Tollalög

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 19:34:13 (2997)

2001-12-11 19:34:13# 127. lþ. 49.6 fundur 319. mál: #A tollalög# (tollkvótar og tollar af tóbaki) frv. 146/2001, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[19:34]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum. Þetta mál snýst um tvo hluti. Annars vegar er lagt til að fjmrh. verði veitt heimild til að úthluta tollfrjálsum kvótum vegna innflutnings á vörum sem falla ekki undir viðauka tollalaga um landbúnaðarvörur og hins vegar að tollar af tóbaki verði felldir niður.

Breytingin vegna tollkvótanna er komin til vegna þess að ráðherra þarf að úthluta til Norðmanna tollfrjálsum kvótum af norskum kartöfluflögum í kjölfar samnings sem gerður var milli Íslands og Noregs, annars vegar um gjaldfrelsi á hestum sem fluttir eru til Noregs og hins vegar um gjaldfrelsi á kartöfluflögum og ostum sem fluttir eru frá Noregi til Íslands.

Varðandi ostana er hefur þegar verið veitt heimild til innflutnings á þeim tollfrjálst. Það er ákvæði sem kom inn í íslenska löggjöf með GATT-samkomulaginu. Hins vegar vantaði heimildir til fjmrh. til þess að úthluta kvótum vegna tollfrjáls innflutnings á kartöfluflögum.

Málið sem slíkt er sjálfsagt. Það er hins vegar umhugsunarefni, í tenglum við þessa breytingu, hvort ekki þurfi að fara yfir tollalögin og e.t.v. fleiri lög sem um þessi mál fjalla. Ástæðan er sú að manni virðist ástæða til að skoða með hvaða hætti vald er framselt og hverjir í stjórnkerfinu taki ákvörðun um hvort yfirleitt eigi að fella niður tolla eða ekki fella niður tolla og hvernig eigi að haga þessum málum.

Í stjórnarskránni stendur að engan skatt megi leggja á né breyta né taka af nema með lögum. En eins og þetta blasti við í efh.- og viðskn., þá virtist sem undirskrift tveggja ágætra manna á erlendri grund dygði til, að þar með væri ákveðið að leggja niður þessa tolla og Alþingi kæmi hvergi nærri þeirri ákvörðun.

Ég tel að það sé ástæða til að fara í gegnum þessi ákvæði og hvet fjmrh. eindregið til að láta fara fram á þessum málum lögfræðilega skoðun innan ráðuneytisins og gera okkur í nefndinni síðan við tækifæri grein fyrir því hver skoðun ráðuneytisins er á því hvernig fjalla eigi almennt um þessi mál.

Nefndin gerir ekki athugasemd við frv. sem slíkt og leggur til að það verði samþykkt óbreytt.