Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 19:05:59 (2979)

2001-12-11 19:05:59# 127. lþ. 49.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[19:05]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. staðhæfði í þeim hluta ræðu hans sem fluttur var fyrir hlé að skattalækkanir á síðasta áratug hefðu leitt til hins mikla bata í efnahagslífinu og þess góðæris sem við höfum notið. Ég ætla ekki að rífast við hv. þm. um það. Ég ætla bara að benda honum á að samkvæmt þeim gögnum sem fram komu við rannsókn málsins í nefndinni frá opinberum stofnunum þá er niðurstaðan allt önnur. Það er ekkert sem bendir til að þetta hafi beinlínis átt svo stóran þátt í góðærinu sem hv. þm. talaði um.

Hv. þm. sagði líka að það væri allt í lagi að hækka tryggingagjald því það væri ákaflega lágt hér miðað við önnur lönd í Evrópu. Ég bendi hv. þm. á að skattar á hagnað fyrirtækja eru líka með því allra lægsta sem hér gerist. Eigum við þá ekki að hækka þá samkvæmt sömu röksemdafærslu? Hv. þm. verður að gæta þess að það sem hann segir reki sig ekki hvað á annars horn.