2001-12-11 16:36:06# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), KLM
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[16:36]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Í umræðu um byggðamál og þá skýrslu sem hæstv. byggðamálaráðherra lagði fram í vor rétt áður en þingi lauk --- ég ætla svo sem ekkert mikið að fara í gegnum þá skýrslu nema að mér finnst margt mjög athyglisvert sem kemur þar fram í formála stjórnar þeirrar stofnunar. Það er kannski það sem ég mun fjalla svolítið um á eftir.

Það er ekki seinna vænna að ræða um byggðamál undir þessum lið og um framkvæmd byggðaáætlunar frá 1999--2001 rétt áður en þessu þingi lýkur og við förum heim í jólafrí, og nýtt ár tekur við þar sem ný byggðaáætlun á að taka gildi. Henni gæti þó seinkað eitthvað fram á vorið en það er þá svo sem í takt við ýmislegt annað, að nokkrir mánuðir úr byggðaáætlun detti úr. Hæstv. byggðamálaráðherra sagði áðan að það hefði gerst síðast líka og helst á henni að skilja að það eigi þá bara að vera til eftirbreytni. Mér finnst það vera skýrt dæmi um landsbyggðarvandamál í víðasta skilningi, og í þeim miklu erfiðleikum sem við Íslendingar eigum við að etja í þessu máli --- flutningi fólks frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðis --- sýnir mér í hnotskurn að þessi málaflokkur er olnbogabarn bæði hv. Alþingis og núverandi hæstv. ríkisstjórnar.

Atvinnumálin eru auðvitað þýðingarmesti þátturinn í þessu öllu saman. Það er atvinnuöryggið sem fólk á landsbyggðinni býr ekki við. Þetta er spurning um tekjur af starfsemi manns. Tekjuskiptingin er töluvert öðruvísi á höfuðborgarsvæðinu en úti á landsbyggðinni, jafnvel innan sama geira. Þetta er spurning um fjölbreytni starfa. Þau eru ekki mörg úti á landi, því miður. Þeim er að fjölga hér. Og þetta er spurning um öryggi atvinnu. Öryggi atvinnu hjá landsbyggðafólki er ekki fyrir að fara, því miður.

Í þessari skýrslu hæstv. ráðherra kom fram að fjármagn til atvinnuuppbyggingar hefur aukist til ýmissa þátta en þó ekki nóg. Erlendis er mikið fjármagn veitt til þessa málaflokks og það er það afl sem þarf til að ná árangri. Erlendis er það vel þekkt að nota stofnstyrki til að koma á atvinnustarfsemi og skjóta rótum undir ný fyrirtæki á landsbyggð. Það er ekki gert hér. Hér er e.t.v. um lán að ræða og tekur langan tíma að ná þeim. Ríkisbankar og aðrir lána helst ekki til atvinnustarfsemi á landsbyggðinni, það gerir Byggðastofnun hins vegar og því ber að fagna að Byggðastofnun hefur fengið meira úr að spila. Lánin eru dýr, loksins þegar þau koma. Þetta eru okurvaxtalán, svo notuð séu bara orð hæstv. utanrrh. og formanns Framsfl. um það vaxtastig sem er í landinu í dag og það vaxtastig sem atvinnurekstur á Íslandi hefur búið við undanfarin ár. Okurvextir.

Herra forseti. Á þeim stutta tíma sem við fáum til að ræða byggðamál hér er auðvitað aðalatriðið að viðurkenna vandann á Íslandi. Það þarf að skapa um það þverpólitíska sátt. Það þarf með öðrum orðum að taka upp svæðisbundna byggðastefnu. Og þegar ég segi ,,svæðisbundin byggðastefna`` get ég tekið sem dæmi að ef Alþingi og stjórnmálaflokkar sem þar eiga fulltrúa komast að þeirri niðurstöðu að málefnum Vestfjarða verði best borgið með því að efla þar útgerð, smábátaútgerð, og það mætti segja um fleiri staði á landinu eins og t.d. norðausturhornið, sé það alveg þess virði að gera það og réttlætanlegt að fara í þá svæðisbundnu byggðastefnu. Þá er að mínu mati jafnframt sagt í leiðinni: Það eru aðgerðir sem verða ekki að ganga yfir allt Ísland. Með öðrum orðum: Við getum séð svæðisbundna byggðastefnu, t.d. á Akureyri sem er miðstöð menntunar á landsbyggðinni. Þar er háskóli, menntaskóli, verkmenntaskóli, mikið og stórt fjórðungssjúkrahús. Þetta er höfuðborg landsbyggðarinnar ef þannig má að orði komast.

