungis 20 millj. kr. í aðra styrki.

Þróunarsvið stofnunarinnar vann að ýmsum málum á árinu. Þar má nefna innlend og erlend samstarfsverkefni á sviði byggða- og atvinnumála. Þróunarsviðið vinnur að aukinni fjölbreytni atvinnulífsins á landsbyggðinni og aðlögun þess að breyttum aðstæðum, m.a. með eflingu rannsóknar- og þróunarstarfs. Einnig vinnur sviðið að því að auka þekkingu og skilning á þáttum sem teljast vera búsetuaðlaðandi á landsbyggðinni. Þar má telja umhverfismál, samgöngur og menntun, verslun, þjónustu, menningarmál o.fl. Sviðið hefur náð víðtækri samvinnu við háskóla og rannsóknastofnanir, atvinnuþróunarfélög, menningarstofnanir og ferðamálaráðgjafa og er ráðgert að treysta þetta samstarf enn frekar. Byggðastofnun tekur eftir atvikum þátt í erlendum samstarfsverkefnum á sviði byggða- og atvinnuþróunar, m.a. innan ramma Evrópusambandsins og Norðurlandaráðs. Stofnunin starfar m.a. með Norrænu Atlantshafsnefndinni, NORA, við úthlutun styrkumsókna og eftirfylgni verkefna sem hljóta styrki. Þá hefur stofnunin faglegt samstarf við ýmsa erlenda háskóla og rannsóknastofnanir.

Byggðastofnun stóð fyrir gerð nokkurra skýrslna á árinu sem ýmist voru unnar af þróunarsviði stofnunarinnar eða aðkeypt þjónusta var fengin til. Byggðastofnun fylgist með framkvæmd byggðaáætlunar þar sem lýst er markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum, áætlunum um aðgerðir og tengslum byggðastefnu við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu í landinu. Framkvæmd byggðaáætlunar er á höndum margra aðila, en Byggðastofnun fylgist með framkvæmd hennar og hefur samband við aðila eftir því sem þörf krefur. Þróunarsvið gerði úttekt á framkvæmd þingsályktunar í byggðamálum 1999--2001. Vinna við úttektina hófst á haustmánuðum 2000 en henni lauk snemma árs 2001. Var skýrslan um framkvæmd gildandi byggðaáætlunar lögð fram á Alþingi sl. vor.

[16:15]

Eins og fram kemur í skýrslunni hefur framkvæmd gildandi byggðaáætlunar að mörgu leyti tekist vel. Verulega auknu fjármagni hefur verið varið til lækkunar húshitunarkostnaðar og námskostnaðar og einnig hafa fasteignaskattar verið lækkaðir á landsbyggðinni. Þá hefur vel tekist til varðandi uppbyggingu fjarkennslu og símenntunarmiðstöðva. Vel hefur tekist til með frekari uppbyggingu þróunarfélaga víða og gegna þau síauknu hlutverki heima í héraði.

Auk starfa að atvinnuþróunarmálum vinna félögin að fjölþættum verkefnum, t.d. á sviði menningar- og menntamála. Framlög til starfsemi atvinnuþróunarfélaga hafa verið aukin úr 65 millj. kr. í um 100 millj. kr. á gildistíma núverandi byggðaáætlunar.

Um þessar mundir er Byggðastofnun að vinna að gerð nýrra samninga við atvinnuþróunarfélögin. Það er skoðun mín að við þurfum að efla starfsemi atvinnuþróunarfélaganna enn frekar og vænti ég þess að tillögur komi fram í þeim efnum í nýrri byggðaáætlun.

Á gildistíma byggðaáætlunarinnar hefur Byggðastofnun fengið um 900 millj. kr. til stofnunar eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni. Hlutur Byggðastofnunar getur numið allt að 40% í hverju félagi fyrir sig gegn 60% hlut heimaaðila. Eins og áður segir hefur ekki enn tekist að ráðstafa öllu framlaginu til stofnunar eignarhaldsfélaga þar sem skort hefur mótframlög heimaaðila.

Ýmsir hafa lýst yfir vonbrigðum með þann þátt byggðaáætlunarinnar sem lýtur að flutningi opinberra starfa og verkefna út á landi. Ég get að mörgu leyti verið sammála þeim sem hefðu kosið meiri árangur á þessu sviði.

Ýmislegt jákvætt hefur þó gerst á síðustu árum. Félmrn. og samgrn. hafa t.d. staðið sig vel varðandi flutning opinberra starfa út á land og flest ráðuneyti hafa athugað möguleika á að flytja starfsemi út á land. Ég get nefnt í því sambandi að iðn.- og viðskrn. hefur látið gera slíka athugun fyrir allar stofnanir sem starfa á verkefnasviði þessara ráðuneyta. Við endurnýjun samninga um árangursstjórnun sem gerðir eru við stofnanir ráðuneytanna verður sett krafa um flutning verkefna út á land.

Hæstv. forseti. Að endingu vil ég geta þess að frá því í vor hefur verið unnið að mótun nýrrar byggðaáætlunar. Undirbúningnum hefur verið hagað með nokkuð nýstárlegum hætti að þessu sinni. Skipuð var sex manna verkefnisstjórn undir forsæti Páls Skúlasonar háskólarektors, auk þriggja starfshópa er unnið hafa að tillögum í tilteknum málaflokkum en það eru alþjóðasamskipti, atvinnumál og fjarskipta- og upplýsingatækni.

Í verkefnisstjórn og starfshópunum situr breiður hópur fólks með fjölbreytilega menntun og starfsreynslu og er það fólk víðs vegar að af landinu. Með þessari tilhögun vilja stjórnvöld leggja áherslu á að byggðaþróun og byggðastefna er mál þjóðarinnar allrar. Orsakir þeirra breytinga sem orðið hafa í byggðum landsins á undanförnum árum og áratugum eru margþættar og varða nær alla þætti samfélags okkar. Sömuleiðis hafa þessar breytingar víðtækar afleiðingar, ekki aðeins fyrir íbúa landsbyggðarinnar eða einstakra byggðarlaga heldur fyrir menningu og efnahag þjóðarinnar í heild.

Byggðastefna er, ef svo má að orði komast, stærsta skipulagsmál íslensku þjóðarinnar og það er því brýnt að að mótun hennar komi breiður hópur fólks og um hana náist sem mest samstaða í þjóðfélaginu. Vinnu verkefnisstjórnarinnar er að ljúka. Ég vænti þess að geta lagt tillögur að nýrri byggðaáætlun fyrir Alþingi á allra næstu vikum.