2001-12-11 18:45:51# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[18:45]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um altækar, sértækar og almennar aðgerðir. Í Bretlandi væri t.d. almenn aðgerð að segja að fyrirtæki ætti rétt á styrk að uppfylltum einhverjum tilteknum skilyrðum. Sértækt væri það ef skilyrði fyrir því að fá styrkinn væru nákvæmari eins og á hvaða stað fyrirtækið væri eða í hvað atvinnugrein o.s.frv. Bretarnir ráku sig á það að þessi almennu skilyrði gerðu það að verkum að fyrirtækin sóttu sér styrki en án þess að hugmyndirnar skiluðu sér beinlínis í þeirri atvinnuuppbyggingu sem átti að leiða af styrkveitingunni. Því var gripið til sértækra skilmála í þessum efnum. Það er til ágætur litteratúr um þetta sem Stefán Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands hefur tekið saman og ég get útvegað þingmanninum við tækifæri ef hann óskar eftir.

Varðandi spurningu þingmannsins um bankana --- ég er ekki mjög fylgjandi því að Byggðastofnun fari yfir í almenn viðskiptalán. Ég tel að aðstæður ættu almennt að vera þannig að þeirra væri ekki þörf. Byggðastofnun þarf að hafa afl til að geta beitt sér á því sviði þegar þörf krefur og þær aðstæður geta komið upp af og til. Ég held hins vegar að stofnunin eigi að vera mjög öflug, bæði á útlánasviði og hlutafjárkaupasviði og á sérfræðingasviði. Ég er mjög skotinn í þeim hugmyndum að sameina Byggðastofnun og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Ég teldi að út úr þeirri sameiningu fengist mjög sterk stofnun sem hefði mikla útlánagetu, gæti beitt sér í stofnlánsfjárveitingum og hefði möguleika bæði á lánasviði og í því að kaupa hlutafé, gæti látið það spila saman og haft yfir að ráða starfsliði sem væri mjög hæft á þessu sviði.