Ef Alþingi kemst að þeirri niðurstöðu að á Miðausturlandi skuli byggja álver, í Reyðarfirði, með virkjun sem þar þarf er það hið besta mál að mínu mati en líka svæðisbundin byggðaaðgerð. Og þá segi ég alveg hiklaust að um leið og menn taka þá ákvörðun að byggja álver á Miðausturlandi er ekki þar með sagt að við ætlum endilega að láta það ganga yfir Austfirði líka. Ef við komumst að þeirri niðurstöðu að okkur beri að efla smábátaútgerð og taka e.t.v. eitthvað örlítið frá af kvótanum fyrir Vestfirðinga eða önnur smásvæði á landsbyggðinni er ekki þar með sagt að aðrir þurfi að njóta þess.

Það má sannarlega líka segja um Reykjavík að þar sé svæðisbundin byggðastefna. Hér er miðstöð menningar og lista. Hér hefur Íslensk erfðagreining skotið rótum sem betur fer, það glæsilega fyrirtæki. Hér er uppskipunarhöfn nánast fyrir allan innflutning og svo má lengi telja. Og það er ansi athyglisvert sem stendur í formála stjórnar Byggðastofnunar sem ég ætla að lesa aðeins upp, með leyfi forseta:

,,Telja verður að árangur í byggðamálum ráðist af því hversu vel skilgreindar aðgerðir eru og þeim fjárhæðum sem til þeirra er varið. Benda má á að verulegu fjármagni er varið árlega til atvinnuuppbyggingar á höfuðborgarsvæðinu, m.a. af opinberum aðilum. Svo dæmi séu nefnd um fjárfestingu í nýrri atvinnuuppbyggingu sem verulega hefur styrkt höfuðborgarsvæðið lögðu ríkisbankarnir 6 milljarða króna í hlutafjárkaup í deCODE, Íslenskri erfðagreiningu, og keyptu hlut í Íslandssíma fyrir 1 milljarð króna.``

Herra forseti. Ég hef ekkert á móti uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu, síður en svo, við þurfum sterka og öfluga höfuðborg alveg eins og höfuðborgin, og allt Ísland, þarf sterka og góða landsbyggð. En hér er dæmi um svæðisbundna byggðaaðgerð. Og ég vek athygli á því að Landsbanki Íslands sem hér er vitnað til, sem kaupir í þessum tveimur fyrirtækjum, er sama stofnunin og er núna að fara um landsbyggðina og loka útibúum sínum á Kópaskeri, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafirði, Stokkseyri, Eyrarbakka o.s.frv. (Gripið fram í: En þeir hafa þó styrkt Íslensku óperuna.) Ja, það getur vel verið að þeir ætli að styrkja Íslensku óperuna, það er þá gott mál. En ég verð bara að segja alveg eins og er, (Gripið fram í: ...færa til fjármagn.) herra forseti, þetta er alveg með ólíkindum og þessi svæðisbundna byggðastefna virkar ekki nema að hluta til. Hún virkar ekki gagnvart landsbyggðinni. Og það er þessi sami banki, svo ég haldi mig við Landsbanka, eða ríkisbankar eins og hér er sagt --- ég held að það hafi reyndar verið bara Landsbankinn sem keypti í Íslandssíma, hefur þá væntanlega keypt á útboðsgenginu. Nú veit ég ekki almennilega hvert gengið er í dag en ég held að gengi Íslandssíma sé ekki nema 1,30 þannig að það hefur kannski ekki verið mikill arður af þeirri fjárfestingu. Það getur vel verið að Landsbankinn geti sagt okkur að það sé ekki arður af þeirri fjárfestingu að reka útibú á Kópaskeri eða Þórshöfn eða Vopnafirði eða hvar það er en þetta er kannski talandi dæmi um þetta allt saman. Byggðastefna snýst nefnilega um, herra forseti, samkeppnishæfni svæða eða landshluta, það er það sem skiptir höfuðmáli. Það er styrkur og veikleiki byggðanna. Og það er ekki styrkur og það er ekki styrkjandi fyrir byggðarlög þegar verið er að loka bankastofnunum. Það veikir þessi byggðarlög.

