2001-12-11 17:51:40# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[17:51]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. svaraði ekki spurningum mínum. Hann svaraði ekki spurningum mínum um stóriðjumálin, hann svaraði ekki spurningum mínum um sértækar aðgerðir á landsbyggðinni varðandi eignarhaldsfélögin. Hann svaraði mér ekki um hvað hann ætlaði að gera við þá hluthafa sem eiga í Búnaðarbankanum. Ætlar hann að fara þar í eignaupptöku? Það væri alveg eftir þessum ríkishugsunarmanni, hv. þm. Jóni Bjarnasyni, sem vill hafa ríkiseinokun á öllum sköpuðum hlutum.

Hann ræddi líka áðan um hækkun á húsaleigu. Fólk hefur rétt á húsaleigubótum. Þær eru núna skattlausar þannig að ýmislegt hefur verið gert til að létta fólkið lífið. Ég vara hv. þm. Jón Bjarnason við því að tala svo neikvætt um landsbyggðina. Landsbyggðin þarf síst á því að halda. Við þurfum að fjalla um þau málefni af jákvæðni og vera upplitsdjörf til þess að okkur gangi vel. Okkur mundi ekki ganga vel ef hv. þm. Jón Bjarnason væri í ríkisstjórn Íslands.