2001-12-11 16:21:40# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[16:21]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að þetta sé mjög eðlileg athugasemd hjá hv. þm. og þakka fyrir að fá tækifæri til að koma inn á þetta atriði strax í upphafi umræðunnar. Það er allt rétt sem hann las upp úr fjárlögum. Textinn um að reiknað sé með að ráðherra leggi fram nýja byggðaáætlun á haustþingi var saminn fyrir allmörgum mánuðum. Þá leit það reyndar þannig út að við töldum í ráðuneytinu að það tækist en sannleikurinn er sá að þetta starf hefur verið umfangsmeira en við gerðum okkur grein fyrir. Ég held að aðalatriðið hljóti að vera að við fáum út úr þessu góða byggðaáætlun, raunhæfa og árangursríka. Það er allt í lagi að geta þess að sú byggðaáætlun sem við vinnum nú eftir var reyndar ekki samþykkt fyrr en í mars fyrsta árið sem hún átti að gilda þannig að þetta er ekki í fyrsta skipti sem okkur hefur ekki tekist að standa nægilega vel að málum hvað þetta varðar.

Ég vil líka segja að þó að upphæðir sem varða þessa nýju byggðaáætlun séu eðli málsins samkvæmt ekki á nýsamþykktum fjárlögum vona ég samt að takast muni að fjármagna hana og vitna þá til þess texta sem hv. þm. las upp sem er dálítið ívilandi í þeim efnum að við munum að sjálfsögðu veita fjármagn í sambandi við nýja byggðaáætlun. En vegna þess að hún var ekki tilbúin var ekki hægt að setja nákvæmar upphæðir inn í fjárlög næsta árs.