Þannig verðum við að nýta það sem hægt er og styrkleiki hvers svæðis verður að fá að njóta sín. Rekstrarskilyrði fyrirtækja, svo ég komi aðeins að því, milli höfuðborgar og landsbyggðar hafa verið að versna undanfarin ár. Og nýjasta dæmið sem við höfum farið í gegnum var breytingin á tryggingagjaldinu. Það skekkir samkeppnishæfni fyrirtækja á landsbyggð og höfuðborgarsvæðinu. Ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að fara í það en vísa til þess sem ég sagði hér um skattalagabreytingarnar.

[16:45]

Það eru staðreyndir og um það eru opinberar tölur að þungaskattur hefur hækkað um 45% frá 1998. Hann hefur hækkað um 45% á lengstu flutningaleiðum eins og vestur á firði og austur á land. Hvers vegna skyldum við ekki geta notað aðferðir sem við notum til að greiða niður strætisvagnarekstur? Strætisvagnarekstur fær afslátt af þungaskatti. En vöruflutningar út á land --- nei, þeir fá ekki afslátt. Hér má vitna í alls konar flutningskostnaðarjöfnun, sama hvort það er olíuflutningasjóður eða sementsflutningasjóður. Þetta er til.

Herra forseti. Nýlega hafa atvinnufyrirtæki á Norðurlandi séð sig knúin til að stofna hagsmunasamtök til að berjast gegn þessari óréttlátu skattheimtu og mismun milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Þetta hefði ég miklu frekar viljað heyra hæstv. byggðamálaráðherra reifa í tali sínu um framkvæmd byggðastefnu nú heldur en það sem kom fram í ræðu hennar hér áðan enda má lesa það allt út úr skýrslunni.

Herra forseti. Hér erum við ekki enn þá farin í gang með þá leið sem Norðmenn fóru þegar þeir felldu aðild að Evrópusambandinu, þegar þeir tóku upp sína eigin byggðastefnu, að nota skattkerfið og ýmsar ívilnanir í gegnum það til að rétta hlut landsbyggðar. Það er auðvitað það sem þarf.

Hvers vegna skyldu t.d. Norðmenn hafa skattamun í Finnmörku og Norður-Troms? Skattprósentan er lægri. Hátekjuskatturinn er lægri. Persónuafslátturinn er hærri. Þungaskattur í Noregi er misjafn eftir svæðum. Samkeppnisstofnun bannar þetta hér vegna þess að það skekkir samkeppnishæfni svæða, eins og sagt var, með afslætti af þungaskatti. Má ekki snúa þessu við og spyrja hvort það hafi ekki ruglað samkeppnishæfni þegar afslátturinn var tekinn af? Ég er ansi hræddur um það. Tryggingagjaldið er meira að segja líka notað í þessu efni.

