2001-12-11 18:23:52# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[18:23]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum verið alveg hjartanlega sammála um að hvert eitt starf skiptir gífurlega miklu máli. Það er ekki þannig að einungis eitt og eitt starf hafi verið reytt til í landinu. Það er verið að vinna að öflugu þróunarstarfi.

Varðandi breytingarnar í sjávarútvegi að undanförnu hefur fækkað í atvinnugreininni í heild og auðvitað kemur það niður bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum og hvar sem er á landinu. Það hafa orðið gífurlega miklar tæknibreytingar í sjávarútveginum og miklar hagræðingar. Það leitar allt hagræðis í þessari grein eins og öðrum. Að sjálfsögðu fylgir með að um leið og tækniframfarir verða í sjávarútvegi fækkar þar störfum. Það kallar aftur á móti á að uppbygging verður að verða á öðrum sviðum og að því hefur verið unnið. Mér finnst skipta miklu máli að hér komi fram að vinnan er í gangi og ég dró sérstaklega fram hlut atvinnuþróunarfélaganna. Ég tel skipta gífurlega miklu máli að áfram verði haldið að vinna að því þróunarstarfi sem hefur verið unnið heima í héraði af því fólki sem þekkir til, af sérfræðingum sem eru vel menntaðir og hafa byggt upp mikinn þekkingarbrunn til þess að starfa að atvinnuþróunarmálum.

Það er það sem skiptir máli og hefur margoft komið fram í allri þeirri skýrslugerð sem við höfum unnið að í þessum málaflokki að það er fjölbreytnin í atvinnulífinu sem skiptir máli.