2001-12-11 18:48:04# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[18:48]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það að Byggðastofnun og Nýsköpunarsjóður gengju í eina sæng --- hv. þm. rakti það í ræðu sinni hvernig Nýsköpunarsjóður nær ekki að virka vegna þess að hann gerir svo háa arðsemiskröfu að hann situr nánast uppi með fjármagnið. (KHG: Nei, það var eignarsjóður.) Já, bæði eignarsjóðir og líka Nýsköpunarsjóður sem gerir ekki síður háa arðsemiskröfu. Ég vara við því.

En það sem mig langar til að spyrja hv. þm. --- ég er sammála honum um að sértækar aðgerðir geta verið nauðsynlegar en þær eiga ekki að vera meginpólitíkin í byggðamálum. Það er af og frá. Hvað finnst hv. þm. um þá aðferð eins og hér er í uppsiglingu að við hækkum innritunargjöld, við hækkum skólagjöld sem bitna, eins og ég hef áður bent á, langharðast á nemendum utan af landi sem eru að sækja iðnnám og starfsnám en síðan er gripið til einhverra sértækra aðgerða með því að hækka dreifbýlisstyrk eða eitthvað slíkt? Finnst honum þetta vera rétt pólitík? Væri ekki miklu nær að ríkið ábyrgðist þetta nám með fullri reisn, bæði fyrir fólk sem býr úti á landi og hér, til að sækja það í staðinn fyrir að leggja fyrst á skattana og gjöldin og reyna síðan að klóra í bakkann fyrir einhverja með sértækum aðgerðum. Mér finnst þetta einmitt vera sláandi fyrir það hvernig byggðastefna og byggðasjónarmið togast á og standa frammi fyrir beinum stjórnvaldsaðgerðum og beinni pólitík sem er ósamræmanlegt hvað þetta varðar. Ég tel einmitt að skattarnir núna á námsmenn sem leggjast harðast á dreifbýlisnemendur séu eins konar dæmi um það hvernig ekki eigi að reka byggðapólitík.