Tollalög

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 19:37:20 (2998)

2001-12-11 19:37:20# 127. lþ. 49.6 fundur 319. mál: #A tollalög# (tollkvótar og tollar af tóbaki) frv. 146/2001, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[19:37]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Vihjálmur Egilsson rakti prýðilega skýrt tildrög þessa máls. Nú er það svo að við þingmenn stjórnarandstöðunnar sem sitjum í efh.- og viðskn. höfum öll þrjú fyrirvara við málið. Ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir erum sammála efnisinnihaldi frv. Við teljum að frv. sé prýðilegt. En aðrir þættir málsins, sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson gerði reyndar að umræðuefni, teljum við tilefni til að staldra við.

Að því er frv. sjálft varðar þá er málið sett í ákveðinn farveg til þess að hægt verði að hrinda í framkvæmd ákveðnum ákvæðum milliríkjasamnings sem við höfum gert við Noreg. Þessir samningar eru jákvæðir, ekki aðeins fyrir Noreg heldur líka fyrir okkur. Þeir stuðla að því sem við höfum lengi haft á stefnuskrá okkar í Samfylkingunni, að auðvelda viðskipti með landbúnaðarvarning milli landa.

Hins vegar er athyglisvert, eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson drap á í máli sínu, að þetta frv. er lagt fram til þess að hrinda í framkvæmd ákveðnum greinum milliríkjasamnings. Þegar við fjölluðum um málið í efh.- og viðskn. þá rak okkur ekki minni til þess að þessi milliríkjasamningur hefði verið lagður fyrir hið háa Alþingi í formi þingsályktunar, líkt og hefur a.m.k. verið hefðin í þinginu. Þá velta menn auðvitað fyrir sér hvort hér sé ekki um að ræða ákveðið framsal af okkar hálfu til framkvæmdarvaldsins, sem við þurfum a.m.k. að skoða.

Ég drap á það í umræðu um mál sem áður voru á dagskrá að þingið þurfi að velta fyrir sér með hvaða hætti það selur stöðugt af höndum sér vald til þeirra sem stýra ráðuneytunum. Í þessu tilviki virðist sem að hefð sé að skapast fyrir því að milliríkjasamningum af þessu tagi sé hrint í framkvæmd án þess að þingið samþykki þá í reynd. Þetta þýðir að ef tilteknar heimildir eru komnar inn í lög, eins og eru þegar í tollalögum, ýmsum viðaukum sem þar er að finna og verða í þessu tilviki með breytingunum sem hér eru gerðar, þá leiðir það til þess að staðfesting utanrrh. á samningum við erlend ríki getur í reynd leitt til þess að tekjur ríkisins, skattar, breytist hér á landi.

Við spurðumst sérstaklega fyrir um þetta í efh.- og viðskn., þ.e. hvað ylli þessum breytingum. Fram á síðustu missiri hafa allir slíkir samningar verið lagðir fyrir þingið. Á því er að vísu undantekning sem var að því er ég tel upphaf þessarar hefðar, þ.e. þegar fríverslunarsamningurinn við Mexíkó var staðfestur. Þá var litið svo á að hægt væri að hrinda honum í framkvæmd án þáltill.

Túlkun utanrrn. er sú að í tollalögunum séu lögbundnar heimildir til hæstv. fjmrh. til að hrinda tilteknum ákvæðum í fríverslunar- og milliríkjasamningum í framkvæmd.

Nú hefur mér ekki gefist tóm til þess að skoða þetta til hlítar né okkur í efh.- og viðskn. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar gerðum í sjálfu sér engar sérstakar athugasemdir sökum þeirrar tímanauðar sem í málinu var við þá málsmeðferð. Mér sýnist við fljóta yfirferð að þessi heimild sé túlkuð þannig að jafnan sé um að ræða breytingar sem eru neytendum til góða, þ.e. það séu ívilnandi breytingar af þessu tagi. Um það er ég þó ekki viss, herra forseti.

En í 147. gr. tollalaga segir, með leyfi forseta:

,,Fjármálaráðherra skal hrinda í framkvæmd ákvæðum í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að, svo og bókunum og viðaukum við slíka samninga sem teljast óaðskiljanlegur hluti þeirra.``

Í tollalögum segir jafnframt í 1. mgr. 6. gr., með leyfi forseta:

,,Tollur skal lækka, falla niður eða endurgreiðast í eftirfarandi tilvikum, að uppfylltum þeim skilyrðum sem tilgreind eru:

1. Í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að, frá þeim tíma er viðkomandi samningur hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar.``

Það vill svo til, herra forseti, að auk hv. þm. Vilhjálms Egilssonar er hér líka staddur hæstv. fjmrh. sem fer með framkvæmd þessara laga. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur þegar lýst sinni skoðun á þessu en mig langar að spyrja hæstv. fjmrh. hvort þessi túlkun á lögunum styðjist við sérstakan úrskurð eða niðurstöðu lagaspekinga sem fengnir hafi verið til þess að skoða þetta mál.

Nú er mér auðvitað mætavel kunnugt um það, herra forseti, að sjaldnast hefur það gerst á þeim 10, 11 árum sem ég hef setið hér, að milliríkjasamningar hafi verið teknir til gagngerrar umræðu hér á hinu háa Alþingi. Þeir hafa hins vegar verið skoðaðir þokkalega vel í utanrmn. og einnig verið skoðaðir af okkur sem sitjum í EES-nefndinni og þar hefur verið farið í gegnum þá. Vitaskuld er það þannig að embættismenn hafa grandskoðað þá með tilliti til hagsmuna okkar. Eigi að síður er ég ekki sannfærður um að samlestur á þessum tveimur greinum tollalaga, 6. gr. og 147. gr., heimili í reynd þetta mikla framsal sem felst í þeirri hefð sem hér er verið að skapa. Þá vísa ég að sjálfsögðu til þeirrar greinar stjórnarskrárinnar sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson vitnaði í áðan, þ.e. um að skatta skuli ekki leggja á eða afnema nema með lögum.

Þetta, herra forseti, er ekki gert í krafti laga. Þetta er í reynd gert í krafti milliríkjasamninga. Þá er spurningin hvort þær heimildir sem til staðar eru séu nægilegar. Ég lít svo á að á undangengnum árum hafi menn talið að þær væru ekki nægilegar. Þess vegna hafa menn haft til siðs að koma með slík mál fyrir þingið og fá samþykki Alþingis fyrir viðkomandi fríverslunarsamningum. Spurningin sem vakir í huga mér er þá þessi: Hvað leiðir til þessarar breyttu túlkunar?

[19:45]

Ég tek það fram, herra forseti, að ég leggst ekki endilega gegn því að þessi háttur verði hafður á. Það getur vel verið að hann spari tíma og leiði til betri skoðunar á viðkomandi samningum, ef um er að ræða að þær nefndir sem ég nefndi hér áðan, auk utanrmn., taki þá til góðrar skoðunar. Hér er eigi að síður um þess háttar rof á vinnureglum að ræða að mér þykir við hæfi, jafnvel þó að ekki fáist svör við þessum spurningum við þessa umræðu, að farið verði að tilmælum hv. formanns efh.- og viðskn. og fjmrn. geri efh.- og viðskn., við gott tækifæri, grein fyrir þessu. Jafnframt tel ég nauðsynlegt að þetta mál verði rætt í utanrmn.