Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 19:10:56 (2984)

2001-12-11 19:10:56# 127. lþ. 49.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[19:10]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði með athygli á hv. þm. Gunnar Birgisson ræða um skattamál. Ég minnist þess ekki að ég hafi átt möguleika á því að ræða við hann áður um þetta mál.

Nú er hv. þm. er jafnframt formaður bæjarráðs Kópavogs, einn af fáum sveitarstjórnarmönnum sem situr hér á hinu háa Alþingi. Það hefur líka komið fram að tryggingagjaldið, hækkun á tryggingagjaldi sem á að verða 1. jan. 2003, muni íþynjga mjög sveitarfélögunum. Þess vegna vil ég spyrja hv. þm., formann bæjarráðs Kópavogs, hvort hann sé ánægður með þá auknu skatta sem lagðir eru á íbúa Kópavogs í þessu frv. Það kemur fram að íbúar Kópavogs muni þurfa að greiða um 17 millj. kr. meira í tryggingajald eftir þessa breytingu en nú er, sveitarfélög í Reykjanesi tæpar 73 millj. kr. og höfuðborgin alls 180 millj. kr.

Er hv. þm. Gunnar Birgisson, formaður bæjarráðs Kópavogs, ánægður með þessa skattahækkun á íbúa Kópavogs?