2001-12-11 18:10:52# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[18:10]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. ræddi mjög um sjávarútvegsmál og fiskveiðistjórnun eins og oft áður (GAK: Það er mitt áhugamál.) og ekkert nema gott um það að segja. En ég held að hv. þm. verði að taka það með í reikninginn að ástæður þess að farið er út í breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu núna eru þær að við fengum á okkur dóm sem við getum ekki horft fram hjá og hv. þm. hlýtur að viðurkenna og taka það með í reikninginn þegar hann hefur yfir stór orð um þær breytingar sem nú er verið að gera á stjórn fiskveiða.

Þegar hv. þm. talar á þann hátt að stjórnvöld standi fyrir aðgerðum sem veiki byggðirnar með annarri hendinni og með hinni séu stjórnvöld að reyna að flytja störf út á land, þá held ég að hv. þm. verði að taka það með í reikninginn að þessi störf eru ekki að færast af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins í sambandi við fiskveiðar. Hann taldi upp margar greinar þar sem fjölgun á sér stað í störfum á höfuðborgarsvæðinu og það er sjálfsagt allt saman rétt en þetta held ég að hv. þm. hljóti að viðurkenna og taka með í reikninginn þegar hann hefur hér stór orð.

Það er þannig með byggðamálin að í rauninni þurfum við að líta á þau tvíþætt. Við þurfum að huga að því að gera Ísland byggilegt og við þurfum líka að huga að því að gera landið allt byggilegt. Við getum ekki horft fram hjá því að það sem ég nefndi fyrr skiptir líka máli. Þetta hljóta öll ábyrg stjórnvöld að hafa í huga og reyna að hafa víðsýni til þess að huga að hvoru tveggja vegna þess að við vorum farin að missa fólk úr landi áður en þessi ríkisstjórn virkilega tók á málum.