Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 19:18:08 (2990)

2001-12-11 19:18:08# 127. lþ. 49.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[19:18]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst mjög alvarlegt að hafa stjórnmálaflokk eins og Sjálfstfl. sem hróflar ekki við skattleysismörkunum gagnvart fátækasta fólkinu í landinu en lækkar sérstaklega skattana á hátekjufólki. Mér finnst það mjög alvarlegt. En ég hef verið að reyna að halda umræðunni á efnislegum nótum og án einkunnagjafar í garð annarra. Og ég bað hv. þm. að reyna að fara sæmilega nákvæmlega með ef hann endursegir afstöðu annarra.

Ég sagði aldrei og hef aldrei mælt sérstaklega með því núna að hækka skatta á fyrirtæki. Það er munur á því að halda skattbyrði þeirra u.þ.b. þar sem hún er í dag og hinu að hækka hana eða lækka alveg niður í 18%, að ég tali ekki um 10% eins og landsfundur Sjálfstfl. vildi en virðist nú vera hættur við. Ég held að við eigum bara að ræða þetta á þessum nótum.

Það kann að vera að tekjuskattsprósenta fyrirtækjanna hafi lengst af verið 48% í tíð Sjálfstfl., ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, og þar áður stjórnarinnar undir forustu Steingríms Hermannssonar en það breytir ekki miklu. Við verðum þá að hafa í huga að þar var um að ræða eftirágreiddan tekjuskatt í umtalsverðri verðbólgu og frádráttarmöguleikar fyrirtækjanna aðrir en þeir eru nú því að um leið og prósentan var lækkuð á sínum tíma var frádráttarmöguleikunum fækkað. Ef menn vilja ræða þetta málefnalega og af sanngirni er málið svona vaxið.