2001-12-11 18:13:14# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[18:13]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra vitnaði óbeinum orðum að ég hygg til svokallaðs Valdimarsdóms um að það bæri að stýra fiskveiðum með kvótakerfi. Ég er algerlega ósammála ráðherranum um að Valdimarsdómurinn hafi skikkað það að stýra bæri fiskveiðum með kvótakerfi. Hann eingöngu sagði að það bæri ekki nauðsyn til þess úr því að menn væru með skömmtunarkerfi á hinum stærri skipum í gegnum kvótakerfi að meina mönnum aðgang að veiðileyfi. Þeir gætu sem sagt keypt skip en yrðu síðan að nálgast aflaheimildirnar eftir öðrum aðferðum.

Um þetta liggja einnig fyrir samantektir af löglærðum mönnum, sennilega þeim sem stjórnvöld hafa oftast leitað til um ýmsa úrskurði eða skýrslur um hvernig eigi að skilja lög hér á landi, sem var unnið fyrir Landssamband smábátaeigenda, þar sem menn komust að allt annarri niðurstöðu en hæstv. ráðherra var að tjá hér. Þar segir skýrt að það sé ekkert sem meini mönnum að stýra fiskveiðum smábátaflotans með sóknarstýrðu kerfi. Enda gátu menn hæglega fært inn í sóknarstýrt kerfi smábátanna stýringar sem hefðu orðið til þess að draga úr afla á ákveðnum fisktegundum ef það var eini tilgangurinn.

Um að störf færist ekki af landsbyggðinni til Reykjavíkur --- ég fæ ekki alveg skilið þau rök ráðherrans. Ég veit ekki annað en að sífellt sé verið að loka m.a. þjónustustofnunum úti á landi vegna þess að fækkað hefur þar og minni umsetning er. Það er verið að færa störf inn á Reykjavíkursvæðið. Ég veit ekki annað en öll störf í byggingariðnað hafi orðið til á Reykjavíkursvæðinu og lánveitingar til þess. Hvaða fyrirgreiðsla er það?