2001-12-11 17:45:36# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[17:45]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Mig langar bara að leiðrétta lokaatriðið í ræðu hv. þm. Búnaðarbankinn starfar samkvæmt lögum og það er minnsta mál að breyta lögum og koma þeim aftur í eðlilegri og réttlátari farveg. Alþingi getur hæglega rétt kúrsinn.

Að öðru leyti tek ég undir með hv. þm. um mikilvægi menntunar og skólagöngu. Ég held að eitt mesta átaksmálið í byggðamálum á Íslandi sé að efla og styrkja menntun á landsbyggðinni. Það ber að gera stórátak í því og þingflokkur Vinstri hreyfingar -- græns framboðs hefur bent á að það sé eitt af stærstu byggðamálunum, þ.e. að byggja upp framhaldsmenntun sem allra víðast í landinu sem fólk geti sótt heiman að frá sér daglega. Það mundi jafnframt styrkja aðra menntun, endurmenntun, símenntun og gefa möguleika á háskólanámi og tækninámi í fjarnámi. Grundvöllur þess að styrkja byggð er fólginn í að styrkja menntun. Þar má gera miklu betur heldur en hingað til hefur verið gert úti á landi í staðinn fyrir þessa miðstýrðu stefnu sem við nú höfum í menntamálum, að safna öllum skólum hingað á höfuðborgarsvæðið og að hingað eigi nemendur að sækja námið.

Það er virðingarvert að dreifbýlisstyrkir skuli vera hækkaðir, þ.e. styrkir til að sækja nám fjarri heimili sínu. En hækkanirnar sem þetta unga fólk sem kemur hingað á Reykjavíkursvæðið verður að taka á sig, hækkun á húsaleigu og öllum dvalarkostnaði, er miklu meiri en sú hækkun sem orðið hefur á dvalarstyrkjum sem þessir nemendur hafa átt aðgang að, auk þess sem slík skerðing á fjölskyldulífi er náttúrlega líka stórmál.