Herra forseti. Ég ætla hér aðeins í lokin að ræða um fjarvinnsluverkefnin sem voru kynnt einu sinni með nánast flugeldasýningu. Þau áttu öllu að bjarga. Hæstv. forsrh. tilkynnti um skýrslu frá Iðntæknistofnun um fjarvinnsluverkefni til landsbyggðar. Ég hef dundað mér við það að leggja fram fyrirspurnir til hæstv. byggðamálaráðherra um hvernig þetta hafi gengið undanfarin ár. Það er skemmst frá því að segja að í svari hæstv. ráðherra kemur það fram að nánast ekkert hafi verið flutt. Orð eins og ,,engin verkefni``, ,,engin fjarvinnsluverkefni``, ,,engin fjarvinnsluverkefni flutt`` má lesa úr svörum hæstv. ráðherra nánast fyrir öll ráðuneyti hér á Íslandi.

Þess eru hins vegar dæmi að fjarvinnsluverkefni hafa gengið vel en það er fyrirtæki úti í bæ, ekki ríkisstofnun, sem stendur að þeim. Þá á ég auðvitað við flutning á fjarvinnsluverkefnum á vegum Kaupþings til Siglufjarðar þar sem er sennilega orðinn 15 manna vinnustaður og gengur mjög vel. Það þarf enginn að segja að þetta geti ekki gengið vel. Það er vilji sem þarf. Vilji fyrir því er ekki hjá núverandi hæstv. ríkisstjórn.

Og má ég aðeins rétt í lokin, herra forseti, minna á það sem sagt var þegar menn voru að tala um að reyna að flytja fjarvinnsluverkefni til Ólafsfjarðar? Þá sögðu ráðherrar og hæstv. forseti þingsins --- þá höfðu menn mörg orð um að það mundi gerast á næstu dögum --- að menn mundu flytja tiltekin verkefni til Ólafsfjarðar. Úr því hefur ekkert orðið, herra forseti. Og ég held að það sem þar var sagt og það sem hefur verið gert, eða öllu heldur ekki gert, sé talandi dæmi um þessi mál.

Herra forseti. Vegna þess að ég hef oft heyrt hæstv. byggðamálaráðherra kveinka sér undan því að ég sé með sífellda gagnrýni á það sem hér hefur komið fram vil ég segja að ég vek bara athygli á þeim atriðum sem betur mættu fara. Ég bendi á þau atriði sem ekkert hefur verið gert í. Og vegna þess að hæstv. ráðherra var áðan að hæla sér af lækkun húshitunarkostnaðar --- ég hef áður vitnað í hina merku nefnd, svokölluðu byggðanefnd forsrh., sem skipuð var í aðdraganda að kjördæmabreytingunni sem gulrót fyrir stjórnarþingmenn til að troða í gegn kjördæmabreytingunni --- bendi ég á að ekki hefur verið staðið við þau loforð sem hæstv. forsrh. gaf þá um lækkun húshitunarkostnaðar á landinu, engan veginn.

Varðandi jöfnun námskostnaðar hefur betur verið staðið að verki. Ég hef sagt það áður og skal segja það einu sinni enn að hæstv. menntmrh. hefur staðið sig býsna vel í því þó að töluvert mikið vanti á. Að vísu hafa reglur aðeins breyst. Loforð um húshitun hefur hins vegar ekki verið staðið við. Og mörg önnur loforð frá þeirri þverpólitísku nefnd hefur ekki verið staðið við.

Herra forseti. Rétt í lokin, vegna þess að tími minn er á þrotum í þessari umræðu, vil ég endilega gleðja hæstv. ráðherra og segja: Ríkisstjórnin hefur staðið sig ágætlega við undirbúning stóriðjuframkvæmda á Austurlandi. Ég hika ekki við að halda því fram. Og það verkefni sem þar er í gangi er að mínu viti í góðum gír ef svo má að orði komast. Jafnframt fannst mér í byrjun að vinna við nýja byggðaáætlun væri nokkuð góð, og held að staðið sé nokkuð faglega að henni, en verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að mér fannst að fulltrúar frá stjórnarandstöðuþingflokkunum hefðu átt að fá sæti í þeirri nefnd til að freista þess að mynda þverpólitíska samstöðu um næstu byggðaáætlun. Ég óttast að sú samstaða náist ekki en ég held og vona að faglega sé að verki staðið.