2001-12-11 17:47:48# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[17:47]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði er einmitt lóðið. Það sem mestu máli skiptir er stefna ríkisstjórnarinnar og stefna Alþingis. Stefna okkar er mjög skýr. Afar mikið hefur verið gert, unnið er að lækkun skatta á fyrirtæki sem hlýtur að koma öllum vel. Ég trúi heldur ekki öðru en að hv. þm. deili með mér að stefna okkar í stóriðjumálum sé eitt allra mesta byggðamál sem við getum farið í.

Í samgöngum hefur verið gert stórátak á síðustu árum. Unnið hefur verið að jöfnun námskostnaðar og fjarkennsla hefur verið efld verulega. Núna eru æðimargir í fjarnámi. Samkvæmt svari hæstv. menntmrh. við fyrirspurn hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar eru skráðir nemendur til náms með fjarkennslusniði í framhaldsskólum 1.051 og 1.101 í háskólann á haustönn 2001. Ég hygg að flestir þeir sem slíkt nám stunda séu utan af landi. Nemendum í fjarnámi hefur fjölgað um 694 á milli áranna eða um rúmlega 47%.

Eitt af því sem hv. þm. nefndi var að það ættu ekki að vera neinar sértækar aðgerðir í byggðamálum. Er hann þá á móti því að fé sé lagt í atvinnufyrirtæki á landsbyggðinni í gegnum atvinnuþróunarfélögin og eignarhaldsfélögin?

Varðandi það að gera Búnaðarbankann að einum ríkisbanka. Hvað ætlar hv. þm. að gera við hluthafana sem eiga í bönkunum? Ætlar hann að taka yfir eignir þeirra?